Rómantísk sundferð eða ískaldur sjórinn?

Í gær höfðu stelpurnar samband og spurðu hvort ég ætlaði með í sjóinn. Þær ætluðu að hlaupa en buðu mér ekki með í það… Ekki á þriðjudögum. Ég fæ bara að vera með á miðvikudögum því það hlaup er fyrir allar íslenskar konur sem langar að hlaupa, óháð hraða. Og á miðvikudögum kemst ég sjaldnast. Einkennileg tilviljun. En ég má alltaf koma með í sjóinn.

Í gær sagði ég nei takk við sjósundsboðinu. Gamli Gaur hafði boðið betur. Hann bauð mér með sér í sund.

Við höfum ekki farið í sund í Danmörku í fjöldamörg ár. Fannst búningsklefarnir alltaf leiðinlegir og það voru engir læstir skápar. Í staðinn sat kona á stól við hliðina á uppvafinni vatnslöngunni beint fyrir framan sturturnar og horfði bálreið á mann. Ekki það að ég sé spéhrædd en ég fílaði aldrei þessa konu. Bjóst alltaf við að hún tæki slönguna og spúlaði mig og dætur mínar. Veit að henni fannst við óþarflega lengi undir sturtunum. Sundlaugin fannst mér fín en mig vantaði alltaf heita pottinn. Það mátti ekki vera í heitri setlauginni nema maður væri undir 6 ára aldri.

En í gær var farið í sund. Við höfum bæði náð þeim aldri að hér eftir fer allt að halla undan fæti. Íþróttameiðsl verða þrálátari, vöðvar rýrna í afskiptaleysinu og kílóin laumast utan á okkur á meðan við sofum. Þegar við síðan vöknum er hægara sagt en gert að hrista þau af sér. Ef þetta fær að viðgangast er raunhæft að áætla þyngdaraukningu um 50-60 kg á næstu 20 árum.

Þess vegna höfum við Fúsi minn gjörbreytt um lífsstíl. Við ætlum að fara í sund einu sinni í viku. Fyrsta skiptið var í gær og í morgun sá ég strax heilmikinn mun á mér. Það var ekkert sem lafði út yfir buxnastrenginn eins og hafði gert daginn áður. Og daginn þar áður.

Og sundlauginn kom á óvart. Það er búið að endurnýja búningsklefana og starandi konan horfin með öllu. Tvö kvöld í viku er bara opið fyrir 16 ára og eldri. Það hentar okkur vel. Þegar við komum vorum ljósin dempuð, vatnið neongrænt og vel skrúfað upp í Elvis Presley. Ég tók andköf. Þvílík kyrrð, þvílík rómantík. Fljótlega varð vatnið blátt og svo grátt með bleikum doppum.

Mér hefur alltaf þótt gaman í sundi þótt ég sé enginn sundgarpur. En í Humlehøj-lauginni er ég garpur. Ég get ekki synt í rólegheitunum (ekki frekar en labbað hægt) og spændi ég því fram úr öllum mín megin. Sem var ekki erfitt því flestir mín megin syntu með höfuðið upp úr. Það finnst mér náttúrulega fáránlegt en Fúsi segir að fólk megi synda eins og það vill. Kristleifur og Bína hefðu staðið með mér.

Eftir að hafa sprengt okkur við tónana frá Bee Gees, fórum við í sjóðheita setlaugina (þessa sem er bara ætluð börnum 6 ára og yngri) og nutum þess loksins, loksins að mega vera þar.

IMG_3951

Þessi mynd er tekin í Sönderborg í dag og er óháð sundinu. 

En meiningin með þessari færslu var að pósta frétt sem birtist í Austurfrétt fyrir um mánuði síðan. Klikkið Hér eða lesið áfram.


Dagný Sylvía Sævarsdóttir, einn af lokaorðapennum Austurgluggans, tók þátt í árlegu áramótasundi í Sønderborg á Suður-Jótlandi, þar sem hún er búsett.

Hefð hefur skapast fyrir áramótasundi hjá Íslendingum búsettum í Sønderborg, sem hefur verið árviss viðburður síðan 1999, en upphafsmaður þess og skipuleggjandi er Fylkir Sævarsson.

„Við syndum í sjónum út frá svörtu ströndinni í Sønderborg, sem er vinsæl strönd á sumrin fyrir fjölskyldufólk. Í fyrra var kynjaskiptingin jöfn en í ár tókst konunum að mynda meirihluta í fyrsta skipti. Sú staðreynd er einnig skemmtileg að 33% þátttakenda komu frá Austurlandi, ég sjálf úr Eiðaþinghá og Berglind Knútsdóttir frá Seyðisfirði.

Fylkir og sonur hans, Sævar Patrekur, syntu að venju 200 metra, á meðan við konurnar létum okkur nægja að fylgja þeim áleiðis, þar sem við erum ekki vanar svo langri veru í köldu vatninu. Fylkir er hinsvegar þaulvanur og var meðal annars fyrstur manna til að synda yfir Þingvallavatn,“ segir Dagný.

Snýst um viljastyrk

Dagný hefur stundað sjósund í ár. „Mér finnst þetta alveg rosalega hressandi, félagsskapurinn er góður og svo förum við í sauna á eftir og það lokkar vissulega.

Sjórinn er auðvitað ískaldur og það þarf vissan viljastyrk til þess að vaða út í og byrja að synda án þess að hika og njóta þess, þetta snýst um að yfirstíga eitthvað.

Veðrið lék við okkur þennan fyrsta dag ársins, lofthitinn var um sjö gráður, nánast logn og sólargeislarnir reyndu að brjóta sér leið í gegnum þokumistrið sem gerði það að verkum að það var nánast bara notalegt að koma upp úr fimm gráðu heitum sjónum – beint í myndatökur og „viðtöl“ á hinum ýmsu nútímasamskiptamiðlum.

Það er frábært að byrja og enda árið á að synda í ísköldum sjó en það sýnir fram á að maður getur allt!“

Engin sundföt í Vikingeklubben

Dagný hefur verið meðlimur í Vikingeklubben í hálft ár en það er sjóbaðaklúbburinn í Sønderborg.

„Eftir sundið fórum við í heitt og gott sauna í Vikingeklubben en við konurnar erum allar meðlimir í honum og þar er öll aðstaða til fyrirmyndar. Við gátum ekki stillt okkur um að bæta tveimur stuttum sundsprettum við þar enda fátt meira hressandi en kaldur sjórinn um hávetur. Það gátum við hinsvegar ekki fest á filmu því myndatökur í Vikingeklúbbnum eru með öllu bannaðar þar sem sundföt þykja óþörf innan veggja hans.“

12477157_10206739287173686_714844099_o

Stefán Pálsson tók þessa mynd á Nýársdag. 

2 Responses to “Rómantísk sundferð eða ískaldur sjórinn?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *