Það sem á dagana drífur / Hænan

Nágrannadóttirin hún Lovíse hringdi í mig í morgun og spurði hvort ég vissi hver ætti gráa hænu. Nei, það vissi ég ekki og hvers vegna ertu að spyrja Lovíse mín? -Jú, það er grá hæna laus niður í Kóngavegsgarði, svaraði hún.
Á bakvið götuna okkar, liggur almenningsgarður sem heitir eftir Kóngaveginum og liggja garðar húsanna hinu meginn við götuna, sem sagt á móti okkur, niður að þessum garði.
Ég spurði Lovíse hvort þetta væri bara ekki dúfa? Stelpan er á 24. aldursári og hvæsti eiginlega út sér einhverju sem líktist nei’i. Hún taldi sig þekkja muninn á dúfu og hænu. -En hvað með fasana, getur þetta verið svoleiðis? spurði ég. Og er fuglinn með eggjum? Lovíse sagði með samanbitnar tennurnar að þetta væri grá hæna og já, hún er með eggjum. Það sést langar leiðir. Geðslagið í nágrannadótturinn var víst ekki upp á sitt besta í dag…

 

Lovíse var nefnilega ekkert ánægð með að vera orðin flækt í þetta hænumál en það kom þannig til að hundaeigandi sem lætur sig hlutina varða, hafði verið á göngu í garðinum og rekist á hænuna og fannst ekki hægt að hún gengi þar um laus. Hundaeigandanum fannst líklegast að hænan kæmi úr einhverjum garðinum á Møllegade enda sú gata þekkt fyrir flennistóra garða við þau hús sem að snúa að almenningsgarðinum og því tilheyrandi dýrahald í þeim. Aðallega þó hænur. Jú og rottur sem oft fylgja hænsahaldi en það mál er leyst með loftbyssum. Þetta er allt voðalega heimilislegt hérna á Møllegade þó að einungis séu um 500 metrar heiman frá okkur og niður á göngugötu og í fyrstu matvöruverslunina þar. Gatan okkar minnir reyndar skemmtilega á 5th Avenue í New York sem liggur upp að Central Park og þá væri matvöruverslunin okkar, Morton Williams supermarket.

En þar sem það er virkur dagur í dag, þurfti hundaeigandinn að ganga á ansi margar dyr áður en opnað var fyrir honum. Hún, hundaeigandinn er kona, byrjaði neðst í brekkunni og hélt svo dinglandi áfram upp. Ég veit þetta því að ég sá þetta. Ég sit mestmegnis við gluggann fyrir hádegi og fylgist með því sem fram fer. Ég hafði einnig spáð í hvers vegna hún væri að ganga á dyr því ég veit að hún er ekki sölukona né boðberi. Ég veit það því að hún hefur sagt mér að það sé mikill sigur fyrir sig ef hún kemst með hundinn út því að stundum er sálin í henni svo kvalinn að hún kemst ekki fram úr rúminu heilu dagana. Nágranni hennar dó í fyrra og þá versnaði ástandið. Hún þekkti hann sáralítið en fannst erfitt að hugsa til þess að hann væri bara dáinn sí sona og sérstaklega erfitt þótti henni að vita til þess að það hefði legið lík í íbúðinni við hliðina á, frá því að hann dó og þangað til hann var sóttur, eða í nokkra klukkutíma. Hann var um áttrætt og varð bráðkvaddur bara sí sona. Henni fannst það víst eitthvað óhugnalegt. Ég benti henni á að oftast væri lifandi fólk óhugnalegra en lík. En ég hefði ekki átt að gera það, því nú er hún hrædd við nánast allar lifandi manneskjur og finnst þær vera að elta sig. Því er mikill stuðningur í hundinum sem er reyndar ekki nema um 250 grömm en tennurnar í honum eru flugbeittar.

Loksins bar dinglið árangur og það var Lovíse sem opnaði. En þau eiga ekki hænur en Lovíse fannst hún samt skyldug til að sinna þessu því að þeirra garður liggur að almenningsgarðinum, auk þess er Lovíse afskaplega vel gerð ung kona með hjartað á réttum stað gangvart bæði mönnum og málleysingjum. Hún hófst handa við að hringja í nánustu nágrannana sem eiga hænur en það er allt vinnandi fólk og svarar ekki símanum á vinnutíma nema það sé leikskólinn að hringja (og þeim dauðlangar líka til að sleppa því að svara honum,) þannig að hún hringdi í mig.
Ég bauðst til að fara yfir í garðinn hjá okkar bakgrönnum (en svo kallast þeir sem búa fyrir aftan) og athuga hvort allt væri með felldu þar sem og það var. Ég hringdi í Lovíse aftur og sagði að það væri allt með felldu á mínum svæði og spurði hana hvað hún ætlaði að gera. Í bæði skiptin sem ég hringdi, þá talaði ég eiginlega bæði við Lovíse og hænuna því alltaf heyrðist gaggið í hænunni á bakvið – ga gagg gagga ga. Nú, hún taldi sig þurfa að vakta hænuna og ekki síst ef hún verpti, þá ætlaði hún að hirða eggin… -En hvað ef hænan hefur komist í hana og það koma ungar úr eggjunum þegar þú brýtur þau á pönnuna? spurði ég. Hún ætlaði aftur að verða pirruð en ég bakkaði og hughreysti hana með því að svo hratt gerðist getnaðurinn ekki á milli hænu og hana (án þess að ég viti nokkuð um það) og sagði að mér finndist þetta góð hugmynd hjá henni og bauðst til að færa henni útilegustól, teppi og heitt kakó, sem hún þáði. Nú fjórum tímum síðar, situr hún þarna enn, ég var að hringja í hana, og vaktar hænuna sem er alsæl með að hafa komist út að borða og ekki síst út á lífið.

*Lovíse er ekki beinlínis rétt nafn heldur er millinafnið hennar íslenskað. Vegna sterkra tengsla í gegnum Aldísi, fylgist Lovíse grannt með mér á Fecebook og það gæti verið óþægilegt fyrir hana ef hún sæi að ég væri að skrifa um hana.

3 Responses to “Það sem á dagana drífur / Hænan

  • Helga Dögg Sigurðardóttir
    5 ár ago

    Haha snilldar saga 🙂
    Sé þetta ljóslifandi fyrir mér.

  • Ha ha ha þessi saga gerði föstudaginn minn betri, takk þín kæra ?

Trackbacks & Pings

  • Alrúnarblogg :

    […] Það sem á dagana drífur / Hænan […]

    3 ár ago

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *