Dagur á Fjöllum

Við Sessa vinkona höfum talað um í nokkra mánuði að ganga á Herðubreið í haust. Ekki er um marga daga að velja þegar ég er í stuttu stoppi en eftir að hafa ráðfært mig við bóndann í Möðrudal sem lofaði að hún yrði hrein um hádegi í dag, ákváðum við að skella okkur. Eftir sumbl saumaklúbbsins í gærkvöldi á Aperol spritz, lögðum við af stað frá Egilsstöðum kl. 5:30 í morgun. Eiturhressar og ekki geispandi.

Við vorum skotfljótar að rótum Herðubreiðar, enda höfðum við hleypt vel úr dekkjunum og gátum því keyrt á fúllspítt. Markmiðið var að vera fljótari en þeir feðgar Baldur og Bjartur en þeir fóru upp á tímanum 2,15 um daginn. Herðubreið er nokkuð brött í byrjun en við Sessa víluðum það ekki fyrir okkur og spændum bara upp. Sessa stjórnaði, ég myndaði allt í bak og fyrir. Upp á topp náðum við á mettíma eða á 2,12 í sól og blíðu og þar með var met þeirra feðga slegið. Við vorum svo bara korter niður.

Því miður hafði myndavélin staðið á sér og því engar myndir til af þessari ferð sem er synd því þá er engin sönnun til fyrir afreki dagsins. Þið vitið hvernig Canon getur klikkað. Meira ruslið það. Ætti að kaupa mér nýja vél.

En á leiðinni niður af Herðubreið lentum við útaf slóðinni og gengum fram á vatnsmikinn foss. Alveg óvænt. Og þar small myndavélin í lag. Mér alveg að óvörum.

Sessu kom þetta ennþá meira á óvart og var næstum dottin útí. Það munaði ekki miklu.

En sem betur fer datt hún ekki og var hún að vonum dauðfegin. Ég líka.

Það er svo gaman að fara í göngu þar sem maður þekkir ekki alveg aðstæður og finna svo bara svona foss. Get ekki ímyndað mér að það finnist vatnsmeiri foss í allri Evrópu.

Við Sessa erum æskuvinkonur og nágrannasveitungar. Í dag viðurkenndi ég fyrir henni að hennar sveit væri fallegri en mín. Þá erum við ekki að tala um sjálfa sveitabæina, heldur stórsveitina. Það er bara fátt sem toppar Hjaltastaðaþinghánna.

Þegar við vorum búnar að skoða þennan foss, vorum við orðnar kaffiþyrstar og komum því við í Möðrudal. Hittum bóndann og fannst honum tilvalið að senda okkur inn í Hvannárgil í 14km göngu. Það yrði fínn endir á deginum.

Sessa stjórnaði göngunni, ég tók myndir, aftan frá því ég er hægari en Sessa.

Hvannárgil ((N65°17.525 – W15°50.881) er mjög fallegt gil með sérstökum klettamyndunum. Keyrt er ca 3km inn á Kverkfjallaveg austan við Möðrudal þangað til komið er að fyrsta upplýsingaskiltinu. Þar er bílastæði. Leiðin er 14km, stikuð og auðveld.

Á myndunum að ofan sést vel hvernig gönguleiðin er að mestu leyti inn að gili. Við höfðum ekkert gúgglað og vissum því ekki á hverju við áttum von.

Skyndilega blasir þetta við. Og þarna er heppilegt að vera ekki að skrifa SMS eða vera upptekin á annan hátt, því þá gengur maður bara ofan í gilið og það eru miklar líkur á því að maður gangi ekki upp úr því aftur.

Ég nefndi í byrjun að gamli saumaklúbburinn minn hafði setið að sumbli kvöldið áður og var því einhver þreyta í okkur stöllum. Á meðan ég smellti af einni og einni mynd, lagði Sessa sig bara. Eða fékk sér kríu eins og það kallast á Fjöllum.

Ég vakti Sessu og við fengum okkur nesti; flatkökur, Prins póló, harðfisk og franska súkkulaðiköku með bingókúlukremi.

 

 

Það er betra að vera á vatnsheldum skóm í þessari göngu þar sem stikla þarf og eða vaða þennan læk margoft.

Við Sessa reyndum að ganga á Strandatindinn sumarið 2014 en þegar við vorum komnar áleiðis upp, kom þoka á toppinn og við snérum við. Síðasta sumar keyrðum við niður í Loðmundarfjörð og vonuðumst til að komast upp á Skælinginn en þar var þoka á toppnum. Líka á Hvítserk. Þann dag gengum við á Svartfellið í Borgarfirði. Núna ætluðum við á Herðubreið og lögðum af stað í hinni þykkustu þoku í von um að það væri bjart uppi á fjöllum. Þegar við komum að Hrossaborgum hafði þokan ekkert breyst og við hættum við. Því er hlutinn um Herðubreið í þessari færslu hreinn tilbúningur. Það virðist ekki eiga að liggja fyrir okkur Sessu að toppa fjall á auðveldan hátt en þrátt fyrir það verðum við áfram vinkonur fram í rauðan dauðann.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *