Vikan

Afrek vikunnar: Ég stundaði íþróttir 5 sinnum í þessarri viku, 5 daga í röð. Það þýðir að ég er strax komin í feikna form og þarf því ekki að stunda meiri íþróttir fyrr en um og eftir páska.

Fyndni vikunnar: Ég get því miður ekki sagt ykkur frá því þegar ég keyrði nemann minn hátt upp í loftið á stóru skrifborði í vinnunni í ekta fíflaskap og bossinn kom gangandi fyrir hornið ásamt fínni heimsókn. Við skutumst eins og mýs í allar áttir í svo miklu hláturskasti að það lá við lömun. Nei, þessu get ég ekki sagt frá því ég er að sjálfsögðu mjög ábyrgðarfullur hjúkrunarfræðingur og haga mér því ekki svona. Tek samt fram að það var mjög rólegt í vinnunni og ein átti að standa vakt, ef bossinn skyldi koma. Vaktin klikkaði alveg.

Ég segi frekar frá því þegar við Vaskur vorum úti að ganga í gærmorgun í hvassviðrinu Dagmari (veðrið var skýrt Dagmar, í dag heitir það Egon). Ég var í vatns og vindheldu og klár í slaginn. Vaskur er með tvöfaldan feld og fær í hvaða sjó sem er. Við gengum fram á 6 mannahóp í göngutúr. Þau voru öll í fallegum ullarkápum, með pjónatrefla, prjónahúfur og með regnhlífar. Jú það var mígandi rigning en líka 20 metrar á sekúndu. Þau þrjóskuðust við að nota regnhlífarnar og trúið mér, það var óborganlegt að fylgjast með þeim. Meira að segja Vaskur, með sitt hundsvit, sá hversu kómískt þetta var.

Tilhlökkun vikunnar: Ég var að senda lokaorð í Austurgluggann af stað og reikna ég með að þau birtist næst. Til umfjöllunar í þessum lokaorðum eru; Grundfirskur drengstauli, Hafnfirskur hóll, bóndinn á Mjóeyri og trillustrand sem við Sigrún ullum. Kaupið Austurgluggann eða gerist bara áskrifendur. Þessi pappírsblöð verða að halda lífi, annars fáum við ekkert í póstkassann.

Gleði vikunnar: Fyrst ég var að minnast á póstkassa, þá er best að halda því áfram. Það var eitthvað sem vakti mig kl. 11 í dag (of snemmt, var á næturvakt) og ég kíkti á símann. Þar var mikið um tilkynningar og hamingjuóskir á milli skólafélaganna því einkunninn fyrir ritgerðina var komin í póstkassann. Þessi ritgerð muniði, sem ég lofaði að minnast aldrei aftur á, þessi sem ég skilaði frá Eiðum og var búin að fá algjörlega nóg af. Skilaði bara eitt föstudagskvöldið, eftir að aðeins ein hafði lesið yfir (læt alltaf minnst tvo lesa yfir) og þrátt fyrir að yfirlesarinn hafði sagt að niðurstöður og sjónarhorn (perspective) hefði drepið hana úr leiðindum. Ég nennti ekki að spá meira í það, skilaði bara og fékk 10.images

Djöfull er ég hrikalega sátt. Í Danmörku er notast við alþjóðlega ECTS einkunnakerfið (ABCDE…). Er hreinlega í skýjunum því ég var farin að efast mikið um tveggjastafa tölu. 10 10 10 10 10 10 10… ég er svo glöð. Ég get ekki sagt frá henni án þess að dansa hana með tilheyrandi látbragði.

Njótið helgarinnar.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *