9. maí 2018 – Nafli alheimsins

Ég vaknaði og það blæddi úr einum skurðinum af fimm. Skurðinum sem er staðsettur í naflanum.  Mér var illt í öllum skurðunum, illt inni í maganum, illt framan á lungunum og í kringum lungun og illt í öxlunum. Í hvert skipti sem ég skipti um stellingu, reisti mig upp, lagðist útaf eða snéri mér, færðist loftið sem ég hafði verið fyllt með, til og það er sárt á meðan á því stendur. Ég skipti um umbúðir á blæðandi sárinu en það blæddi bara meira. Eftir þriðju skiptinguna gafst ég upp og endaði upp á sjúkrahúsi.

Það eru bara örfáir sem vita það, en minn viðkvæmasti eða veikasti punktur er naflinn og eru þá báðar hliðarnar, sú andlega og líkamlega taldnar með. Eiginlega er það minn eini veiki punktur. Mitt eigið mat og það er ískalt. Það hefur aldrei mátt pota í naflann minn, ég HATA það og ég er svo skelfilega hrædd um að puttinn fari í gegn. Ef Fúsi ætlar að stríða mér eða pína mig, þá potar hann í naflann á mér og ég hika ekki við að beita mínum hættulegustu vopnum gegn honum. Það var þess vegna sem ég sprengdi næstum því miltað í honum í denn.

Í dag lá ég sem sagt uppi á bekk á sjúkrahúsi með 4 lækna og einn hjúkrunarfræðing í kringum mig og flest öll potuðu í naflann á mér. Þau sem ekki potuðu með puttunum, potuðu með augunum. Það er jafn hræðilegt. Ógeðslegt. Sumir þurftu að læra, aðrir voru að kenna. Einn stjórnaði. Naflinn á mér virtist vera nafli alheimsins akkúrat þarna. Og ekki af fúsum og frjálsum vilja. Bæði naflinn og ég hötuðu þessar aðstæður. Ég fór hratt í gegnum lífshlaupið mitt í huganum og reyndi að finna hvað ég hefði unnið mér til saka til að liggja þarna. Þegar læknirinn sem stjórnaði bað um að sótt yrði saumasett, kallaði ég á eftir sendlinum að sækja líka própófól (svæfingarlyf). Þau hlógu að mér og sögðu að það væri ekki í boði, en að þau skildu staðdeyfa mig. „Bara 20mg… plííís.“ Ég grátbað þau og reyndi að kreista út tár. En mér varð ekki að ósk minni og augnabliki seinna fann ég hvernig staðdeyfingarnálin stakkst í gegnum naflann minn. Ég lokaði augunum og þóttist vera í yfirliði en hlustaði samt á lækninn segja frá því þegar hann sótti krakkann sinn sjálfur með keisaraskurði ofan í kviðinn á konunni sinni. Hann sagði að hann hefði ekki treyst neinum öðrum til þess því hann væri einfaldlega bestur. Og að tannlæknar væru ömurlegir, hann hatar tannlækna. „Viltu kannski meiri deyfingu“ spurði hann skyndilega. „Við erum ekki í Afríku, þú mátt fá eins mikla deyfingu og þú vilt…“ „Já takk“ svaraði ég, og svæfðu mig í leiðinni og vektu mig eftir 9 daga.“ Hann bætti bara við deyfinguna.

Á leiðinni upp á sjúkrahús hafði nefnilega verið hringt í mig frá Odense (OUH, Háskólasjúkrahúsið í Óðinsvéum,) en strax í lok aðgerðarinnar í gær, var ég komin í ferli á OUH því þangað fara tilfelli eins og ég. Nú er ég orðið tilfelli. Hvernig tilfelli ég svo sem er. Símhringingin innihélt plan; MR (segulómskanni) á mánudag, PET/CT (jáeindaskanni og tölvusneiðmyndataka) á miðvikudag og viðtal á föstudag. Það eru 9 dagar þangað til föstudagurinn rennur upp. Þess vegna langaði mig bara til að sofa í 9 daga því 9 dagar eru ekki 9 dagar, heldur 900 dagar.

Restinni af deginum var eytt í að bölsóttast út í loftið sem enn var í öllum efri parti líkamans, tala í símann, lesa Heiðaharm og að manna mig upp í að lesa aðgerðarlýsinguna sem liggur á netinu. Þegar ég loks hafði mig í það, var ég síður en svo að lesa um sjálfa mig. Þetta var ekki mitt móðurlíf og mitt kviðarhol. Aftur sá ég myndir og myndskeið. Meira ruglið.

Á Aabenraarúntinum hlustuðum við meðal annars á Amy.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *