DIY ~ 1. og 2. verkefni.

Ég get verið svo eftir á. Svo lengi að fatta, eiginlega alveg steinsofandi gagnvart því nýjasta og heitasta í samfélaginu í kringum mig.

DIY ~ afhverju hef ég ekki bloggað um DIY áður? Þetta er algjörlega eitthvað fyrir mig. Ekki get ég verið matarbloggari og hvað þá tískubloggari. En DIY, það er einmitt ég. Eins augljóst og það er nú, þá stendur DIY fyrir „gerðetta sjálf“. Og ekki dettur mér annað í hug en að ykkur dauðlangi til að fylgjast með mér framvegins í öllu því sem ég ætla að gera sjálf. Hingað til hef ég ekki gert handtak sjálf, heldur alltaf bara hringt í vini, ættingja, fyrirtæki og Fúsa.

Fyrsta verkefnið mitt í dag var að taka peysu sem í tvö ár hefur reynt að kyrkja mig. Þetta er rándýr og nauðsynleg merkjapeysa og þessvegna hefur hún ekki farið í rauðakrossgáminn. Ég hef þrjóskast við. Hálsmálið er eða VAR svo þröngt að ég krækti alltaf vísifíngri í það og þar hékk hann við allar aðstæður, þegar ég borðaði, hljóp, horfði á sjónvarpið, málaði mig og las bók.

Eftir morgunmatinn í morgun fékk ég nóg, reif mig úr peysunni og sótti sníðaskærin. Já ég á svoleiðis. Ekki hélduði að ég hefði notað kjúklingaskærin? Nei ég á ekki kjúklingaskæri.

Svo bara klippti ég, það tók um það bil 20 sekúndur. Þar næst fór ég í hana og tók mynd.

IMG_0423Ég blörraði aðeins hálsinn svo húðin virki mýkri og ekki síst yngri. Og nú kyrkir peysan mig ekki lengur.

Þar næst tók ég sjálft hálsmálið og setti það á hausinn á mér. Vola, komið hárband. Nota bene, merkjahárband!

IMG_0420

Þessu fann ég alveg upp á sjálf og gerði sjálf. Þið megið líkja eftir, án gjalds.

IMG_0428

Vá hvað þetta var auðvelt og fljótlegt. Ég vildi ekki taka meira af hálsmálinu ef það tekur upp á því að rakna upp eða vera með eitthvað annað vesen.

IMG_0430

Ég gleymdi að taka mynd áður en ég klippti, en svona var ég alltaf… vísifingur hangandi í hálsmálinu lon og don.

IMG_0435

Ég er hæstánægð með útkomuna á fyrsta DIY verkefninu mínu og mæli eindregið með því að þið kastið ykkur út í þetta og leyfið alheiminum að fylgjast með.

Hvað þarf í akkúrat þetta verkefni; að klippa hálsmál af 66n peysu?

  • Eina rauða 66n peysu (ca. 20.000 ISK í 66n búðinni)
  • Sníðaskæri, rauð í stíl við peysuna (ca. 1000 DKK í Stof2000)
  • Einn líkama af manneskju til að máta
  • Hár (Hair by Hjördís)
  • Hringar (H&M ca. 40þús ISK allt í allt)
  • Lífrænt naglalakk (H&M) í stíl við 66n merkið á peysunni (ca. 250 DKK)
  • Förðun á bringu; Blátt, bleikt og gult Glimmer frá Tiger, að sjálfsögðu lífrænt, án parabena, sýru, bensíns, ilmefna, rotvarnarefna og litarefna. Hvorki testað á dýrum né börnum (ca 750 DKK)

En ég lét ekki þar við sitja. Ég var full af orku og sjálfstrausti þannig að ég hreinlega kastaði mér út í næsta verkefni.

IMG_0447Ég fann gamla græna kistlinum nýjan stað og setti hann sjálf í hilluna. Útkoman er stórglæsileg enda er ég annálaður fagurkeri. Ég ætla rétt að vona að þið takið eftir græna litnum sem er gegnumgangandi á myndinni? Kistillinn, þetta græna í barnabók nr. 2 og 18 og grasið á myndinni af Aldísi og Lappa á myndinni á veggnum í fjarska. Ég á varla til orð yfir sjálfa mig. Þvílíkur snillingur sem ég er. Auk þess er kistillinn skemmtileg blanda af gömlu og MJÖG gömlu. Lyklakippan er ca. 25 ára gömul Levis kippa og kistillinn sjálfur er langt yfir hundrað ára. Langafi minn hannaði hann og smíðaði sjálfur í Loðmundarfirði fyrir þar síðustu aldamót. Hey vá, voruði að fatta þetta? DIY í Lommanum árið átjánhundruð og eitthvað?!!? Svona fer tískan í hringi.

Þessi tvö verkefni kröfðust mikilla heilabrota, orku, útsjónarsemi og næms auga, auk lipurðar með skærin. Ég varð alveg uppgefin, enda gaf ég mikið af sjálfri mér til ykkar. Ég hef því bara sofið restina af deginum, undir sæng, með dregið fyrir, bauga undir augunum og læsta útidyrahurð. Endilega ekki trufla mig fyrr en á morgun…

Ykkar DIY snilli.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *