Hvernig flugfélag fær fólk til að elska sig.

Mér hefur alltaf þótt gaman að fljúga. Líka þegar ég flaug á milli Egilsstaða og Akureyrar hérna í denn í 9 sæta vélunum þar sem það þótti sjálfsagður hlutur að þær hoppuðu og skoppuðu yfir Fellunum og Vaðlaheiðinni. Þrátt fyrir að við lendingu voru hellurnar í eyrunum stundum svo gríðarlegar að ég átti það til að fara að gráta. Ég var barn. Það eru 30 ár síðan.

Mér þykir líka gott að dvelja á flugstöðvum þar sem eru veitingarstaðir og ilmvatnsdeildir, sérstaklega ef ég er að skipta um flug og biðtíminn er passlega langur. Ég er rosalegur ilmvatnsþefari. Og veitingarstaðahangsari. Veitingarstaðirnir koma þó í fyrsta sæti, síðan ilmvötnin.

Hér í Sönderborg erum við svo heppin að vera með okkar eigið flugfélag, samt erum við ekki nema um 75.000 manna sveitafélag. Ég nýti það eins oft og ég mögulega get þegar ég er ein á ferð. Þegar fjölskyldan fer af stað, þá borgar sig að keyra.

481603

Alsie Express er tveggja og hálfs árs gamalt flugfélag og flýgur eingöngu á milli Sönderborgar og Kastrup.

Það sem er sérstakt við Alsie Express er að ég hef aldrei heyrt eitt einasta styggðaryrði falla um þetta flugfélag. Það er elskað og dáð af Sönderborgurum.

Ekki afþví að það er ódýrt, þannig séð. En heldur ekki dýrara en lestin til Kastrup. Ódýrasti flugmiðinn kostar 510 DKK og einn lestarmiði 420 DKK. Akkúrat þessa dagana er fjögurra tíma ferðatímamunur á flugi og lest, fyrir utan allt vesenið sem fylgir því að ferðast með lestinni. Það þarf að taka lestarrútu á kafla og síðan skipta aftur um lest.

Ég flýg annað slagið með Alsie Express og Flugfélagi Íslands, auk innanlandsflugi í Noregi. Auk millilandafluga.

Síðustu þrjú ár hef ég farið upp í flugvél u.þ.b. þriðju hverju viku að meðaltali, þess vegna finnst mér ég geta borið félögin saman á vissan hátt.

Á meðan Alsie Express nýtur einmuna vinsælda, sætir Flugfélag Íslands oft gagnrýni en það er ekki mitt að dæma hvort hún sé réttmæt eða ei.

Ég ákvað að  „panta“ innanlandsflug aðra leiðina þann 16. febrúar 2016 í mismunandi löndum í kringum okkur. Þessi dagsetning varð fyrir valinu því þetta er afmælisdagur bóndans og ég er að reyna að sleikja hann upp (ég þarf þess því ég pirra hann stundum). 16. febrúar næstkomandi er ósköp venjulegur þriðjudagur og öll flugin eru þau ódýrustu þann daginn. Ég ákvað að hafa Þýskaland og Grænland með út af fólksfjöldanum. Svona til að sýna muninn. Verðin eru reiknuð yfir í íslenskar krónur á mbl síðunni.

Skærmbillede 2015-12-09 21.20.42

Ég tek ekki tillit til launa, vísitölu, greindarvísitölu né kaupmáttar í þessum samanburði.

new-germanwings-airbus_300dpi

German Wings: Þessi hræbillegi miði hefur líklega eitthvað með framboð og eftirspurn að gera. Ég meina, 81 milljón! Ég hef aðeins nýtt mér millilandaflug með þeim og þekki því ekki þjónustuna um borð í innanlandsfluginu.

oy-grg-air-greenland-de-havilland-canada-dhc-8-202q-dash-8_PlanespottersNet_136571

Air Greenland: Mér þykir það vera dýrt að fljúga á milli Nuuk og Narsarsuaq. Næstum 50.000 kall! Það hlýtur að vera boðið upp á kampavín og kavíar um borð. Og ferð í Bröttuhlíð er pottþétt innifalin! Aftur hlýtur þetta að snúast um framboð og eftirspurn…

124395

Widerøe: Það er líka rándýrt að fljúga á milli Kirkenes og Vardø miðað við hversu stuttan tíma það tekur (22 mínútur). Eða Bodø og Lofoten. Það er heldur ekkert veitt um borð því það er ekki tími til þess. En ef innanlandsflug með Widerøe tekur meira en 45 mínútur, bera þeir fram ókeypis morgunverð fyrir kl. 9, annars er það kaffi og vatn. Það var í Widerøe vél í vor sem ég sat fyrir aftan Guðmund Guðmundsson (hinn eina sanna). Hefði betur hrasað og fallið í sætið við hliðina á honum.

SAS

SAS: Hlutfallslega er ódýrara að fljúga frá Oslo til Bodø heldur en frá Bodø til Lofoten. Samt tekur ferðin klukkutíma lengur. Vissuð þið að Bodø er uppáhalds bærinn minn í Noregi? Þangað hef ég komið þrisvar, gengið á tvö fjöll, hjólað um nágrennið, þrætt veitingarstaðina, eignast facebook vini og skoðað Saltstraumen.

Flugfelag_Islands_-_Air_Iceland_Fokker_50_KvW-1

Flugfélag Íslands: Býður upp á kaffi og vatn og útsýnisflug yfir eldgos ef þeir mögulega geta. Ég fæ oftast miða hjá þeim á þolanlegu verði, þ.e.a.s. þegar ég panta með meira en tveggja daga fyrirvara.oy-clz-alsie-express-atr-72-500-72-212a_PlanespottersNet_477671

Alsie Express: Uppáhalds flugfélagið mitt af öllum!

Ég skal segja ykkur ástæðuna:

  • Það er hægt að innrita sig 15 mínútum fyrir brottför
  • Starfsmennirnir í öryggishliðinu eru afar liðlegir. Einu sinni ákvað ég að fara bara með handfarangur í nokkra daga ferð. Ég vissi ekki þá að það mætti aðeins taka einn „vökvapoka“ með og þar sem það fylgir mér alltaf talsvert snyrtidót, tók ég 4 poka með. Þeir hleyptu mér í gegn. En ég lenti í basli með pokana 4 í Kristiansand… eða Sandefjord. Man ekki hvort. Síðan hef ég ekki látið handfarangur nægja í nokkurra daga ferð.
  • Ef allir eru komnir fyrir áætlaða brottför, er hleypt um borð og lagt af stað… fyrir áætlun!
  • Fyrir utan vélina er lítill vagn sem maður getur sett handfarangurinn sinn í, ef maður nennir eða þarf ekki að hafa hann með sér inn í vélina. Þegar maður gengur aftur frá borði bíður handfarangurinn eftir manni fyrir neðan tröppurnar, snyrtilega uppstilltur.
  • Þegar maður gengur um borð stendur flugstjórinn alltaf, í hvaða veðri sem er við tröppurnar og heilsar öllum.

 

Mér finnst þetta mjög viðkunnalegt og góð byrjun á flugferð. Eiginlega dýrka ég þessa byrjun. Þetta myndband er frá snapchattinu mínu um daginn.

  • Um borð er boðið upp á kaffi, vatn, lífrænan eplasafa og íste með jarðarberjum og lakkrís, auk snakk eða súkkulaði. Þar fyrir utan er oft boðið upp á eitthvað auka. T.d. súkkulaðibollu á morgnana, bjór á föstudagskvöldum, páskaegg á páskunum og þar fram eftir götunum. Það er búið að skreyta vélina að innan núna með jólaskrauti.
  • Fótaplássið er slíkt að fullvaxinn kolkrabbi gæti teygt úr skönkunum án þess að farþeginn fyrir framan yrði var við.
  • Þeir eru stundum með hinar ýmsu uppákomur. Í haust t.d. kom virtur veitingarstaður sem heitir Fakkelgaarden um borð og bauð upp á þriggja rétta máltíð, farþegum algjörlega að óvörum. Þessi ferð var skírð „Gourmet ferðin“.

  • Að innan eru vélarnar rúmgóðar og bjartar, að utan rennisléttar og svartar.

Þessi upptöldnu smáatríði gera það að verkum að ég elska þetta flugfélag og nýt þess virkilega að fljúga með því. Þetta ættu öll flugfélög að geta gert án mikils kostnaðar og þannig aukið gagnkvæma væntumþykju.

P.s. Uppáhalds smáatriðin mín hjá Alsie Express eru: heilsandi flugstjórinn og ísteið með jarðarberjum og lakkrís.

(Allar myndirnar eru fengnar að láni af netinu).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *