Það sem tíminn líður.

Er það ekki skrítið að um leið og ég opna bloggsíðuna til þess að blogga um pabba heitinn, þá spilar Rás 2 lagið Gamli grafreiturinn (linkur hérna) en það var spilað og sungið svo fallega af Sædísi og Ásdísi í jarðarförinni hans.

Í dag er ár síðan pabbi dó, ár síðan mamma hringdi um morguninn og ég fór út í skóg (myndir hérna). Ár síðan það var skypað og grátið. Um kvöldið harkaði ég af mér og fór á fund með Pink Ladies.

Í gær var aftur Pink Ladies viðburður þar sem við skutum af einni töku. Sömu helgi og pabbi dó í fyrra. Ég hafði valið mér hlutverk sem ég átti að túlka en það var ekki fyrr en í gær sem ég áttaði mig á, eða fannst pabbi tengjast hlutverkinu mínu á margan hátt. Sveitin okkar, heiðin sem hann þekkti eins og lófann á sér, sá fjörður sem hann þekkti og tengdist best og ekki síst vonda veðrið. Hann lenti oft í vondum veðrum, hvort sem það var fótgangandi, ríðandi eða keyrandi. Ekki síst upp á þessari heiði. Hann talaði líka stundum um persónuna sem ég túlkaði þegar ég var krakki. Þess vegna vissi ég að Bjarna-Dísa væri til.

IMG_9324

Um daginn var ég með Vask hjá Myllutjörninni og sáum við fótbrotna blesönd. Við horfðum á hana skakklappaðist þarna um og þar sem brotna löppin var líklegast alveg í sundur, gat hún ekkert stjórnað henni. Ekki haldið henni uppi. Því lenti hún á henni í hverju skrefi og það virtist sem brotið stingist út í haminn. Öndin skakklappaðast að lokum út í vatnið og synti með erfiðismunum inn í sefið.

Svona sjón fær hjartað í mér til að blæða. Dýr sem þjást, ég höndla það ílla.

Þarna varð mér hugsað sterkt til pabba og óskaði þess að hann hefði verið þarna með mér. Honum fannst líka erfitt að horfa upp á dýr þjást. Því batt hann gjarnan enda á þjáningarnar ef ekkert annað var í stöðunni.

Hann var afbragðs veiðimaður, skaut hreindýr á heiðinni, gæsir á túninu og rjúpur í Ásgeirsstaðaskógi. Til að hafa í matinn. En hafði líka gaman af. Veiddi silung í net fram á síðasta dag. Mamma hafði ekki undan að verka og flaka síðasta haust.

Hann lógaði heima, hvort sem það voru hestar, hundar eða kettlingar. Þetta taldi hann betra og manneskjulegra en að senda dýrin annað. Þetta fórst honum alltaf vel úr hendi þótt honum þætti þetta erfitt. Sérstaklega þegar hann tengdist dýrunum mikið en hann treysti bara ekki öðrum en sjálfum sér í svona leiðindarverk.

Ef hann hefði verið með mér við Myllutjörnina, hefði öndin líklega ekki þurft að þjást meira.

Svona var pabbi.

En hinn pabbi er sprækur. Ég átti tvo muniði.

sessa4

(Ljósmynd: Sessa vinkona á símann – svo samsung er ekki alslæmt…)

Pabbi gaf mér hryssu í fertugsafmælisgjöf í sumar. Jarpskjótta. Síðan varð hún grá einn daginn og einu ári eldri. Í dag, þremur mánuðum seinna hefur hún elst um enn eitt árið en samt ennþá grá… Sú fyrsta var nafnlaus, sú núverandi heitir Magga.

Magga.

Magga töltir alveg feikilega vel. 

Ég ætla að halda Möggu undir Hrafn frá Holtsmúla. 

Magga er í óhemju góðum holdum núna. 

Magga.

Ég er orðin rati í hestamennsku og því getur pabbi platað mig svona upp úr skónum. Ef ég væri ekki svona mikill þöngulhaus, ætti ég þrjár hryssur í dag. Eina jarpskjótta og tvær gráar. Allar á sitthvoru árinu.

En ég á bara Möggu.

Um síðustu helgi mætti matarklúbburinn á svæðið og í birtingu og þegar þetta irish coffee-rauðvínsglas var orðið tómt, hafði yfir helmingur klúbbsins stofnað kór.

IMG_2772

Við vorum afar ánægð með okkur svo ekki sé meira sagt. Hinn helmingurinn minna hrifinn.

Einn daginn hringdi pabbi og Fúsi klagaði mig fyrir honum. Sagði að ég hefði haldið fyrir sér vöku! „Dóttir þín hélt fyrir mér vöku… hún gólaði í marga klukkutíma!“

Hafiði heyrt aðra eins fásinnu? Ég og kórinn lögðum okkur í líma við að syngja hann í svefn og láta hann sofa undurvel. Þessvegna sungum við sálma. Hástöfum. Já og með tilheyrandi trommusólói. Klukkan 5:45. Allt fyrir hann og hann klagar mig. Ég söng ekki bara sálma, heldur líka Dagný eftir Sigfús Halldórsson svona um það bil 17 sinnum. Og nokkra tregafulla ástarsöngva. Svo tregafulla að röddin titrar og tár falla.

Pabbi sagði við Fúsa: „Hva, söng hún ekki Maístjörnuna???“. Nei það gerði hún ekki.

„Hún hefði átt að syngja Maístjörnuna, hún er snillingur í henni, hún hefur það frá mér stelpan“

Foreldrar mínir eru yndislegir.

Þessari færslu líkur með gömlu norsku lagi sem ég eiginlega tók fyrst eftir í júlí 2011, þá stödd í Bodö  þegar hörmungarnar gengu yfir Noreg. Síðast heyrði ég lagið live 26. júní í sumar. Þá kom ég of seint á næturvakt því ég stóð fyrir utan dyrnar á sjúkrahúsinu og gat ekki hætt að hlusta. Kim var í Mölleparken. Í dag var það sungið við minningarathöfn í Kaupmannahöfn vegna hörmunganna í París.

Ég valdi útgáfuna með Kim Larsen því mér finnst hún bæði falleg og flott en hefði kannski frekar átt að velja Sissel Kyrkjebø akkúrat núna. En það er bara ekki ég. Sissel er ekki ég. Og stundum langar manni bara til að hoppa og hoppa og hoppa…. og hoppa og flippa út.
https://www.youtube.com/watch?v=n2xndNNnDwM

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *