Landinn sem kom að norðan og bjargaði lífi mínu.

Hér á Eiðum gengur lífið sinn vanagang eða þar um bil. Pabbi mætti á svæðið í gær með landaflösku, spes handa mér. Landinn heitir Sæsi spes. Og læknar allt. Þess vegna pantaði mamma flöskuna með pabba, því ég fékk pest. Og viti menn, svei mér þá ef ég er ekki öll að koma til.

Í fyrradag spurði Fúsi: „ertu alveg að drepast?“

Ég svaraði: „já“, því ég var nokkuð viss um að þetta væri mitt síðasta. Nokkuð viss um að ég væri með lungnabólgu og komin með kerfisbundna sýkingu ofan í. Fann að blóðþrýstingurinn var í lægra lagi, óttaðist að ég hætti að pissa og þyrfti að leggjast inn í tilheyrandi meðferð.

Mamma spurði: „á ég að hringja í lækninn?“

Ég stundi: „nei, ég geri það sjálf…“ og ætlaði að gera það en féll svo í mók. Ég hringdi aldrei í lækninn. Landinn reddaði þessu. Mamma vissi að það eina sem virkaði væri Sæsi spes því að Maggi bróðir hefur margreynt og sannað það. Ég ætti í raun að gera rannsókn þar sem við systkinin værum viðfangsefnin og innleiða Sæsa spes á Gjörið. Og því hætta að dæla lyfjum í lítratali í fólk þegar það þjáist af kerfisbundinni sýkingu.

En það var nú ekki ætlunin að tala um pest í blogginu enda er ég ekki vön að bera veikindi á borð fyrir ykkur, en þar sem þessi pest hefur frést víða, bæði í hesthúsin í Fossgerði og inn á Iðavelli, niður á Seyðisfjörð og á Suðurnesin þá er skaðinn skeður. Frekar vildi ég eiginlega segja ykkur frá á hvað daga okkar hefur drifið eftir að við komum í Eiða.

Já eða hvernig ferðin hófst á Reykjavíkurvelli. Jú enginn annar en Dennis Quaid var samferða okkur, ég missti næstum andlitið… í litla Fokkernum á leið til litlu Egilsstaða. Alveg búin að steingleyma hversu vant fólkið fyrir austan er að baða sig í stórstjörnum síðastliðin ár.

Á sunnudagskvöldið fórum við vinkonurnar út að borða og í Spa á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Ég hef ekki stundað Spa-ið mikið en þó, þetta var ekki fyrsta sinn. Og viti menn, Spa-ið á Gistihúsinu stendur öllum öðrum Spö-um ofar; hönnunin, hlýleikinn, smíðin og þægindin. Ég átti bara ekki til orð. Þetta er ekki stórt en það kemur ekki að sök, þarna er allt sem til þarf. Og meira til. Ef þú lesandi góður, ert í grennd og hefur gaman af svona slæpingi, þá er Spa-ið tilvalinn staður og endilega skoðaðu allt í krók og kima, þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

Mánudagurinn fór að mestu í breytingar og burð á húsgögnum. Við það komu í ljós alveg stórmerkilegar heimildir. Einkunnaspjöld Magnúsar í Grunnskólanum. Ásamt umsögnum um umgengni og ástundun. Þetta þarf ég að nýta við tækifæri.

Þriðjudagurinn var dagurinn sem ég dó næstum.

Miðvikudagurinn var dagurinn sem ég reis upp frá nálægum dauða. Mamma sagði: „þú ferð ekkert í sturtu!“ Ég fór í sturtu.

Síðan sagði hún: „þú ferð ekkert út í dyr“ og skrúfaði ofninn sem var næstur mér, upp í fimm. Hún trúir á landa og hita á meðan Florence Nightingale, höfuðpaur hjúkrunarfræðinga, hélt því fram að hreinlæti og ferskt loft væri allra meina bót.

Seinna bauð mamma mér á rúntinn, ég þáði það með þökkum.

IMG_4196

Snotra þáði líka rúnt.

IMG_4201

Stuttur rúntur þýðir rúntur á fegurstu jörð Eiðaþinghár. Þarna ólst ég upp. Þetta var bara sí svona útsýnið út um stofugluggann. Útsýnið út um herbergisgluggann minn var ekki síðra, bara nær. Útsýnið út um eldhúsgluggann var heldur ekki síðra, bara hærra. Er nema von að ég aðlagist ekki flatneskjunni og moldarflögunum í Danmörku?

IMG_4216

Þessi litli túnblettur heitir Þríhyrningurinn. Þarna til vinstri er skurður og þar datt Maggi litli ofan í trekk í trekk. Það eru nokkur ár síðan.

IMG_4221

Þessi brekka heitir Beitarhúsbrekka og þarna þurfti að þæfa reglulega í gamla daga. Í þæfingnum var alls ekkert útsýni, hvorki fyrir framan né aftan.

IMG_4237

IMG_4243

Rabbabarinn er í vetrardvala í sveitinni.

IMG_4283

Sem og klemmurnar.

IMG_4259IMG_4272

Og Eiðalækinn hef ég aldrei séð í þessum búningi. Enda sogaði hann til sín ruslatunnurnar á jólunum og þeytti þeim síðan langt upp á tún.

Svoleiðis var það nú.

Annars, ef þið viljið vetrarfríið okkar í smáatriðum, þá finniði mig á Snapchat (Snapsjakk/Snappjat): alrun (Dagny Saevars) þar sem Fúsi fer m.a. í fjósið.

2 Responses to “Landinn sem kom að norðan og bjargaði lífi mínu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *