Fyrsti í sumarfríi.

Jesús Pétur, það lá við að ég myndi ekki leyniorðið inn á bloggið mitt því svo langur tími er liðinn síðan síðast. Eitt það nánasta látið sitja á hakanum. Ekki gott, ekki gott.

Í dag fór ég í langþrátt sumarfrí og það langt í ár. Heilar þrjár vikur og einn dagur. Einn auka dagur því ég kríaði út frí á morgun. Ég ætla ekki að skenka Gjörinu eina einustu hugsun í þessar þrjár vikur.

Það er nóg annað að spökulera.

Þið getið líklega aldrei giskað á hvað það er sem hefur fyllt út í tilveruna þessa dagana. Fyrir utan óteljandi klukkustundir í vinnunni að sjálfsögðu. Og fyrir utan að það tók mig fimm daga og fimm nætur að þakka öllum þeim sem sendu mér afmæliskveðju. Ég gat bara ekki annað. Þótti svo undur vænt um þær allar sem eina. Hef aldrei á ævinni fengið svona margar kveðjur. Þetta var bara eins og flóð! Ég elskaði þetta kveðjuflóð og las þær oft. Svona er að verða fertug.

En hvað hefur þá fyllt svona mikið undanfarna daga (eða ár), jú, engin leyndarmál hér á blogginu frekar en fyrri daginn; auðvitað er það komandi afmælisveisla sem hefur sama og enga athygli fengið! Það er hún sem er við það að gera mig hálf galna í augnablikinu. Eða réttara sagt, að gera fjölskylduna mína galna og þau gera síðan mig galna. Þetta fjandans dóminó!

Seinast í júní fékk ég stressmartröð þar sem ég mætti of seint í eigin afmælisveislu. Ég sagði ykkur frá því hérna. 

Í fyrrinótt fékk ég aðra álíka martröð. Í það skiptið voru allir gestirnir komnir en ég hafði steingleymt að kaupa drykkjavörur. Það var EKKERT til nema vatn úr krananum utan á húsinu. Vá hvað ég var vandræðaleg. Vandræðaleg er kannski heldur vægt til orða tekið. Mér leið hörmulega! Ég var við það að bresta í grát þegar ég vaknaði. Og fór því í gærkvöldi niður á landamæri og fyllti skottið, aftursætið og fangið af drykkjavörum. Hvorki meira né minna.

Já svona er nú lífið mitt þessa dagana. Svipað tilfinningarástand og þegar maður skrifar ritgerð eða les undir próf. Eina stundina er allt að ganga upp og maður getur algjörlega allt. Hina stundina er allt í messi. En í staðinn fyrir að gera eitthvað, t.d. brjóta servíetturnar eða tékka á jólaseríunum, þá hangi ég bara og blogga. Ég er samt ekkert að fara yfirum. Síður en svo. Er arfaslök inn á milli. Eins og núna.

Í vinnunni missi ég stundum hjartað niður í buxurnar en það er þegar vinnufélagarnir fórna höndum og barma sér, er þeir heyra að ég ætli ekki að panta svínakjöt frá veisluþjónustu heldur hafa heimatilbúið lambakjöt. Síðan krossa þeir sig í bak og fyrir þegar ég tilkynni yfir hópinn að ég borði ekki svínakjöt. Þeim finnst ég líka heldur aftarlega á merinni hvað varðar undirbúninginn. Ég sagði þeim að merin tölti betur ef hnakkurinn væri ekki fram á eyrum. Þessi menningarmunur stundum.

Ég gæti líka verið úti og snurfusað eitthvað. Eða nei, það rignir og auk þess er svarta myrkur. Við erum annars búin að setja gamla sófasettið út í garð. Eða réttara sagt, ég er búin að setja, gerði það fyrir mánuði síðan og Fúsi þolir það ekki. Hann segir að það sér mjög Hill Billy að hafa sófasett út í garði. White trash hill billy. Hef fengið að heyra þessi orð daglega í rúmlega mánuð. „Ætlarðu nú að sitja í þessu hill billy setti og drekka kaffið úr glasi?“ Hann meikar þetta bara ekki. Enda fínn gaur, alltaf í stífstraujuðum skyrtum.

Í öllu þessu stússi okkar er Vaskur bara sprækur. Hann hefur eignast mjög góða vinkonu í nágrannagarðinum og fer yfir til hennar að leika næstum daglega. Vinkonan er bara hvolpur og með flugbeittar tennur. Í gær kom hann óvenju snemma heim.

IMG_0541 IMG_0544 IMG_0545 IMG_0546

Að lokum óska ég ykkur og einnig sjáfri mér til hamingju með sumarfríið og megi ágúst verða yfirfullur með sól og sælu.

 

One Response to “Fyrsti í sumarfríi.

  • Guðrún Geirsdóttir
    9 ár ago

    Æi elsku Vaskur kallinn 🙁 Æðislegt með afmælisveisluna, hlakka til að sjá myndir 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *