Í búðunum…

Fyrst af öllu vil ég segja að langflest afgreiðslufólk er yndælis fólk. Hjálpsamt, brosandi og glaðlynt. Upp til hópa. Oftast er það líka sanngjarnt og hlustar á mig. Öndvegis fólk.

En einstaka, og aðeins einstaka afgreiðslufólk er alveg úti að aka. Heldur að ég sé greindarskert. Með lúkurnar fullar af peningum. Kaupi bara hvað sem er.

Nokkur dæmi:

VILA: Einu sinni vantaði Svölu pils. Svona pils. hmprod

Við fórum niður í verslunarmiðstöð og bæði í H&M og VILA þar sem verðmunurinn á þessu pilsi var þrefaldur. Það er í góðu lagi ef ástæðan er góð. T.d. lífrænt efni eða mannsæmandi laun sem saumakonurnar fá. Ég undraði mig og spurði afgreiðslustelpuna í VILA sem vildi ólm selja okkur dýrara pilsið. Einu rökin sem hún gat hrist fram úr erminni fyrir verðmuninum voru að hennar pils væri Object. Hún sagði Object 17 sinnum.

Hélt hún að ég sem kúnni væri svo vitlaus að kaupa eitthvað merki í blindni bara afþví að það væri merki?

Níu mánuðum seinna fer ég aftur inn í VILA því ég sá gínu í dyrunum íklædda gullfallegum leðurjakka. Ég stökk á hana, þreifaði, þefaði og sagði vá. Afgreiðslukonan kom svífandi og tók þátt í aðdáun minni og sagði svo: við vorum líka að fá dúnúlpur. Ég sagði að mig vantaði ekki dúnúlpu. Hún gekk að úlpunum og sagði að þær væru rosalega flottar og alveg nauðsynlegar fyrir haustið. Ég sagði að mig vantaði ekki dúnúlpu.

Hún: þær eru á svakalega góðu verði. 

Ég: ég á dúnúlpu. 

Hún: þær eru til í svörtu, brúnu og hvítu. 

Ég: ég á dúnúlpu, alvöru dúnúlpu sem andar. (Þær í VILA anda ekki og kosta bara 200kall)

Hún: Þessar ná niðurfyrir rassinn, niður að hnjám. 

Ég: Mér finnst það ofboðslega ljótt, en leðurjakkinn er töff, má ég máta hann?

Hún: það er svo gott að hafa dúnúlpur síðar því það er svo gott að vera heit að neðan

Guð minn góður, hún seldi mér ekki leðurjakkann þrátt fyrir að hann væri fjórum sinnum dýrari en síða dúnúlpan.

 

Ég hef verið að skartgripast mikið undanfarið og viðurkenni að ég er voðalega hrifin af þessslags glingri. Bæði ekta og óekta.

Best að nota tækifærið og hrósa Berglindi sem vinnur í skartgripabúð út á Grandagarði fyrir frábæra þjónustu. Ég fór líka í fína skartgripabúð í Kringlunni með vinkonu minni. Þar var þjónustan líka afbragð nema þegar afgreiðslukonan sagði við mig að þegar maður væri orðin fertugur þá vildi maður eiga ekta silfur og gull tertuspaða en ekki Ikea tertuspaða. Ég á tvo, annar er frá því þegar ég fór til Póllands fyrir 13 árum og hinn er með jólasveini á skaftinu. Ég hafði bara ekki spáð í að skipta þeim út! Getur einhver mögulega lánað mér ca. 50 þúsund kall fyrir tertuspaða úr silfri? Svona til að byrja með.

Ég fékk svo mörg gjafakort í afmælisgjöf og hélt því áfram að skartgripast hérna í Sönderborg. Fór inn í skemmtilega búð sem selur allskonar skraut fyrir heimilið, skartgripi og föt. Ég get alltaf bætt á mig armböndum og skoðaði því þess slags. Afgreiðslukonan vildi ólm selja mér bleikgullhúðað (koparrosa) sem er liturinn sem hefur verið að tröllríða öllu undanfarin tvör ár eða svo. Bæði í innanstokksskrauti og skartgripum. Ég sagðist ekki eiga neitt slíkt og vildi bara gull eða silfur. Finndist ekki passa að blanda öllu þremur saman.

Hún horfði á mig í forundran og sagði að öllu mætti blanda saman. Öllu. Sjáðu bara mig, sagði hún stollt. Ég þurfti þess ekki, ég var löngu búin að telja lauslega allt skrautið sem hún bar utan á sér. Hún var með:

2 konu belti sem bæði voru mikið skreytt á ólíkan hátt.

3 hálsfestar, allar úr sitthvorri áttinni.

3 eyrnalokka. Einn var svolítið rokk.

9 hringa

7 armbönd sem voru m.a. svört, grá, hvít, gull, bleikgull og dökkmetal

1 úr

Auk þess voru rennilásar út um allt á buxunum hennar og mikið munstur í jakkanum.

Minna mátti það ekki vera.

Þetta einkennir svolítið konur sem vinna í skartgripabúðunum hérna í Sönderborg. Þeim finnst þær vera jólatré og að það séu alltaf jólin.

Það getur borgað sig að eiga afmæli, ég fékk nefnilega fullt af ráðstöfunartekjum.

Í gær var ég í essinu mínu í bænum og fór líka inn í eina fatabúð og skoðaði leðurjakka.

Sá eini sem mögulega kom til greina (en samt ekki) var skoðaður í bak og fyrir og svo spyr ég afgreiðslukonuna sem ætlaði að selja mér hann. Hvernig leður er í honum?

Hún: það er bara leður, ekkert sérstakt þannig séð…

Ég: ha…? Ég meina, af hvaða dýri er leðrið? Mig langar sko helst í lamb. 

Hún fór að kíkja í miðann og sagði að þetta væri geitaleður.

Ég: já ok, og hef líklega virkað niðurdregin eða eitthvað því hún segir svo: Já, geit og lamb er það sama… Og brosti svellköld til mín.

Já hvernig getur maður ætlast til að fólk þekki mun á geit og kind, eða hesti og kú…?

Nóg um það.

Í dag fórum við hjónakornin á alþjóðlegan markað niður í göngugötu. Okkur þykir alltaf gaman á matarmörkuðum. Sérstaklega þegar maður má smakka og er kallaður „madam“ í tíma og ótíma.

IMG_1286„Ég vill ekki vera með á myndinni. Lofarðu að ég sé ekki með á myndinni?“
IMG_1291Takið eftir mismunandi andlitsdráttunum. Annarsvegar þegar hann horfir á ítölsku kaffistúlkuna og hinsvegar mig…
IMG_1293 IMG_1297 Hollenskir ostastrákar. Ég nuddaði þeim upp úr fótboltaleiknum. IMG_1303 IMG_1304 Pólskar pulsur… láttu mig hafa 270 stykki, sagði Gamli Gaur. IMG_1308 Parmaskinka. Láttu mig hafa þrjú læri, sagði ég. IMG_1315

Já við keyptum spánska parmaskinku, ítalskt kaffi, hollenskan ost, ítalska súkkulaðiköku og nougatköku, hollenska ostaslaufu, danska ýsu, pólskar pulsur og spánska paella.

Gott bæjarrölt þetta.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *