Blómin tuttugu sem Fúsi hélt lífi í þangað til…

IMG_5670

Á fimmtudaginn í síðustu viku stóð ég við kassann í Plantorama (sem er blómabúð) og borgaði fyrir sekstán blóm. Ekki í beð heldur potta og krukkur. Ég hafði nefnilega verið að taka til í skúrnum og fundið ógrynni af ílátum sem hentuðu fyrir blóm. Augnabliki eftir að ég borgaði hringdi afleysingaskrifastofan (Powercare) og spurði hvort ég væri ekki til í að fara til Bergen daginn eftir á þrjár næturvaktir. Jú jú var svarið.

IMG_5685

Ég fór heim, gróðursetti öll blómin og vökvaði vel. Þar sem til höfðu verið fjögur fyrir, voru blómapottarnir skyndilega orðnir tuttugu. Þetta leit allt saman mjög vel út.

IMG_5692

Þegar Fúsi kom heim seinni partinn sagði hann: „Ástin mín, en hvað þetta er fallegt hjá þér“. Stuttu seinna fór ég með hann í ítarlegan leiðbeiningargöngutúr á milli blómapottana og sagði honum að hann yrði að vökva hvern og einasta eftir að sólin settist og áður en hún risi upp aftur. Á hverju kvöldi! (Á meðan ég væri í burtu). Fúsi sagði: „Þú ert að djóka…“ 

Ég að djóka? Það gerist nú afar sjaldan þannig að að sjálfsögðu var ég ekki að djóka. Ekkert af blómunum tuttugu mátti deyja í fjarveru minni.

Og viti menn, þau voru sprelllifandi þegar ég kom heim á mánudagskvöldið. Öll með tölu.

Þangað til í morgun…

IMG_5690

Þá blasti þetta við. Og stóðum við á tröppunum kl. 6.45 og litum út eins og tvö spurningarmerki hlið við hlið. Vaskur og ég. Skyldi húsbóndinn hafa verið búinn að fá nóg af vökvuninni, gengið í svefni og farið hamförum á viðkvæmasta blóminu?

Þegar sökin var borin upp á Fúsa, tókst honum að sannfæra okkur um að einn skógarþrösturinn hafi verið fúll og látið það bitna á bláum sakleysingja. Hann sagðist hafa séð hann að verki í gærkvöldi. Þá segjum við það.

IMG_5676Því var það eina í stöðunni að setja vakt á tröppurnar og tók Vaskur það að sér fyrir eitt til tvö lambalærisbein sem frystikistan lumar á til að nota á ögurstundum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *