Lára Ómarsdóttir

Mér hafa alltaf þótt spurningar mjög skemmtilegar. T.d. spurningarpróf þar sem ég þurfti bara að svara með stuttu svari. Sérstaklega landafræði; Hvað heitir heiðin milli Egilsstaða og Vopnafjarðar? Ég veit það, ég veit það!!! Hellisheiði. Eða hvað heitir miðmaginn í manneskjum? Corpus ventriculi! Spurningarspil eru líka uppáhaldsspilin mín. Ég tek glöð í bragði þátt í 45 bls. spurningarkönnunum sem detta inn um bréfalúguna. Ég hef óskaplega gaman af skriflegum viðtölum við fólk þar sem spurt er spurninga og svörin eru stutt.

Ég tek líka iðulega viðtöl sjálf, get t.d. ómögulega afhent lyfjasprautu í vinnunni nema spyrja nokkra spurninga fyrst, og nota að sjálfsögðu sprautuna fyrir hljóðnema. Asena-PK-Cardinal-01

Í einstaka tilfellum er ég pirrandi vinnufélaginn, sérstaklega þegar mikið liggur á. Jæja ok, ég er oftast pirrandi vinnufélaginn. Fáum finnst þetta fyndið, nema mér. Á móti kemur að mér finnst þetta bráðfyndið. Alveg hreint drepfyndið!

Í trúnaði skrifað, ég hef beðið eftir í tugi ára að það verði tekið við mig skriflegt spurningarviðtal. Eitthvað annað en í Austra í gamla daga, þar sem ég var spurð hvaða ís í Söluskálanum mér þætti bestur. Í dag gerðist það loksins. Það bankaði einn mjög heitur upp á og spurði hvort hann mætti spyrja mig nokkurrar spurningar. Hann minnti mig á Helga Seljan sem tekur viðtöl á RÚV. Ég gaf honum kaffi, hann spurði:

Nafn? Dagný

Aldur? 39 og 3/4

Þjóðerni? Íslensk

Uppáhalds sjónvarpsstöð? RÚV

Uppáhalds sjónvarpsþáttur? Ferðastiklur

Uppáhalds sjónvarpsmaður? Lára Ómarsdóttir

Uppáhalds sjónvarpskona? Lára Ómarsdóttir

Flottasta sjónvarpsröddin? Lára Ómarsdóttir

Uppáhalds dagskrágerðarmanneskja? Lára Ómarsdóttir

Hvað er það versta við RÚV? Að hafa eitthvað sem heitir „Lokaþáttur“ í Ferðastiklum. 

Hvað má betur fara hjá RÚV? Hafa Ferðastikluþættina minnst 90 mínútur, eða bara tvo tíma. Ekki 40 mínútur. Sérstaklega þessa tvo síðustu. 

Hvað er það besta við RÚV? Ferðastiklur og Lára. 

Tókst mér að koma því til skila að ég er ýktur aðdáendi Láru Ómarsdóttur?18884-1

Þessir þættir slá meira að segja Landanum við og það þurfti mikið til þess.

Ég var spurð að því um daginn hversu gömul ég væri orðin, fyrst ég hefði gaman að Ferðastiklum… já nei, þessi áhugi hefur ekkert með aldur að gera, heldur þroska. Þetta er svona svipað og að borða hákarl. Þegar Danirnir byrja enn einu sinni að tala, fussandi og sveiandi, um hákarlaát á Íslandi og segja að þeir myndu aldrei setja þetta innfyrir sínar varir, svara ég alltaf: Forståeligt nok, man skal være sej (sæ) for at spise haj (hæ)! Sem þýðir: Skil það alveg, það verður að vera seigla til staðar til að geta borðað hákarl.

Hákarl og RÚV eru náskyld. Hálf gamalt og skemmtilega gott.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *