Ertu líffæragjafi?

Árið 2003 fór ég inn á netið og skráði mig sem líffæragjafa. Sama ár gerðist ég blóðgjafi. Ég hafði aldrei hugsað út í þessi mál á meðan ég bjó á Íslandi, einhvernvegin kom þetta aldrei til tals, svo að var ekki fyrr en Dönsku bekkjarfélagarnir opnuðu augu mín í einni pásunni í skólanum. Ég man eftir þessu eins og þetta hafi gerst í gær. Líklega því ég varð vandræðaleg þegar ég uppgötvaði að allir hinir voru skráðir og að þeir ráku upp stór augu þegar ég sagðist ekkert hafa pælt í þessu. Svipað og „hvað segirðu, hefurðu ekki farið í bað í viku???“ Ég sem sagt, skráði mig með det samme.

Þegar ég kom heim þennan dag, sendi ég Fúsa beint á netið til að skrá sig líka og hringdi í foreldra mína til að láta þau vita svo að engum kæmi neitt á óvart ef að við allt í einu yrðum stödd í þessum aðstæðum. Við höfum alltaf talað opið um þetta okkar á milli á heimilinu og eins og staðan er í dag, finnst okkur þetta bara sjálfsagt mál. Eins dauði getur orðið annars brauð.

Sjö árum eftir að ég skráði mig sem líffæragjafa varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera viðstödd líffæragjöf. Ég var tiltölulega nýbyrjuð á gjörgæslunni, mætti á næturvakt og var úthlutað stofu þar sem um heiladauða var að ræða. Í tólf tíma á undan hafði verið unnið hörðum höndum að því að varðveita líffærin í sjúklingnum, skipuleggja og gera móttakarana fimm tilbúna í Odense, Kaupmannahöfn og Malmö. Á skurðstofunni var andrúmsloftið mjög sérstakt. Ég upplifði það sem stórt, STÓRT. Þegar ég sá fólkið frá Odense, Kaupmannahöfn og Malmö standa með sín verkfæri og kassa, tilbúið að sækja „sitt“ líffæri, fann ég svo sterkt að það lægu fimm manneskjur á öðrum sjúkrahúsum sem höfðu beðið og sárvantað líffæri í einhverntíma, sem væru meira en tilbúnar til að hefja betra líf og lengra. Ég hef séð margar aðgerðir í gegnum tíðina og krufningu, en þetta var allt öðruvísi. Tilgangurinn var svo ólýsanlega mikill. Allt var framkvæmt með svo mikilli virðingu og fagmennsku, sem varð til þess að þetta ferli er eitt það stærsta og fallegasta sem ég hef upplifað.

020914-040923_organ

Já, ég fæ hreinlega gæsahúð þegar við erum með líffæragjöf á gjörgæslunni. Það eru svo margar tilfinningar og tilgangur tengt þessu stóra ferli.

Það er ekki minna ferli þegar líffæri eru flutt á milli lifandi fólks. Innan stórfjölskyldunnar minnar er ættgengur nýrnarsjúkdómur og hafa of margir látist um aldur fram vegna hans. Þar á meðal amma og móðurbróðir minn. En það hafa líka gerst yndislegir hlutir sem krefjast mikillar fórnfýsi og mikils manns. Báðar aðgerðir (að gefa frá sér nýra og þiggja nýra) eru áhættusamar og eins lífið á eftir. Þessvegna er þetta svo fallegt og stórt, bæði að þiggja og gefa.

Í gær þáði frændi minn nýra frá syni sínum. Mikið var gaman að sjá mynd af honum í gærkvöldi á facebook, vakandi og brosandi. Ég óska þeim báðum innilega góðs bata og betra lífs (jafn góðs lífs í sonarins tilfelli).

Það tekur um 2 mínútur að skrá sig sem líffæragjafa á netinu … við getum betrum bætt líf, lengt líf … bjargað mannslífum … og kistan okkar verður örlítið léttari 🙂

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *