Þegar danskan vefst fyrir Dönunum og mér.

Er ekki komin tími til að ræða dönskuna aðeins? Þetta stórmerkilega ef ekki undarlega tungumál.

Eftir 14 ára búsetu botna ég enn stundum hvorki upp né niður í hvað fólkið í kringum mig er að tala um.

Nú eru t.d. nýbúin að vera áramót og hér á Jótlandi borða þeir upp til hópa kálpulsu á gamlárskvöld. Og það er EKKERT kál í kálpulsu! Ekki arða.

c8de9bd6ee4d0bd2769b8086326b4fd7

Síðan ef ég nú kæmi í vinnuna á nýársdag, sem sagt daginn eftir með kálpulsu -mínus kál, og væri að narta í hana, þá myndi Dönunum dauðlanga í bita. Eðlilega, þeir elska þetta. En í staðinn fyrir að segja: „má ég fá bita?“ þá segja þeir: „má ég smakka?“. Þó svo að þeir hafi smakkað kálpulsu -mínus kál, jafn oft og þeir hafa haldið gamlárskvöld hátíðlegt og jafnvel oftar.

Stundum reyni ég að aðstoða samstarfsfólk mitt á Gjörinu í dönskunni eftir bestu getu. Þó svo að ég geti síður en svo státað af munnlegum dönskuhæfileikum upp á 10.

T.d. þegar:

  • hjúkrunarfræðingur kallar og biður um morfín á stundinni. Þeir segja moffín.  En það er greinilegt r þarna. Og því ber þeim að segja það. Ég persónulega afhendi aldrei morfín fyrr en þeir segja moRfín. 
  • Um daginn sátum við tvær á móti hvor annarri í sitthvorri tölvunni og hana vantaði að vita hvernig hún breytti spássíubilinu á blaðsíðu í Word. Ég nennti ekki að standa upp og ætlaði að leiðbeina henni munnlega. Benti henni á að fara inn í sidelayout og þaðan inn í margener. Ég danskaði meira að segja margener til margena. Hún kváði: Vað??? Ég reyndi aftur að segja margena og en hún hafði greinilega enga hugmynd um hvað ég var að reyna að segja. Ég varð því að standa upp og sýna henni hvar spássíustillingarnar væru. -Nåhr ja, du mente mána-  Mána! Hvernig í ósköpunum getur orð eins og margener orðið að mána?
  • Síðan er það blessað skyrið. Skua eins og Danirnir segja það. Ég gefst líklega upp á endanum.

Fyrir nokkru stóð ég yfir nemanum mínum og fylgdist með henni hengja upp sýklalyf hjá sjúklingnum okkar. Eitthvað stríddi þetta henni og lyfið dropaði ekki / rann ekki. Nú er ég í vafa hvað maður segir á íslensku. Allavega, hún segir: „Þetta vill ekki hlaupa…“ en á dönsku samt (det vil ikke løbe). Ég spurði hana hvort hún hefð spurt lyfið hvort það vildi? Hún ranghvolfdi í sér augunum. Síðan benti ég henni á að til þess að hlaupa þyrfti fætur. Hún sagði mér að hætta að snúa út úr. Ég benti henni á að ég væri að kenna henni almennilega dönsku.

Þetta var reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég gantaðist aðeins í henni. Fyrsta daginn hennar í verknáminu hjá okkur stóðum við sitthvorum megin við sjúkling og vorum svona að kynnast og ræða hlutina af mikilli alvöru. Þá sagði ég: „Æ á meðan ég man, þá er ég ekki Dani heldur Íslendingur. Danirnir halda nefnilega eiginlega alltaf að ég sé Dani því ég tala svo góða dönsku“. (Ég tala í alvörunni dönsku með miklum hreim). Neminn minn horfði á mig og vissi ekkert hvað hún átti að segja. Ég beið í allmargar sekúndur með að segja að ég væri að djóka í henni. Mér fannst þetta mjööög fyndið atriði og finnst enn.

Í gær mætti ég í vinnuna á seinustu stundu. Í þetta skiptið því ég hnerraði með blautan maskara og hann fór út um allt. Í fyrradag mætti ég á seinustu stundu því það var mótvindur. Á mánudaginn vegna þess að ég fann ekki hjólastæði. En í morgun ruddist ég inn í búningsklefann með sultardropa á nefinu og beint að pappírsþurrkunum og snýtti mér hljóðlega og á afskekktum stað. Vinnufélaga mín varð náttúrulega vör við það og spurði hvort ég væri með hlaupanef? (Løbenæse). Ha nei, ég hjólaði…

Að lokum, afhverju segja Danir „klósetttaska“ (toilettaske) þegar þeir eru að tala um snyrtitösku?download

Þetta hef ég aldrei skilið. Það er ekkert klósetttengt sett í þessa tösku, hvorki klósettbursti, klósettpappír né klósetthreinsir. Samt vilja þeir kalla þetta klósetttösku. Segja að það sé rökrétt…

Síðan er gott að rifja upp hvernig danskan sleit sig frá norskunni fyrir 200 árum síðan. Það er það sem ég segi. Þessi bölvaði bjór!

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *