Það sem á dagana drífur / Handavinnan

Í ráfi mínu um húsið um daginn fann ég garn. Það er svona þegar tíminn er mikill til ráfs og skúmaskotin mörg, þá finnst margt og mikið. Það á meðal garn. Einhvern tímann fyrir mörgum árum keypti ég nokkra hnykla úr hreinni portúgalskri bómull og prjónaði sokkapar handa Aldísi og var ætlunin nú að prjóna handa sem flestu heimilisfólkinu en eitthvað annað fangaði athyglina svo að ekkert varð úr. En þetta sokkapar sem Aldís fékk, var alveg stórgott og passlega hlýtt. Svo að ég hefði átt að prjóna fleiri. Og ætlaði alltaf að gera það og þess vegna hef ég aldrei hent hnyklunum svo að nú rakst ég á þá á þessu eilífa ráfi mínu og sá að það má þvo garnið í sextíu gráðu heitu vatni. Ég ákvað því að prjóna bekkjartusku og gefa vinkonu minni í fjörutíu og fjögurra ára afmælisgjöf.

Uppfitjunin hófst og þar sem ég er kolryðguð í öllum prjónaskap, stærðum, lengdum og þar af leiðandi almennri rúmfræði, fitjaði ég rúmlega hundrað lykkjur upp á prjóninn og sýndist það vera passlegt ef úr átti að verða tuska. Síðan tók ég til við að prjóna yfir öllu mögulegu; meðal annars Netflix þáttum, fréttatímunum á RÚV, morgunvaktinni á Rás eitt, Fúsa sítalandi og Fjallaskálaþáttum Sigmundar Ernis á Hringbraut. Já spyrjið mig bara hvursu mörg svefnpláss eru í Þorsteinsskála eða hvenær  Múlaskáli var byggður og hvernig efnið var flutt á byggingarsvæðið. Einnig prjónaði ég yfir handboltaleik og það var þá sem nokkrar lykkjur féllu niður enda er lífið lambagras, léttasótt og lykkjufall eins og Megas segir í laginu.
Ég sem sagt prjónaði og prjónaði yfir öllu mögulegu þangað til ég áttaði mig á að bekkjartuskan var minnst hálfur metri á breidd, já eða lengd, hvernig sem henni nú var snúið. Og þar var ekki aftur snúið því að þessi hálfur metri var jafnt og ríflega hundrað lykkjur. Þannig að ef ég héldi áfram mikið lengur, yrði hún 50×50 sentimetrar á stærð eða hálfur fermetri. Það er nú kannski ívíð stór tuska að mínu mati. Jafnstór og dæmigerður sófapúði úr IKEA!
Ég hætti því að að prjóna, felldi af og hætti líka við að gefa vinkonunni hana í afmælisgjöf. Fúsi sagðist nefnilega ekki vera viss um hvort þetta væri lítill trefill eða borðdregill. Eða lítil motta fyrir framan rúm í litlu herbergi. Í staðinn sendi ég bekkjartuskuna til Stokkhólms, Aldís höndlar svo vel svona abstrakta handavinnu gerða af mér og kannski líka vel við hæfi að frumburðurinn fengi frumbekkjartuskuna. Reyndar er þetta ekki nauðsynlega bekkjartuska, það er líka hægt að nota þetta sem þvottastykki. Eða hita stykkið í örbylgjuofninum og stinga því inn á sig þar sem fólki er kaldast.

Þetta var að gerast upp úr miðjum janúar, þannig að ef vinkonan ætti að fá bekkjartusku made by me í afmælisgjöf, sem ég var búin að bíta í mig, varð ég að hafa hraðann á. Ég spýtti vænri slummu á prjónana og setti í gír. Og skipti um og setti í túrbógír þegar ég áttaði mig á að vinkonan átti afmæli fyrr en ég hélt. Þetta gerist á hverju einasta ári og við höfum verið vinkonur frá því árið 1981. Mér líður eins og hún eigi afmæli 31. janúar en í alvörunni á hún afmæli 30. janúar – á hverju einasta ári. Og alltaf verð ég jafn hissa.

En mér tókst að senda tuskur af stað norður í Skandinavíu í tæka tíð, bæði til Aldísar og vinkonunnar því að í mínum huga getur fólk alltaf á sig tuskum bætt enda rykið og heimilisskíturinn alveg í hámarki á meðan sólin er svona lágt á lofti. Og þá er gott að geta gripið til portúgalskrar bómullarbekkjartusku hvenær sem færi gefst.

Til gamans má geta að augnabliki áður en ég byrjaði að skrifa þessa færslu rakst ég á grein á Stundinni (hérna) þar sem Anna Margrét (konan í greininni) segir að prjónaskapurinn færi sér hugarró og hamingju. Ég ætla þess vegna að prjóna óteljandi tuskur og þvottastykki.

One Response to “Það sem á dagana drífur / Handavinnan

  • Það sló mig þessi athugasemd um minnisleysi með 30. eða 31.janúar. Við Gústi giftum okkur 30.janúar 1960. Auðvelt að muna ártalið ! Við þurftum forsetaleyfi, sem við gleymdum að ná í. (fengum að láta prestinn fá það í vikunni eftir). En fyrstu 30 árin mundum við ekki hvort við hefðum gift okkur 30. eða 31. Stundum rönkuðum við ekki við okkur fyrr en í febrúar ! En núna erum við farin að muna eftir þessum degi með tilheyrandi blómvendi og tilbreytingu í mat. Næsta ár býður upp á 60 ára afmæli, ef guð lofar og minnið helst á sínum stað. ? Takk fyrir pistilinn. Alltaf kemurðu með eitthvað sem gefur okkur tækifæri til að spekúlera um Lífið og tilveruna. Knús ????

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *