Hjónabandserjurnar í desember

Þegar ég var á Íslandi um daginn, leist mér síður en svo á blikuna þegar mamma fór að tala um vont veður og ekkert flug í vændum. Ég þurfti nefnilega að komast til Danmerkur þar sem húsbóndinn hafði skreytt heimilið á meðan ég skar út laufabrauð og mokaði skít á Eiðum. Ég gat á engan hátt ímyndað mér að skreytingarnar væru eftir mínu höfði.

IMG_2105

Það stóð heima, allt var á ská og skjön, nema hornin sem ég fann í hlíðum Strandartinds og uppi á Bríkum í Loðmundarfirði. Þau var hann búin að hengja upp og ég heldur betur í skýjunum. Annað en yngri heimasætan, sem segir að þetta sé einum of sveitó!

IMG_9659

IMG_9661

Það var líka nokkrum seríum hent upp á brúðkaupsdaginn okkar um daginn, eftir að við komum heim frá Íslandi og áður en ég fór aftur til Íslands. Vaskur fór í draugabúninginn sinn fyrir þessa mynd. Hann er svo hrifin af búningum.

IMG_9638 IMG_9652

Honum finnst heldur ekkert leiðinlegt að sveipa um sig brúðarslöri. Fúsi segir að þetta sé ekki við hæfi þessa karlhunds, en ég er á öðru máli þar sem þetta er eins manns brúðkaup og því þarf hann bæði að vera brúðgumi og brúður.

Reyndar er það fleira sem húsbóndinn og ég erum ósammála um. Og ekki er desember skárri en aðrir mánuðir. Endalausir árekstar. T.d. eru jólakortin eitt af stóru ágreiningsefnunum. Ég held rígfast í kortin, ár eftir ár, sama hvernig stendur á. Fúsi vill sleppa þeim og hefur sagst ár eftir ár, vilja gefa Afríkubúum eina geit fyrir andvirði kortanna. Ég hef bent honum á að við ættum bæði að geta gefið geit OG sent jólakort, því ekki höfum við verið á sveitinni hingað til.

Jólatréð var tekið inn í vikunni. Jólatréð hefur orsakað þónokkurt ósætti undanfarin ár. Ég hef ráðið stærðinni að mestu og gamlinn verið hálf ósáttur við þessi risavöxnu tré sem ég hef heimtað að hann sagaði niður fyrir mig. Síðasta ár sagðist hann ætla að fara einn og sækja. Og það stóð við heima. Hann laumaðist á meðan ég spígsporaði í Spa í Reykjavík. En viti menn, ekki var tréð minna en undanfarin ár. Ég þurfti enn einu sinni að grípa garðklippurnar og hindra árás trésins á fjölskylduna.

IMG_9656

 

Og þessi klipping var líka valdur að ósætti. Því ég klippti ekki nógu snyrtilega; hvort ég gæti ekki sett þetta beint í poka, í staðin fyrir að þeyta þessu út um allt hús? Afhverju? spurði ég, og sagði honum að það tæki mig 90 sekúndur að sópa þessu saman…

Hann sagði að jólatrésklippingin minnti hann á þegar mér dytti í hug að „fara í garðinn“ og hann kæmi síðan heim úr vinnunni og héldi að ég hefði verið á traktor með gaffli í garðinum. Svoleiðis væri umhorfs.

Síðan að skreytingunum, eins og áður sagði, skreytti hann á meðan ég var fjarverandi. Hann var voðalega hreykin og ánægður með sig, sagði að þetta væri bara fínt svona.

Mitt fyrsta verk þegar ég vaknaði á þriðjudagsmorguninn var að laga þessar skreytingar.

IMG_9594

 

T.d. voru þessi tré á sitthvorum staðnum. Fúsi sagði að það væri til að skógurinn í glugganum virtist stærri… skógurinn í glugganum???

Um leið og ég leit stofuna augum, fann ég að það vantaði eitthvað. Eitthvað mjög mikilvægt. Var fljót að átta mig á að það voru sjálf æskujólin!

IMG_9605

Glerskórinn sem ég hef átt síðan ég man eftir mér. Eiginmanninum hafði bara yfirsést hann og lá því skórinn enn ofan í kassa, ílla varinn, innan um skraut sem ekki er notað.

Fallegu snjókornin sem Dísa vinkona gerir, voru komin upp en ekki í þeirri röð sem ég vildi. Ég lagaði það bara á svipstundu.

IMG_9613

 

Það tók mig aðeins 2 daga að betrumbæta skreytingar húsbóndans.

En það er ekki allt, innpökkun á gjöfum er líka hitamál. Ég vil vanda mig, setja fallega borða, hreindýr, ber, glansmynd og epli á pakkana. Pappírinn verður líka að vera í stíl. T.d. er EKKI hægt að pakka inn í rauðann og gylltann pappír og setja fjólubláann borða á. Nei, það er ekki hægt Sigfús minn! Ekki frekar en að skrifa nafn og heimilisfang á hvolfi á umslögin utan um jólakortin. Þessvegna neyðist ég til að standa í þessu ein… alein… ár eftir ár.

Ég notaði einn af pökkum bróður míns sem dæmi og spurði Fúsa hvort honum fyndist þetta í lagi?

IMG_9668

 

Hvað er að þessu??? spurði Fúsi.

Svosem ekkert að þessu ef Maggi hefði svarað satt þegar ég spurði hann hvort litli þriggja ára frændi minn hefði verið að verki? Ha? Já, já já, var svarið. Ég vel að trúa honum.

Annars er ég bara róleg, ligg að mestu og les um heimilislífið hjá fólkinu í Hvammi í Hrútadal og finn lyktina af heyinu þeirra. Er að verða búin með smákökurnar sem ég bakaði í vikunni og er hætt að skreyta. Pabbi (ég átti tvo muniði) spurði Fúsa að því kvöld, hvort ég væri nokkuð geðstirð á morgnana, Fúsi sagði að ég væri alla jafna einstaklega geðgóð, nema þegar ég væri svöng, þá væri ég verri en soltinn hundur, ég biti til blóðs. Hvernig dettur honum í hug að segja svona? Aldrei á ævinni hef ég bitið til blóðs.

 

 

 

 

 

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *