Hlýir Afríkuvindar eða íslenskar lægðir?
Eftirfarandi klausa birtist í Austurglugganum föstudaginn 9. mars 2018. Viðbættar eru myndir teknar af Sessu í umskrifuðu afmæli og texti undir þeim.
Um miðjan febrúar var hrollur í mér og langaði mig allt í einu suður eftir. Við fjölskyldan höfum hingað til verið arfaslök í sólarlandaferðum – hvorki alin upp við þær og á námsárunum fóru langflestu aurarnir í Íslandsferðir. En núna í febrúar langaði mig. Mig minnir að ég hafi verið stödd í Haugasundi í Noregi í einhverri slyddu, allavega var ég ekki heima, því ég skrifaði skilaboð til Fúsa. Bjó mig undir að þurfa að tala hann til og setti mig því í smjaðursgírinn, lét slatta af hjörtum fylgja með í þeirri von um að smita hann. Svo smeðjuleg voru skilaboðin að mér varð hálfóglatt. En þau virkuðu. Hann sagði já. Þegar ég kom heim, fórum við að skoða ódýrar forfallaferðir þar sem allt var innifalið, við ætluðum að slappa af. Ekki gera neitt nema liggja. Liggja í heila viku. En þegar við fórum að hugsa það aðeins betur og spurðum hvort annað hvenær við hefðum legið í svo langan tíma, þá ákváðum við að hætta við þessa pakka með öllu inniföldnu. Við myndum líklega ekki nenna að borða á sömu hótelveitingastöðunum í heila viku.
Við skoðuðum Kanaríeyjarnar, Sharm el -Sheikh í Egyptalandi, Cape Verde og vorum nálægt því að slá öllu upp í kæruleysi og fara til Mauritius eyjanna, sem er um það bil helmingi dýrara og þar er vika varla nóg.
Úr varð að við völdum eina af Kanaríeyjunum og meira að segja stað og hótel. Við vorum um það bil korter frá því að bóka. Okkur vantaði bara að vera viss um að hundurinn yrði í góðum höndum á meðan. Daginn eftir fór ég í gegnum fríhöfnina á Kastrup á leiðinni til Stavanger. Ég stóð alllengi fyrir framan sólarvarnahilluna og spáði og speguleraði. Sá sjálfa mig fyrir mér í léttum kjól, með sólgleraugu og barðastóran hatt. Gleymum ekki suðræna drykknum í höndinni á mér. Jú og okkur langaði til að leigja okkur opinn bíl. Fúsi myndi keyra því þessi suðræni drykkur var svo bragðgóður. Þangað til að ég mundi að við vorum ekki búin að bóka. Ég ákvað að bíða og taka vörnina með á leiðinni heim.
Tveimur dögum seinna kom babb í bátinn … eða boð í stórafmæli á Íslandi.
Það var enn hrollur í okkur og ekki myndi hann fara ef við færum til Íslands. Auk þess er mjög auðvelt að svara svona boðum með: „Takk fyrir boðið en því miður komumst við ekki því við verðum á Lanzarote eða einhversstaðar að sleikja sólina, góða skemmtun.“
Freistandi?
Síðan fórum við velta þessu aðeins fyrir okkur. Voru Kanaríeyjarnar nokkuð að fara eitthvað? Eða sólin og heitur sandurinn? Mjög líklega ekki. En aftur á móti var eitt alveg á hreinu og það var að akkúrat þetta afmæli sem okkur var boðið í, yrði ekki endurtekið.
Við vógum og mátum kosti og galla hvort sem haldið yrði í suður eða norður. Kanaríeyjarnar með sínum hlýjum Afríkuvindum sem myndu gæla við okkar köldu grámyglulegu kroppa eða Ísland með öllum sínum óteljandi dularfullu lægðum, seinkunum á flugi og ófærð…
Við völdum afmælið og Ísland að sjálfsögðu. Hvað hefðuð þið gert?
Það var Maggi sem varð fimmtugur. Hann er svo heppinn að vera kærasti Sessu vinkonu minnar. Eða segir maður sambýlismaður þegar fólk er komið á þennan aldur?
Einu sinni einhverntímann um miðjan tuttugasta áratuginn var stofnaður saumaklúbbur. Það vorum við Bebbý, Einrún (í miðjunni), Erna (t.h.), Guðný, Halldóra, Hjördís, Hulda og Sessa. Þá vorum við bara rétt rúmlega tvítugar. Síðan flutti tæplega helmingurinn en klúbburinn lifir enn góðu lífi með þeim fjórum sem búa á Egilsstöðum. Þetta var mjög góður saumaklúbbur og er það ennþá. Ég veit það því ég hef fengið að vera gestameðlimur.
Við Fúsi afrekuðum það í afmælinu að vinna ferðastafinn. Af því að við vorum þau sem komu lengst að. Ég vil ekki meina að ferðin okkar hafi verið erfiðust, bara lengst. Fólk kom líka frá Akureyri, utan að sveit, Fellabæ og jafnvel neðan af fjörðum – án þess að ég viti það með vissu.
Um það leyti sem saumaklúbburinn var stofnaður, opnaði ÁTVR verslun sína á Egilsstöðum. Kannski var það korteri fyrr. Ég man það ekki. Áður var farið í „Ríkið“ á Seyðisfirði. Egilsstaðabúar tóku opnuninni fagnandi og gera enn. Fjarðarheiðin verður nefnilega ófærari og ófærari með hverju árinu sem líður og það þarf að vera vín. Með öllu. Alltaf. Ég valdi að hylja andlit viðfangsefna myndarinnar til að tryggja nafnleysuna og því sem fram fór í afmælinu – sem reyndar var allt undir kontról og afar snyrtilegt á allan hátt.