Þetta með fæðingarorlofið.

Ég vona að ég hafi ekki orsakað hjartaáfall hjá neinum með því að tilkynna mögulegt fæðingarorlof í síðustu færslu. Reyndar fékk Fúsi minn öndunarstopp. Hvað ertu að tala um??? stundi hann upp, blár í framan. Ég blés aðeins í hann og honum batnaði.

Ég var nefnilega ekki búin að nefna þetta við hann. Enda bara hugmynd ennþá. Sem hefur sprottið upp út frá því að mig vantar meiri tíma heima við. Þið sáum nú í síðustu færslu hvernig fór með þvottinn. Að þvo og þurrka tvær vélar tekur sjö daga á mínu heimili.

Ef ég færi nú bara í fæðingarorlof gæti ég verið heima í allavega fjórtán mánuði held ég. Því sem ríkisstarfsmaður í Danmörku má ég eða á ég að hætta tveimur mánuðum fyrir burð. Ég er annars afskaplega lítið inn í reglunum en veit að samstarfskonur mínar eru í burtu í óratíma.

Hugsið ykkur, frí í fjórtán mánuði! Ég gæti gert svo margt. T.d. lesið helmingi meira, bloggað meira eða jafnvel skrifað eitthvað meira af viti, mögulega horft á tvær Netflix seríur, hangið á kaffihúsum, farið í helgarferðir, eytt heilu sumri á Íslandi á afskekktum stöðum, klárað prjónastykkið mitt frá 2011, blásið í gler, skrappað… nei nú fór ég fram úr sjálfri mér aftur.

En þetta orlof sé ég alveg í hyllingum, sérstaklega þessa tvo mánuði fyrir fæðingu. Þegar maður hættir bara að vinna og hefur það huggulegt. Nema ef ég myndi smitast af ógleðisöldunni sem herjar á margar þungaðar kynsystur mínar nú til dags. Þegar ég gekk með mínar fyrir um tuttugu árum, voru ansi margar með grindargliðnun. Ekki samt ég, höfum það á hreinu. Núna hef ég ekki heyrt minnst á grindargliðnun í nokkur ár en í staðinn gubba þær. Merkilegt.

En gefum okkur að ég yrði jafn þrælspræk og áður. Þá yrði þetta minnsta mál. Skil ekki afhverju Gamli Gaur er með einhverjar vöflur.

Reyndar er arabíski kvensjúkdómalæknirinn minn líka með einhverjar vöblur. Hann segir að sá sem eigi að búa til barnið með mér sé orðin of gamall til að vakna á nóttunum og neitaði því að taka lykkjuna í júní, sagði að það væri í himnalagi með hana og vildi meina að ástæðan fyrir því að legið væri nánast á röngunni og því með vesen, væri álag. Ég neitaði því með öllu. Varstu að gera eitthvað nýtt? spurði hann. Nei, svaraði ég. Varstu í prófi eða einhverju? hélt hann áfram. Já í apríl. Aha það er það, sagði hann sigri hrósandi. Auk þess átti ég að hætta að ganga með úr sem virkaði og leyfa tímanum að njóta sín. Ég er reyndar ekki sammála, finn ekki fyrir neinu stressi en allur er varinn góður. Þessvegna hef ég gengið með batteríslaust úr upp á síðkastið. Bæði því mér finnst úrið flott en líka til að fylgja ráðum arabíska kvensjúkdómalæknisins. Vinnufélagarnir eru ekki par hrifnir. Segja að ég búi í Danmörku en ekki í Arabíu og að ég verði að mæta á réttum tíma í vinnuna, sama hvort legið sé á réttunni eða á röngunni.

Andskotinn.

Ég er reyndar að detta í einhvern biturleika gagnvart vinnufélugunum. Fyrir utan að þau eru alltaf að fara í fæðingarorlof þá taka þau líka umönnunardaga lon og don. Mig minnir að maður eigi rétt á tveimur á ári á barn fram að sjö ára aldri. Þær eiga ALLAR með tölu börn undir sjö ára. Nema ég. Ég get hvorki tekið umönnunardaga, né fæðingarorlof né uppsafnaða veikindardaga. Þetta síðasta er náttúrulega fáránlegt því ég á þá svo sannarlega inni. Að mér finnst. Ég hef líka reynt að nota hundinn. Bankaði á dyrnar hjá bossinum í síðustu viku og spurði hvort ég mætti fara heim um hádegi, því hundurinn hefði verið að gubba. Nei það mátti ég ekki. Ekki heldur þótt hann væri með augnsýkingu… í báðum augum.

Ég er í afar lélegri stöðu hvað þetta varðar með fullorðin börn og að detta úr barneign. Aldrei frí. Þessa vikuna er ég t.d. að vinna 54 tíma og það eru launaðir tímar og þar er öll sjálfboðavinnan þar sem ég m.a. þvæ þvott og elda mat, ekki talin með.

Að öðru, ég var að lesa bók um daginn sem heitir Rachel fer í frí. Í þeirri bók lærir Rachel að fyrirgefa sjálfri sér. Ég þurfti þess í gærmorgun. Ég braut mikilvæga reglu sem gerði sjálfa mig miður sín. Ég fór út í flýti að labba með Vask íklædd hlaupabuxum. Það gerir maður bara ekki.

Við skulum aðeins rifja reglurnar upp. Það er bannað að:

  1. vera í íþróttafötum ef það er ekki verið að stunda íþrótt. Göngutúr innanbæjar með hund er ekki íþrótt.
  2. vera í sokkum í sandölum. Þetta gildir ekki bara um karlmenn, líka konur. Ef táin á skónum er opin, þá er ætlast til að maður sé berfættur. Sérstaklega ef um fínni sandala er að ræða. Einstakar undanþágur er hægt að gera, t.d. ef það eru kvillar í fætinum pg sandalarnir heita Ecco.
  3. vera með bluetooth í eyranu nema maður sé að keyra og ef maður er handarlaus.
  4. fara í flíspeysu á kaffihús, veitingarstað, göngugötu, verslunarmiðstöð, tónleika, bíó, söfn, starfsmannafundi, leikhús og svona mætti lengi upp telja. Það má bara vera í flíspeysu á matsölustað ef maður er að koma niður af fjalli og blóðsykurinn er langt undan lágmarki. Og ef maður er í flíspeysutengdri vinnu. Það má heldur ekki fara í flíspeysu í viðtöl í sjónvarpssal.

Eins og mér finnst Bubbi alveg hreint frábær listamaður, þá þarf ég virkilega að forðast svona myndbönd. Þetta sem hann segir í þessu myndbandi skiptir ekki máli. Það er flíspeysan… í beinni á RÚV. Bogi Ágústsson myndi aldrei gera neitt þessu líkt.

IMG_1326

Ekki það að ég sé einhver tískugúru hahaha, síður en svo. Það kemur fyrir að mér skjátlast hrapalega. Eins og þarna, gangandi um miðbæ Sönderborgar í hlaupabuxum án þess að vera að hlaupa. Aldrei aftur og ég stend við það. Þegar ég var 17 ára sótti ég um nám í Verkmenntaskóla Akureyrar. Ég sótti um í snyrtifræði og vélstjórn. Ég fékk bara inn í vélstjórn. Það segir sitt. Ef ef maður fylgir þessum grundvallarreglum hér að ofan, þá kemst maður oftast klakklaust í gegnum daginn.

Eigið góðan dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *