Öryggið á oddinum í myrkrinu

Ég hef verið afskaplega ötul við að auglýsa hlaupin mín í blogginu undanfarin ár. Bæði með myndum og í texta. Einstöku sinnum hef ég þó viðurkennt að ég hleyp mest lítið, heldur þykist ég bara gera það. Reyndar hleyp ég endrum og eins, eða reyni það, grunar samt að það líkist minnst hlaupi, er víst með einhversskonar hlunkastíl og svo fer að freyða blóðlitaður vökvi út úr mér. En semsagt, ég hætti mér einstöku sinnum út á myrkrar göturnar með stelpunum í hlaupaklúbbnum.

Þórey vinkona mín úr prjónaklúbbnum (þar mæti ég alltaf með prjóna og smá spotta en læt mér oftast nægja að borða köku) hafði veður af þessu hlaupi í sortanum og brá í brún þegar ég sagðist ekki fara í skærgult hlaupavesti. Nei, sagði ég, það kemur ekki til greina, það er ekki töff. Þóreyju leyst ekki á blikuna og sagði að það gengi ekki að vera ósýnilegur á götunum en var hjartanlega sammála mér um að þessi vesti væru ekki fallegar flíkur.

Ég gerði mér fulla grein fyrir áhættunni. Sprungið milta, sem síðar yrði fjarlægt, fótleggur klipptur af fyrir ofan hné, hægra lunga fallið saman, heyrnalaus á vinstra, mölvað viðbein osfrv. þ.e.a.s. ef ég yrði t.d. á milli tveggja bíla, sem er alls ekkert til að grínast með. En í svona ílla gult vesti fer ég ekki. Maður verður eins og lítil gul og sjálflýsandi tunna í laginu. Ímyndið ykkur hóp af fólki hlaupandi í svona vestum í myrkrinu. Svo kemur bíll með háuljósin og sér bara litlar gular tunnur skoppandi þyngdarlausar í loftinu. Ekki töff.

Þessvegna, vegna allrar þessarrar áhættu og líklega vegna þess að Þóreyju er annt um mig, lagði hún höfuðið í bleyti í bala til að tryggja öryggi mitt í umferðinni.

IMG_0136-2

Og hannaði og saumaði þessa mittisól sem skín svo fallega og dregur fram það besta úr mittinu á mér þegar bílljósin skella á því. Reyndar sést það ekki sem best á þessarri mynd því ég gat ekki verið kjurr og því breikkaði mittið og ég varð gegnsæ af kulda, en ef þið vissuð hversu kalt er úti og hversu hrikalega óþolinmóð ég er í svona myrkratökum, ásamt því hversu mikið vesen þetta er, þá sýniði myndinni fullan skilning. Aðeins einn séns, ein mynd og svo inn aftur í sjóðheitt bað.

Þessi mittisól, sem ég vil ekki segja ykkur of mikið frá því hönnunin er eyrnamerkt Þóreyju að svo stöddu, er eiginlega algjör snilld. Fyrir utan að draga fram kynþokkann, með sérstaku efnisvali og samsetningu, þá er hægt að leggja hana saman, setja í meðfylgjandi vasa og stínga í vasann á flíkinni sem maður er í. Tilvalið ef maður þarf að skjótast inn í Kaupfélagið, því ekki lætur maður sjá sig með endurskinsmerki inn í verslunum. Auk þess er smella.

Nú get ég aldeilis haldið virðingunni og litið sómasamlega út, ásamt því að hafa öryggið á oddinum þegar ég þykist fara út að hlaupa með stelpunum. Þökk sé Þórey 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *