Heimsóknin til Aldísar í París.

Í byrjun desember fórum við Fúsi og Svala til Parísar að heimsækja Aldísi, sem býr nánar tiltekið í Le Vésinet sem er á milli Parísar og Saint Germain.

Við skulum byrja á byrjuninni, þ.e.a.s. á upphafi ferðarinnar. Við áttum flug frá Hamburg til CDG um hálf 7 leytið og erum við rétt tæplega 2 tíma að keyra þangað. Meiri hluta fjölskyldunnar reiknaðist svo til að það þyrfti að leggja af stað kl. 2.00. Dæmið leit svona út: tæplega 2 tímar í keyrslu, 30 mín. í bílastæðaferlið og þá værum við mætt tveimur tímum í töskuskil. Fyrir minni hluta fjölskyldunnar (mér) leit dæmið allt öðruvísi út. Í mesta lagi 1 tími og 40 mín í keyrslu (mið nótt og engin umferð), ca. 30 mín í bílastæðaferlið og og mætt í fyrsta lagi klukkutíma fyrir brottför. Í fyrsta lagi! Þannið að, að mínu mati þurfti að leggja af stað í fyrsta lagi kl. 3.30! Þið ykkar sem þekkið mig, vitið að ég veit að tösku check in´ið í Evrópuflugum lokar alltaf 30-45 mín. fyrir brottför. Segjum 45 mín. til að vera örugg. Og ég spyr, hef ég einhverntímann misst af flugi? Svarið er nei, þótt oft hafi mátt litlu muna.

Fúsi og Svala sögðu að það væri ekki til umræðu að leggja af stað kl. 3.30. Því var lagt af stað kl. 2.00 og ég rétt náði að pakka í töskuna. Það þarf varla að segja ykkur að við náðum fluginu…

Á stóru lestarstöðinni Chatelet – Les Halles (sem er stærsta underground stöð í heimi með 750.000 notendur á dag) kom Aldís hlaupandi á móti okkur, breytt að okkur fannst. Virtist heimavön. img_6951

Hún hafði skrópað í skólanum til að taka á móti okkur og fara með okkur á uppáhaldssamlokustaðinn sinn í 1. hverfi Parísar. Með öruggri hönd leiddi hún okkur í gegnum þröngar götur og vinnandi Frakka sem voru að byrja daginn. Klukkan var bara 10.00.

img_6957

Þegar kom að samlokustaðnum var hann lokaður sem og flestir staðir í kringum okkur. Klukkan var of snemma. Ég stakk upp á að við röltum svolítið um, t.d. að ráðhúsinu (Hotel de Villa) sem mér finnst ægifögur bygging og þaðan jafnvel yfir í Latínuhverfið sem ég held mikið uppá.

img_6959

Ég spurði Aldísi hver stysta leiðin væri og þá kom strax í ljós að hún var söm við sig og hafði litla hugmynd um hvað væri hægri og vinsti, hvað þá austur og vestur. Aldís hefur nefnilega erft föður sinn af óratvísinni sem er svo alvarleg að ef þau stæðu á höndum, hefðu þau ekki hugmynd um hvernig þau kæmust niður á fæturna aftur.

img_6954

Þá kom það sér nú vel að ég væri alin upp í sveit og með „út og suður“ hundrað prosent á hreinu.

img_6971

Eftir dágott rölt og kaffihúsaheimsókn, fórum við „heim“ til Le Vésinet og skiluðum af okkur töskunum. Síðan  lá leiðin til Saint Germain þar sem Aldís heldur mikið til þegar þau „nenna“ ekki til Parísar.

img_6967

Þegar búið að var að skoða miðbæinn og fara á einn veitingarstað, vorum við eiginlega orðin frekar þreytt eftir 35 tíma vöku og fórum því heim og lögðum okkur í 2 tíma. Um kvöldið borðuðum við með fjölskyldunni hennar Aldísar og höfðum það gott fyrir framan arininn.

Daginn eftir lá leiðin í Notre Dame því að mér finnst útsýnið úr þeim turni flottast og Svala og Fúsi höfðu aldrei komið í hana.
img_6968

Allir þessir turnar og byggingar, La Defénse, Sigurboginn og Signa…

img_6969

Sacré-Cœur efst uppi á Montmatre hæðinni ásamt öðrum fallegum byggingum og byggingarkrana.

img_6973

img_6976

Kosturinn við að stilla sér upp í biðraðir í París í desember er að það þurfti bara bíða í 3 korter til að komast upp í turninn.

Að sjálfsögðu kíktum við líka inn í kirkjunna.

img_6982

img_6986

Eftir að mínu mati, skylduheimsókn í Notre Dame turninn, fórum við Svala yfir í Latínuhverfið til að borða. Það þurfti að skipta liði þar sem vinnan í Le Vesinet kallaði.

Við Svala röltum svo um, skoðuðum byggingar, mannlífið og einstaka búðir.

img_6989

Þegar fjölskyldan var aftur sameinuð, var aftur farið á veitingarstað til að borða. Borða, borða og borða. Það er það skemmtilegasta í borgarferðum. Veitingarstaðurinn sem við römbuðum inn á í þetta skiptið heitir Creperie de cluny og var afar heimilislegur með fínum mat.

Borða og kaupa súkkulaði! Við villtumst inn í súkkulaðibúð (Larnicol – meilleur ouvrier de france) í Latínuhverfinu og reyndist sú búðarferð vera sú útgjaldamesta í þessari ferð. En sem betur fer keyptum við ekki köttinn í sekknum. Allir súkkulaðimolarnir eru himneskir.

Á leiðinni heim það kvöld, hoppuðum við úr lestinni á Trocadéro stöðinni til að fara á stað þar sem Aldís er vön að „hanga úti“ með vinunum á kvöldin og horfa á Effelturninn.

img_7008

Þar eins og annarsstaðar í París, var skemmtileg stemming og blanda af túristum eins og okkur, ásamt að því virtist, lokalnum. Að sjálfsögðu var einhver með gítar og söng. Þegar við vorum að tygja okkur til heimferðar byrjaði söngvarinn að syngja Aïcha, lag sem ég elska. Hvernig gat ég verið svona heppin?

Á laugardeginum var stefnan tekin á Montmartre, einnig staður sem er að mínu mati skylda að heimsækja.

img_7023

Það er bara eitthvað við það að sitja í þessum tröppum. Þegar við Aldís fórum til Parísar árið 2010 fórum við tvisvar upp að þessari kirkju.

img_7019

Veðrið lék við okkur allan tímann sem við vorum í París, kalt, stillt og bjart. Því löbbuðum við næstum allt fyrir utan til og frá Le Vésinet. Frá Sacré-Cœur lá leiðin til Moulin Rouge. Þessi gönguleið er þrælskemmtileg með viðkomu á málverkatorginu. Mig dauðlangaði í myndir. Ef ég hefði ekki straujað kortið svo rækilega að það rauk úr því kvöldið áður í súkkulaðibúðinni, hefði ég splæst í málverk.

img_7029

Við röltum þarna um, rötuðum inn í gallerí og keyptum dumbrauða gotterísskál.

img_7033

img_7035

Það leið ekki á löngu þar til hungrið steðjaði að og var því fundinn veitingarstaður hið snarasta á 17 rue Tholozé.

img_7043

Þessi staður fannst okkur góður. Lítill, þröngur og skemmtilega afslöppuð þjónusta. Hinir gestirnir virtust lokal Frakkar þótt erfitt sé fyrir okkur að dæma um hvort fólk sé lokal eða ekki.

img_7044

Okkar heittelskaða mylla. Svala og Fúsi höfðu ekki séð hana áður þar sem þetta var þeirra fyrsta ferð til Parísar. Svölu kom á óvart hversu lítil hún er, en ég benti henni á að þótt hún líti út fyrir að vera lítil, væri hún samt svo stór. Eins og Napóleon. Ástæða fyrir ást okkar á myllunni er samnefnd kvikmynd frá 2001 sem við fjölskyldan höfum horft óteljandi oft á og núna síðast þann 19. desember. Moulin Rouge hefur allt; leikinn, búningana, tónlistina, dansinn, plottið… allt! Einhverntímann ætlum við á sýningu í Moulin Rouge.

img_7048

Frá Rauðu myllunni fórum við niður að Sigurboganum og þaðan upp á hann. Það var í fyrsta skipti okkar allra.

img_7051

Úti var svartaþoka og sást ekki einu sinni glitta í Effelturninn sem er þó skammt undan.

img_7054

 En Champs – Elysées skartaði sínu fegursta. Þvílíkar jólaskreytingar sem sjást ekki nógu vel á þessari mynd. Og eftir að hafa fylgst með umferðinni í dágóðan tíma á hringtorginu í kringum Sigurbogann, þori ég að keyra í því. Ég get svo svarið það.

Þegar niður var komið, skildust leiðir; unga fólkið fór í partý, við gömlu héldum áfram að túristast. Við leiddumst hönd í hönd niður þessa frægu verslunargötu með viðkomu í einni búð… bara einni, mig vantaði svo augnskugga. Já við mjökuðumst áfram með fólksstraumnum, alveg niður að jólamarkaði þar sem fólksfjöldin var svo gífurlegur að maður kom hvort öðru við hvort sem maður vildi eða ekki. Við höfðum ekkert val… í gegnum jólamarkaðinn urðum við að fara. Og förum líklegast ekki aftur ef ferðinni verður aftur heitið til Parísar í desember. Sem þó er tilvalinn mánuður til að heimsækja París því það er meira pláss. Mikið meira pláss. Básarnir á bökkum Signu eru lokaðir, biðraðir minni og trén eru lauflaus sem er mikill kostur því þá sést meira.

Þegar við loksins komumst út úr jólamarkaðinum, vorum við komin á Place de la Concorde sem er stærsta torg Parísar. Þegar við Aldís vorum tvær í París keyptum við skoðunarferð á Segway og var okkur sagt að á þessu torgi hafi uppreisnarsinnar hálshöggvið Lúðvík konung, Marie Antoniette og 1000 aðra í byltingunni árið 1792. Blóðið flaut um torgið en seitlaðist þó niður í steinalagða götuna eftir stuttan tíma. Í næstu rigningum kom blóðið upp aftur og torgið varð rautt. Erfitt að ímynda sér það í svarta myrkri innan um alla umferðina.

Kvöldið enduðum við Fúsi á að borða á veitingarstað í lítilli hliðargötu við Rue de Rivoli.

Daginn eftir og síðasti dagurinn. Fer maður til Parísar án þess að fara á safn? Nei. Við Aldís höfðum farið á Louvre árið 2010 og langaði okkur til að skoða annað núna. Musée d´Orsay varð fyrir valinu. Safnið sem er í gamalli lestarstöð er bjart og yfirstíganlegt. Aðal áhersla er lögð á  impressjónista og meðal annarra frægra eru þarna Monet og Van Gogh. Mín uppáhaldsmynd var þó þessi:

dante_et_virgile-william_bouguereau-img_8283

Ég þarf að googla til að sjá hver málaði hana og þótt ég googli er ég litlu nær. Mér finnst myndin bara rosaleg í öllu sínu veldi. Þó veit ég að þetta er mynd af Dante og Virgil horfa á þessa kroppa bítast.

Eftir safnið fórum við á veitingarstað og síðan var haldið út á flugvöll.

Samantekt:

  • Uppáhaldshverfi: Latínuhverfið og Montmartre
  • Ekki uppáhalds: Champs-Elysée og jólamarkaðurinn
  • Uppáhaldsútsýni: Notre Dame (nei ekki Effelturninn, ég hef farið upp í hann tvisvar)
  • Uppáhaldströppur: Sacré-Cœur
  • Mestu útgjöld: Veitingarstaðir og súkkulaðibúðin. Í borgarferðum er mér ómögulegt að spara í mat, það skal vera þriggja rétta og drykkir eftir því. Punktur.
  • Minnstu útgjöld: Merkisstaðir sem kostar inná vegna þess að inn á allt svona er ókeypis fyrir Evrópubúa yngri en 25 ára. Einnig voru nánast engin útgjöld í samgöngur vegna þess að París reynir að hreinsa loftið í borginni með því að minnka bílanotkun og bíður því reglulega ókeypis í lestarnar.
  • Fjöldi mynda sem voru teknar: um 40… já það er lítið en París er bara svo yndisleg að það er synd að horfa ekki með berum augum. Annars eru myndir hér frá síðustu Parísarferð.
  • Fjöldi trappna: Margar, óteljandi!

Allt í allt var þetta frábær ferð og gaman að sjá hversu vel Aldís þrífst þarna og hversu heppin hún er með fjölskyldu! img_7011

 

 

3 Responses to “Heimsóknin til Aldísar í París.

  • Anna Sigrun
    7 ár ago

    Hæ elskan,
    Næst tegar tu ferd til Paris kem eg med hehehe ædislega vidburdar-rik ferd hja ykkur ?
    William-Adolphe Bouguereau maladi tessa mynd ? af Dante og Vergil

    • Já sá einmitt að William-Adolphe Bouguereau hafði málað hana en hef aldrei heyrt hans getið fyrr 😉 Vildi ekki hljóma of mikið listanörd… hehehe (í staðinn fyrir broskarl). Já þú kemur með! Og við drekkum rauðvínið þitt saman <3

  • Anna Sigrun
    7 ár ago

    Ok… tad er ekki hægt ad setja broskalla her … teir koma sem spurningamerki. Ta geri eg bara broskall a „gamla“ matann 😉
    Koss og knus fra Noregi <3

Skildu eftir svar við Anna Sigrun Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *