21. árs svefntöflureglan

Síðast færsla fjallaði um svefnstaði, þessi mun fjalla um svefn eða kannski; ekki svefn og einhverskonar svefn. Þessi færsla er líka í lengra lagi. Svona ef þið skylduð vera að flýta ykkur.

Fólkinu í kringum mig virðist vera annt um hvort ég sofi á nóttunum. Sefurðu Dagný mín, spyr það með hlýju og umhyggju í röddinni. Já já, blessuð vertu, eins og steinn, svara ég oftast. Sem hefur oftast verið satt þannig séð, kannski samt ekki alltaf en en ekkert meiriháttar vandamál til að opinbera. Og heldur engin ástæða til að ræða frekar. Fyrr en núna undanfarnar nætur. Nefnilega búið að vera eitthvað svefnvesen á mér. Help me make it through the night, sönglaði ég fyrir Fúsa í gær, svipað og Ruth Reginalds gerði hérna í denn. Hann sagði mér að fara niður í bæ eftir að það væri byrjað að skyggja og kaupa mér eitthvað sniðugt stöff. Í nótt svaf ég ágætlega, líklega vegna þess að ég gleypti baldrían (brúnt duft) í gærkvöldi sem ég hafði keypt niður í bæ í gær, reyndar í björtu. Ég hef aldrei átt í vandræðum með svefn, aldrei á ævinni og því hrynur heimurinn svolítið ef ég fer út af sporinu hvað það varðar. Að heimurinn hrynji er kannski ofsögum sagt, en þið vitið hvað ég á við. Þið vitið líka að ég á það til að ýkja.

Þetta hefur reyndar gerst áður eftir að ég kom heim frá OUH. Einhvern tímann í júní spurði heimahjúkrunarfræðingurinn hvort ég gæti sofið, sem ég svaraði neitandi og þá bað hún mig endilega um að tala við lækninn og sagði jafnframt að það væri í lagi að taka svefntöflur tímabundið. Ég sagði bara já og nennti ómögulega að segja henni frá 21. árs svefntöflureglunni minni því mig svimaði svo mikið akkúrat þá þegar hún var hjá mér. En ég skal segja ykkur frá henni. Ykkur segi ég nánast allt.

Það var nefnilega þannig að þegar Svala mín fæddist um ellefuleytið að kvöldi til þann 4. júní 1997, var ég svo ofboðslega ánægð með hana að mig langaði bara til að dansa og syngja alla nóttina. En Gunnu ljósmóður fannst það nú ekki vera málið, ég þyrfti að hvílast eftir fæðinguna, sem mér fannst reyndar skítlétt og svo átti ég að vera hress daginn eftir til að sinna barninu. Þegar ég bara gat ekki sofnað fyrir hamingju, þá stakk hún upp í mig hálfri svefntöflu og ég steinlá til morguns.

Þann 1. júní 2018 leit allt vel út með mig á OUH (eftir aðgerðina 30. maí) og ég átti líklega að fara heim daginn eftir. Ég var í göngutúr á ganginum um fjögurleytið og mætti lækninum sem skar mig upp og hún hrósaði mér fyrir göngulag og dugnað í göngu. Ef að ég hefði verið kynbótahryssa hefði ég fengið 9,0 í einkun. Ég sagði henni að ég væri samt með frekar mikla nýtilkomna verki. Hún sagði að ég væri bein í baki þannig að það væri ekki mikið að mér. Nákvæmlega það sama og ég hefði sagt við sjúkling sem myndi kvarta undan verkjum í kvið. Ég var sammála henni. Fór samt fljótlega inn á stofu og lagðist upp í rúm. Verkirnir ágerðust og á milli fimm og sex, lá ég stíf eins og stöng, andaði eins og lafmóður hundur í erfiðri smalamennsku, hjartað hamaðist og hitinn hækkaði. Morfínið virkaði ekki, ekki heldur ketoganið. Hvað ertu með mikla verki núna Dagný mín, á skalanum 1-10 þar sem 10 eru verstu hugsanlegu verkir? spurði Sandý hjúkrunarfræðingur (ein af þeim sem Fúsa fannst svo falleg.)  20, stundi ég. Þetta var ekkert grín skal ég segja ykkur. Ég gat hvorki talað né grátið því ég varð að einbeita mér að andardrættinum. Ég var komin með sýklasótt eða blóðeitrun eins og það kallast í daglegu tali á Íslandi. Ég fann það.

Ég get svo svarið það. Mér fannst allt ganga hægt. Eiginlega fannst mér ekkert ganga. Ég bað um súrefni. Síðan bað ég um vökva í æð. Og að teknar yrðu blóðprufur. Svo vildi ég fá sýklalyf. Og ég vildi líka fara í skannann og uppskurð. Ekki að ég hafi verið að skifta mér af minni eigin hjúkrun og meðferð, nei nei alls ekki. Ég hafði bara hellings áhyggjur. Ég vissi að ég gæti mögulega dáið, þó það væri kannski ekki beinlínis stutt í það nema ekkert væri að gert. Sandý hljóp inn og út úr stofunni, læknirinn var kallaður til og ég var send í tölvusneiðmyndatökun sem er hinum megin í byggingunum. Mér fannst leiðin óralöng og á leiðinni eru litlar „hraðahindranir“ eða einhversskonar skil í gólfinu með jöfnu millibili sem er hræðilegt að fara yfir í svona ástandi. Bæði ferðin til og frá skannanum og skönnunin sjálf var hryllingur. Í bílastæðahúsinu við OUH eru líka svona ójöfnur með vissu millibili. Í huganum hverf ég alltaf ofan í gangana á leið í skannann, þegar við keyrum um bílastæðahúsið.

Þegar ég kom upp á deild aftur, lá svarið fyrir; í aðgerð skyldi ég fara sem fyrst. Það var hellingur af frjálsu lofti í maganum á mér. Sem er síður en svo gott mál. Samþykkirðu að við opnum þig með öllum þeim áhættum sem fylgja aðgerð og ef ekki tekst að sauma saman, þá þurfum við að leggja stóma, er það ok? spurði læknirinn. Nei það er ekki ok, hugsaði ég en kinkaði samt kolli. Ég fann fyrir gleði, feginleika, þakklæti. Mér lá á að láta leysa vandamálið. Ég gat ekki beðið og þurfti ekki að bíða lengi.

Undirbúningur fyrir aðgerð hófst og meðal annars átti að leggja magasondu. Jesús minn, ég hef lagt hundrað magasondur og vissi því að það er ekki það þægilegasta. Margoft eru þessar sondur lagðar með valdi. Því miður. Ég spurði hvort ég mætti fá smá própófól (svæfingarlyfið sem ég elska svo heitt), bara 20mg? Nei, það var víst ekki í boði. Fyrir það fyrsta var kvöl að setjast upp og í öðru lagi var hreinasti hryllingur að fá sonduna. Ég segi það satt. Ég sat grafkyrr, ég ætlaði ekki að láta þetta dragast á langinn, ætlaði ekki að tefja aðgerðina með einhverjum látum, gerði allt sem ég átti að gera, tók sopa og kyngdi. Tárin fossuðu niður kinnarnar á mér og mér fannst ég virkilega ekki geta andað. Ég kúgaðist, gubbaði og grét, allt saman á meðan ég var  grafkyrr. Þarna man ég að ég hugsaði að ég kæmi aldrei nokkurn tímann til með að vinna aftur sem gjörgæsluhjúkrunarfræðingur. Ég gæti aldrei lagt sondu í sjúkling aftur. Aldrei. Þetta var það versta sem ég hafði á ævinni upplifað. Og ég upplifði þetta aftur þann 7. júní fyrir seinni bráðaaðgerð. Þetta er ekkert sem venst.

 Aftur var mér keyrt um ójafna ganga OUH og um leið og ég kom inn á skurðstofuna fékk ég fentanyl (mjög gott verkjalyf). Vá, það er orðið nýjasta uppáhalds lyfið mitt.

Klukkan 21:30 var hnífnum stungið í mig og tiltölulega nýjum skurðinum sprett upp aftur endilöngum. Aðgerðin tók þrjá tíma. Ég man eftir mér á skurðstofunni þegar ég vaknaði. Ég spurði nefnilega hvort ég hefði sloppið við stóma. Svæfingin játti því en ég vildi vera viss og vildi sjálf þreyfa á maganum á mér. Ég man að hún færði hendina á mér niður og ég strauk þvers og kruss til að vera hundrað prósent viss. Ég hafði sloppið og þvílíkur léttir! Síðan var mér keyrt á Gjörið.

Það var rökkur á Gjörinu þegar ég kom þangað. Ég leit í kringum mig og spurði hjúkrunarfræðingana hvort það væri yfirfullt á deildinni og hvort það væri ástæðan fyrir því að ég væri látin vera í geymslunni? Þú ert ekki í geymslu, þú liggur ein á tveggjamanna stofu, það er rólegt hjá okkur í nótt, þess vegna færðu tvo hjúkrunarfræðinga til þjónustu reiðubúna, svaraði önnur þeirra. Ó, mér fannst bara svo draslaralegt hérna, hélt að þetta væri geymsla. Stundum er betra að þegja en segja Dagný Sylvía. Þær spurðu hvort það væri minna „drasl“ á Gjörinu í Sönderborg? Einhvern veginn hvisaðist það alltaf út á undan mér hvert starf mitt væri og mér leið oft eins og allir vissu allt um mig. Umrætt drasl voru öll tækin og allt það sem fylgir einni venjulegri stofu á venjulegu Gjöri. Ég sá bara vitlaust.

Ég var svakalega þurr og þyrst. Hjúkrunarfræðingarnir mokuðu upp í mig litlum klökum án afláts. Mér var svo íllt í bakinu, líklega eftir að hafa legið svona stíf í nokkra klukkutíma. Þær gerðu allt til að láta mig liggja þægilega. Snéru mér á hliðarnar, settu kodda hér og þar og þó ég lægi með augun lokuð, sá ég þær fyrir mér. Þær struku mér um hárið, ennið og kinnarnar og sögðu að ég skildi bara reyna að sofna. Ég reyndi það. En þá byrjuðu ofsjónirnar. Um leið og það var ró í kringum mig og ég lokaði augunum sá ég fólk kasta litríkum handklæðum í Kína, eitt gróft og svart líkamshár snúast eins og þyrluspaði í húð og færast nær og nær andlitinu á mér, ljós sandkorn þyrlast í kringum mig og margt fleira. Svona gekk þetta alla nóttina, endalausar ofsjónir eins og nokkurra sekúnda langir vídeosíkvensar. Ekkert óþægilegt þannig séð, bara mjög truflandi.

Um miðjan dag daginn eftir var ég flutt upp á kvensjúkdómadeild – mína deild. Fúsi kom um morguninn og var hjá mér allan daginn. Ég man ekkert eftir 2. júní.

3. júní kom hann líka, var allan daginn og sat og horfði á mig sofa. Eða reyna að sofa, sýnirnar héldu áfram. Og rúmið var alltaf á hreyfingu. Það hékk líka risastór brasílísk könguló neðan úr lampanum fyrir ofan höfuðið á mér, en ég var ekkert hrædd því ég vissi að þetta var bara bull. Stundum datt ég fram úr rúminu og datt upp í það aftur. Það var hrikalega gott að hafa Fúsa hjá mér.

Um kvöldið fer ég svo að sofa en vakna fljótlega eftir miðnætti við martröð. Ég man ekki um hvað hún var en ég sveif í lausu lofti úti í horni á stofunni minni. Ég náði ekki bjöllunni og reyndi því að kalla á hjúkrunarfræðinginn en hún kom ekki. Skyndilega skelltist ég aftur í rúmið, vaknaði og áttaði mig á að þetta hefði bara verið draumur. Ég gat örugglega sofnað aftur.

Ég var varla búin að loka augunum þegar næsta martröð byrjaði. Við (veit ekki alveg hver var með mér) vorum á gangi í regnskógi, niður með fossi og eftir stígum. Ég var að fara að ná í Vask. Síðan kom ég á Seyðisfjörð og rakst á fullt af fólki sem ég kannast við en þekki ekki vel, á síldarplani. Gekk í gegnum planið þar sem allir voru vinnandi, hélt áfram að leita að Vaski. Eiginlega var ég að sækja hann úr pössun en samt ekki. Ég sveif eiginlega inn með firði, allt var í gömlum litum. Hálf litlaust. Allt í einu var ég komin inn í búð eða sjoppu og var að spyrjast fyrir um Vask og þá kemur hann. Svo ílla farinn. Einhver hafði beitt hann hræðilegu ofbeldi. Ég fór að hágráta, gat ekki meir. Hringdi bjöllunni og hjúkrunarfræðingurinn kom. Hún kveikti ljósið, huggaði mig og sagði þetta eðlileg viðbrögð. Heilinn gæti ekki meira eftir slíkt áfall sem líkaminn hefur orðið fyrir. Spurði hvort ég hafi aldrei heyrt um slíkt áður? Nei aldrei, snökkti ég.

Hún mælti með að ég léti ljósið loga eða kveikti á sjónvarpinu. Ég vildi hvorugt. Ég vildi hlusta á Cohen. Ég lá og hlustaði lengi á hann og sofnaði svo fyrir rest. Aftur byrjarði mig að dreyma og nú út frá laginu Alexandra leaving. Draumurinn snérist síðan upp í martröð. Látnir og lifandi nánir ættingar komu við sögu og ég var á flótta. Eins og í hryllingsmynd. Ég heyrði í gegnum svefnrofann að það var kallað; „der er noget galt med patienten på stue 7.“ Ræstitæknirinn var þá mættur í vinnuna og var að skúra í nágrenni stofunnar. Aftur var ég hughreyst og hugguð. Og þegar hjúkrunarfræðingurinn var farinn, mundi ég skyndilega eftir að ég hafði heyrt um slíkt ástand áður! Ég upplýsi mína sjúklinga um að þetta geti gerst þegar þeir fara af Gjörinu. Ég hef fjallað um þetta í ritgerð. Hvað var eiginlega að mér? Það hvarflaði að mér að hringja bjöllunni bara til að segja Hellu þetta, svo að hún héldi ekki að ég væri heimskur hjúkrunarfræðingur. En ég gerði það ekki. Ég náði að sofna aftur og um leið byrjaði mig að dreyma og fljótlega varð draumurinn verulega óþægilegur. Það var rigning og ég gekk upp Eyvindárgilið með gömlum vini. Ég var bara á nærbuxunum og í gamla leðurjakkanum mínum. Það var fullt af fólki þarna og ég var útötuð í drullu. Tilfinningin var slæm og niðurlægjandi. Allt í einu vorum við komin í Tókastaði og pabbi var á lífi. Hann var að elda ágætis mat. Sem var nú töluvert frábrugðið raunveruleikanum á meðan hann lifði, því hann gat seint talist góður kokkur. Blessuð sé minning hans samt.

Ég náði ekki að borða matinn því meinatæknirinn vakti mig og stakk nál í risastóra marblettinn sem Aldís kallaði Vetrarbraut. Þessi marblettur var í vinstri olnbogabót. Hin olnbogabótin var alltaf upptekin á morgnanna vegna sýklalyfjana. Mér varð alltaf óglatt þegar stungið var í Vetrarbrautina.

4. júní rann upp, afmælisdagurinn hennar Svölu minnar. Það eina sem ég man eftir þessum degi, var þegar ég hringdi í Svölu. Ég undirbjó mig eins vel og ég gat. Settist upp í rúminu, greiddi mér, ræskti mig, drakk svolítið vatn, ræskti mig aftur, prófaði röddina og hringdi til Balí. Svala var alsæl í paradís og ég samgladdist henni innilega.

Um kvöldið var mér boðin svefntafla til að reyna að fyrirbyggja martraðirnar og brjóta þetta munstur sem ég virtist vera komin í. Ég þáði hana. Um leið rifjaðist upp fyrir mér hvenær ég hafði fengið svefntöflu síðast. Það var 4. Júní 1997. Eða kannski rétt eftir miðnætti þann fimmta?  Næstum nákvæmlega 21 ári eftir að Svala fæddist. Þarna varð til regla. 21. árs svefntöflureglan mín. Sem mér er lífsins ómögulegt að víkja frá, þar sem ég er afar mikil prinsippmanneskja að eðlisfari. Næst þegar ég get tekið svefntöflu verð ég 63 ára. 

 

 

 

 

 

6 Responses to “21. árs svefntöflureglan

 • Guðrún Margrét
  2 ár ago

  Jaja þá verð ég töluvert eldri en ég hlakka til að lesa söguna.
  Btw ég á deit með hóp af fyrrverandi nemendum 12 ágúst 2026 (daginn fyrir 63 ára afmælið mitt) en þá verður almyrkvi í Reykjavík fyrir sunnan.

 • Yndislegt að lesa pistlana þína eins og alltaf, það er allt í lagi að taka svefntöflur svo lengi sem þær hjálpa. Gangi þér allt sem best elsku Dagný mín. <3

 • Elísa Eðv.
  2 ár ago

  Úff hvílík upplifun. Vonandi getur LC veitt örlitla sálarró ??

  • Elísa
   2 ár ago

   (Átti að vera hjarta, ekki spurningarmerki) <3

 • Elsku besta Dagný, enn einn snilldarpistillinn. Elska að lesa þá ??! Og innilega til hamingju með afmælið ?. Heyri í þér fljótlega ??

 • Margrét
  2 ár ago

  Kærar þakkir fyrir þennan frábæra og upplýsandi pistil. Þú ert heppin að eiga svona marga góða að. Fúsi sleppur við að elda og baka. ? Gangi þér sem best að ná bata. Kærleikskveðjur.
  Margrét

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *