Sumarið og sólin.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn kæru lesendur.

Á Íslandi er sumar samkvæmt almanakinu en í Danmörku er enn vor. Sumarið hér kemur 1. júní.

Það eru að verða 7 vikur síðan vorið kom í Danmörku – samkvæmt almanakinu – en ekki samkvæmt veðurfarinu. Mikil óskapans hraglandatíð sem þetta hefur verið. En allt er breytt, það breyttist á mánudaginn en þó mest í gær. Sólin skein sjóðheitum geislum sínum og húsið fylltist saurangann. Þess vegna datt mér í hug þessi vísa eftir Sigurð Ágústsson, bónda á Birtingaholti í Hrunamannahreppi:

Veðurguðinn fjarlæg fjöll
felur djúpri slikju.
Ek ég nú um anganvöll
yndislegri mykju.

Og það gerðu þeir í gær; óku mykjunni.

Vinkona mín skrifaði til mín á Þorranum og spurði hvort það væri ekki fínt að fara í húsmæðraorlof til Sönderborgar í apríl? Ó jú, svaraði ég. Veistu, í apríl er veðrið svo gott að við getum setið úti öllum stundum innan um blómin og hellt í okkur – og á okkur, ef hitinn kæfir okkur – heilu flöskunum af Proseccoi, Cava og fleiru slíku. Mögulega blönduðu með Aperol – eða ekki. Vinkonan pantaði flugmiðana, kom og fékk varla neinn einasta sólargeisla á sig. En þessar ofannefndu flöskur voru kláraðar þrátt fyrir að það hefði verið skýjað. Hún hélt svo heim á leið á mánudaginn, sama dag og það hitnaði og sólin lét sjá sig.

Dagurinn í dag; Sumardagurinn fyrsti, var frábær. Ég sat úti og las gamla bók sem ég ætti eiginlega ekki að vera að lesa, svo gömul og hrum er hún orðin. Hún gæti auðveldlega hrokkið í sundur. Gefin út 1940 og svei mér þá ef hún er ekki merkt hreppstjóranum Stefáni Baldvinssyni langafa mínum. Þetta er Heiðarharmur eftir Gunnar Gunnarsson.

Í dag var sumarið einnig skipulagt heilmikið á minn mælikvarða þar sem ég er annars afar lítið fyrir of miklar skipulagningar þessa dagana. Í dag fékk ég tilboð um að fara til Stavanger á morgun og þáði ég það, þrátt fyrir að verða af hjólaferð til Flensburg á laugardaginn. Mér þykir nefnilega ægilega skemmtilegt að hjóla til Flensburgar í hópi Íslendinga. En ég er ekki maur, ég get ekki verið út um allt á sama tíma.

Í dag bauðst mér líka að fara til Hammerfest í Noregi í lok maí. Ég þáði það enda alltaf langað til að fara svona langt norðureftir. Alveg lengst norður í rassgat eins og sagt er á penni íslensku. Mér skilst að þetta sé huggulegur bær en samstarfsfólk mitt bölvar flugvellinum. Segir að maður komi innan af hafi og bremsi upp við klettavegg. Það verður bara gaman, nema bremsurnar gefi sig.

Fyrir utan þessar tvær skipulagningar er ferð til Tönsberg í suður Noregi á dagskránni í lok júní og Íslandsferð um miðjan ágúst.

Á sama tíma í fyrra, – í fokking fyrra – var sumarið skipulagt í þaula og leit út eins og yfirvofandi óveður með tilheyrandi þrumuskýjum. Núna get ég bara ekki ímyndað mér annað en að sólin eigi eftir að skína hvern einasta dag í sumar. Það mun rigna á nóttunum. Ég á eftir að útbúa og elda matinn út í garði, eins og ég gerði í gær, ég á eftir að njóta þess að þvo þvottinn sem er eitt af uppáhalds húsverkunum mínum og ég á eftir að klára hverja bókina á fætur annarri á bak við hús í morgunsólinni.

Spái góðu sumri.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *