1. desember

Það má segja að ég hafi verið mjög heppin kartafla í dag! Heppnari en venjulega.

Rétt fyrir hádegi mundi ég eftir að ég ætti eftir að skrá mig í næstu lotu í skólanum (sem byrjar í febrúar) og fór því inn á heimasíðuna til að klára það. Ég klikkaði og klikkaði, valdi stað og tíma og klikk. Þá blasti við mér skærbleik línan… SÍÐASTI frestur er 1. desember!!!

WAD_1_Dec_calendar

1. desember!!! Ég trúði ekki mínum eigin augum.

  • Dagur eyðni sjúkdómsins.
  • Fullveldisdagur Íslendinga
  • Brúðkaupsdagurinn minn
  • 1. í aðventu

Og ég orðin of sein að skrá mig! Því í dag var 5. desember!

Ég greip fyrir andlitið og reyndi að ná stjórn á önduninni. Hvernig átti ég að segja yfirkonunni á deildinni frá þessu? Að ég hefði klúðrað algjörlega að skrá mig á rándýran skólabekkinn! Að allt vorplanið væri komið á hliðina? Ég fór í mat og sagði ekki orð. Síðan fór ég á fund og sagði ekki orð. Kl. 14:55, fimm mínútum fyrir vinnulok, hætti ég mér í dyrnar hjá henni og stundi upp vandamálinu.

„Hvað segirðu, hvað er vandamálið???“ spurði hún aftur þrátt fyrir að ég hafi verið óvenju skýrmælt.

„Vandamálið er að það er 5. desember í dag!!!“ sagði ég, en langaði til að garga það og gráta líka.

„Vina mín, ef það væri 5. desember, værir þú væntanlega ekki á landinu… þú er ca. mánuði á undan okkur hinum í augnablikinu“ sagði hún og brosti svo róandi til mín, líkt og móðir Teresha hefði gert.  (Sko þetta með að vera ekki „á landinu“ er planið mitt í desember).

Ég tilkynnti ÖLLUM í búningsklefanum að það væri bara 5. nóvember í dag og ég væri öldungis hamingjusöm með það! Hinar spurðu hvort ég hefði ekki verið svakalega stressuð fyrst að ég var komin alla leið í desember? Nei, reyndar ekki, þótt ég ætti allt eftir, bæði ALLT jólastúss, eina ritgerð sem væri komið að, að skila og að auki ekki á landinu… Nei sama og ekkert stress.

Þessvegna ætla ég út að hlaupa núna eða „hlaupa“… því í raunveruleikanum ætlum við allar að fara synda naktar í 11 gráðu heitum sjónum og sleppa öllu hlaupi.

Eigið sem allra best og afslappað miðvikudagskvöld.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *