Ég fór með bílinn á dekkjaverkstæði…

Ég tilkynnti öllum facebookarvinum mínum það í gær að mér hefði verið misboðið á dekkjaverkstæði í gærmorgun. Örlítið vegna kyns en þó lang mest sem ökumanns með löggilt ökuskírteini.IMG_2311 Það var nú þannig að þegar bíllinn var tilbúin en enn inn á verkstæðinu, gat ég bara tekið hann og bakkað honum út. En þessi bökkun krafðist þess að ég bakkaði í S, því litla bílaplanið var troðið af allskonar bílum í öllum stærðum og gerðum ásamt ruslatunnu og síðan er útkeyrslan út á götu á ská til hliðar. Áður en ég settist inn í bílinn, bauðst Kurt verkstæðismaður til þess að bakka bílnum út fyrir mig. Ég missti hökuna langleiðina suður að nafla, brosti síðan og sagði honum að ég væri með bílpróf.IMG_2314 Hann sagði þá að mörgum þætti óþægilegt að bakka þarna út og brosti á móti. Ég klappaði hliðarspeglinum vinstra megin og sagði að til þess væru nú speglarnir, auk þess væri spurning hvort fólk sem þyrði ekki að bakka þennan litla spotta ætti að vera með bílpróf.IMG_2301

Já þarna var verulega að mér og bílprófinu mínu vegið. Eina prófið sem ég fór í á unglingsaldri sem var upp á líf eða dauða. Og það var ekki neinn einasti séns í mínum huga að fá ökuskírteinið í hendurnar 4. ágúst 1992. Ég VARÐ að fá það 2. ágúst 1992. Þótt annar væri sunnudagur og Sýsluskrifstofan opnaði ekki fyrr en á þriðjudeginum á eftir vegna frídags veslunarmanna. Svo mikilvægt var bílprófið fyrir mér. Og svo bauðst hann til að bakka fyrir mig??? Innanbæjar??? Á malbiki??? Í fínu veðri??? Aldrei í lífinu. Kannski og bara kannski, þæði ég boð um bökkun, ef það þyrfti að bakka yfir Kreppu – í vorleysingum – í myrkri -með tjaldvagn aftan í – og það væri lægð yfir landinu.

Jú og Fiat. Ég get ekki bakkað Fiat því ég get ómögulega sest inn í þannig bíl. Hurðarnar standa bara alltaf á sér. Kemst ekki inn.IMG_2322

Ég spurði Fúsa hvort hann hefði fengið þetta boð um útbökkun hjá Kurt? (höfum verslað hjá þeim í 14 ár). Fúsi hló: hahahaha og sagði síðan NEI. Að það hefði hann aldrei fengið. Ég sagði honum raunarsögu mína, lét tvö tár falla um leið og saug hraustlega upp í nefið. Hann snöggreiddist og ætlaði að fara og sýna Kurt í tvo heimana. Ég stoppaði Fúsa og stakk upp í hann heitri pönnuköku, löðrandi í sykri. Allt féll í ljúfa löð.IMG_2310

(það er allt í lagi að hætta að hlæja að myndinni núna… Ég var bara 18 ára og nýbúin í litgreiningu. Var greind vor með kóral sem ríkjandi lit) 

En byrjum á byrjuninni því þetta var engin venjuleg dekkjaverkstæðisferð en þó dagsönn.

Dekkin undir drossíunni voru orðin handónýt svo tími var komin til að skipta. Fúsi samdi við verkstæðið og fékk ágætis tilboð. Hann hringdi svo í mig kl. 7.50 í gærmorgun og sagði að þeir gætu tekið bílinn kl 8.20. Eins og ég hef margoft sagt ykkur, hef ég alltaf verið örlítið veik fyrir dekkjaverkstæðismönnum, svo ég eyddi óratíma og tveimur kaffibollum fyrir framan spegilinn, sprautaði á mig besta ilmvatninu og pakkaði hundinum í bílinn og keyrði á verkstæðið -talsvert of sein.

Þegar þangað var komið, flýtti ég mér að afhenda bílinn, sagði að lykillinn væri í og ætlaði að fara með hundinn í göngutúr. En Kurt stoppaði mig, reyndi að rifja upp hvað ætti að gera? Nú, skipta dekkjunum út, svaraði ég.

„ertu með hin með þér?“

„já það liggja einhver í aftursætinu“ (betri felgur á sumardekkjunum)

Fínt, en þetta tekur alveg upp undir þrjú korter… sagði hann og klóraði sér í skegginu.

„já já, það er í góðu, labba bara með hundinn á meðan“

… svo fór ég.

Þegar ég var komin frekar langt frá verkstæðinu, fór ég að spá í hvað maðurinn hafði virst óöruggur með hvað ætti að gera og fékk skyndilega áhyggjur af að hann myndi bara setja gömlu dekkin undir. Hringdi í Fúsa og spurði hvort hann hefði ekki örugglega verið búin að semja um allt og að allt væri á hreinu. Jú jú, allt átti að vera undir kontról.

„ok, mér fannst bara vera einhverjar vöbblur á Kurt…“

„KURT???? HVERT. FÓRSTU. MEÐ. BÍLINN???“

„nú, til Kurts…?“

Í ljós kom að ég hafði átt að fara með bílinn á allt annað verkstæði lengst út í bæ. Fúsi lét ánægju sína með mig ekkert sérstaklega í ljós og meira að segja æsti sig þónokkuð. En þarna játa ég vanmátt minn. Þótt ég sé mikil dekkjaáhugamanneskja og hafi alltaf verið, þá nær sá áhugi ekki lengra en bara til stærðar, breiddar og lits. Fallega svört dekk í réttri stærð jafnast á við soðna ýsu með miklu smjöri og nýjum kartöflum. Ég hef annars ekki hundsvit á dekkjum né dekkjaverkstæðum, hvorki hvað þau heita né hvar þau eru. Ég rata bara á eitt og það er við enda götunnar minnar.

Ég flýtti mér eins og fætur toguðu að sækja bílinn til fara með hann á rétt verkstæði og hljóp beint í flasið á Kurt sem tilkynnti mér að kallinn minn væri nú ekki með öllum í mjalla. Að Fúsi hefði hringt og hefði ekki viljað hlusta á tilboðið sem Kurt vildi bjóða honum fyrst bíllinn var komin á staðinn.

Þar sem ég var óhemjuvandræðaleg, bæði vegna ruglings á verkstæðum og yfir að vera nöppuð við svíkja verkstæðið þar sem við erum búin að vera fastakúnnar í 14 ár, kunni ég ekki við annað en að hlusta. Og viti menn, það var mikið betra! Dekk með flottara mynstri og áttu að keyra 18.000 km lengra. (Ég trúði því). Ég hringdi í Fúsa og spurði hvern anskotann það ætti að þýða að hlusta ekki á Kurt sem væri með þetta kostatilboð. Endirinn varð því sá að við tókum tilboðinu hans Kurt, spöruðum talsverðan pening, fengum betri dekk (svarti liturinn var dýpri) og lofuðum að fara aldrei aldrei aldrei neitt annað eftir þetta.

En grey Fúsi þurfti að hringja í hitt verkstæðið og afboða…

„Já hæ, heyrðu, konan mín ruglaðist á verkstæðum og það voru bara sett ný dekk undir bílinn fyrir hana áður en ég vissi af… sorrý“.

Karlinn varð hoppandi æfur og lagði til að Fúsi skipti þessari hálfheilalausu konu sinni út „med det samme“.

Og hvað kennir þetta manni? Að vera ekkert að breyta til. Halda bara tryggðarböndum við Kurt.IMG_2305

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *