„Ég er að fara til Íslands, hvert á ég að fara?“

Ó, þetta líf!

Í kvöld og bara í kvöld bárumst mér skilaboð á sitthvora feisbúkkarsíðuna mína frá fólki sem er að skipuleggja ferð til Íslands. Önnur manneskjan kannast við mig, hin þekkir mig ekki neitt. Bæði Danir.

Önnur hljómaði svona: „Hæ, ég er að fara til Íslands í vor, hvar er best að gista? Getur þú mælt með einhverju?“

Ég svaraði: „Já það er yndislegur skáli í Loðmundarfirði sem Ferðafélag Íslands á, bókaðu hann“.

„Ha, hvar er Loðmundarfjörður?“

Ég: „Ó, ertu ekki að fara þangað?“

lommi

(Mynd frá FFÍ af skálanum í Loðmundarfirði)

Hin skilaboðin voru löng, ítarleg og innihéldu algjörlega raunhæfar spurningar og vangaveltur sem gaman var að svara. Ég missti mig alveg, lét manninn stoppa lengur fyrir austan en planið var og mælti með öllum veitingar- og gististöðunum sem vinir mínar eiga og reka. Sagði honum að spyrja mömmu hvort hann mætti fara á hestbak – Eða ég sagði honum að segja mömmu frá mér, að hann mætti fara á hana Margréti Alrúnu mína sem er frumtamin og að mamma ætti að beisla og leggja á hryssuna fyrir hann. Jafnvel teyma undir honum. Hann kann nefnilega ekkert á hest. Hann er frægur veðurfréttamaður hérna í Danmörku sem kemur málinu lítið við en eftir að hafa séð hann á skjánum get ég ekki ímyndað mér að hann sé einhver hestamaður. Á leiðinni suður aftur kom ég  honum fyrir hjá pabba úti á Árskógssandi og sagði honum að segja pabba að gefa sér útí kaffið (þið vitið hvað ég meina). Síðustu nóttina bauð ég honum svo liggja á sófanum hjá bróður mínum í Keflavík sem skutlar honum auðvitað á völlinn. Allt þetta, vegna þess að hann spurði mig að einhverju sem ég gat svarað. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er spurð eða beðin um ráð á þennan hátt og ég get svarað af því að ég hef einhverju til að svara. Og ekki spyrja mig af hverju þessi frægi veðurfréttamaður spurði mig og af hverju hann les bloggið mitt. Hann sagðist lesa það þótt hann skyldi sama og ekki neitt?!?

Ég er  spurð eða beðin um ráð að meðaltali í hverri einustu viku. Spurð spurninga sem hljóma afar svipað og þessi fyrri:

„Heyrðu, sonur minn er að fara til Íslands, er eitthvað sem hann getur skoðað þarna uppi?“

Ég: „Já Hvannadalshnjúkur, helst að fara upp á hann, hann þarf bara að vera í góðum fjallgönguskóm“

„Hvar er það? Og fjallgönguskóm? Hann á ekki svoleiðis…“.

Ég: „Nú?“

Eða…

„Ég er að fara til Íslands næsta sumar og ætla að leigja mér bíl, hvert á ég að fara?“

Ég: „Farðu yfir Kjöl“.

„Ha?“

grimg_5147

(Mynd af Kili, fengin á netinu)

Eða…

„Við hjónin erum að fara til Íslands, hvaða veitingarstað mælirðu með?“

Ég: „Öldunni sem er fyrsti staðurinn sem þú getur borðað á þegar ferjan leggur við bryggju á Íslandi“.

„Ha, ferjan??? Hvaða ferja?“

Ég: „Ó farið þið ekki siglandi með Norrænu?“

Ég þekki þetta svo vel. Einu sinni hitti ég Afríkana og spurði hann hvert ég ætti að fara í Afríku og hvað ég ætti að skoða, ef ég nú skyldi fara einhverntímann þangað.

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *