Fyrir sunnan í sólinni

Sönderborg er yndislegur bær, sá langfallegasti í allri Danmörku og það er auðvitað hlutlaust mat. En þrátt fyrir öll æðislegheitin þarf ég að fara úr bænum endrum og eins. Því varð úr að með tiltölulega litlum fyrirvara, var pöntuð ferð suður á bóginn og skilyrðin voru eftirfarandi; ódýrt, auðvelt, hlýtt og sem stystur flugtími. Þess vegna fórum við til Tenerife í ferðamannamergðina, hótelkompleksin og íslenskuna – eða af umtali höfðum við fengið þá mynd í hugann og væntingar um stórkostlegar upplifanir voru ekki háar.

Við keyptum pakka; flug, hótel og bíl – nánar um það í lok færslunnar ef áhugi er fyrir.

Dagur 1.

Veðrið var ofboðslega gott og Puerto De La Cruz, bærinn sem að við vorum í, því skoðaður til fóts. Til að brenna ekki í gegnum hárið, þurfti ég að grípa til höfuðklútanna aftur. Hattarnir mínir urðu eftir heima vegna þess að við vorum bara með handfarangur. Það var líka skrítin tilfinning, ekki slæm, bara skrítin, að fara aftur í „lyfjagjafafötin“ frá því í sumar sem eru í rauninni bara sumarföt en ég tengi við lyfjagjafatímabilið.

Við þurftum að kaupa vatn og komum við í matvörubúð þar sem var kjöt- og ostaborð og keyptum við nesti fyrir göngutúrinn.

Baquette, serrano, chorizo og ostur. Freyðandi Atlantshafið og freyðandi Cava.
Hlýr vindur og skínandi sól. Ódýr og bragðgóð máltíð. Dagurinn byrjaði stórvel.

Hótelið okkar er í miðjunni af þessum þremur hótellegu byggingum sem sjást á bak við og vinstra megin við Fúsa. Í sjónum fór fram brimbrettanámskeið.

Myndin var tekin á Playa Jardín. 

Við gengum eftir göngugötum og eða litlum götum, meðfram ströndinni og miklu mannlífi. Árlega heimsækja 80.000 ferðamenn Puerto eins og heimamenn kalla bæinn í daglegu tali, en einhvern veginn fundum við ekki beinlínis fyrir því. Það var gott pláss fyrir alla, konur og kalla. Þetta er rólegur bær með rólegu iðandi mannlífi.

Í Puerto búa um 30.000 manns og skiptist miðbærinn í gamla bæinn og nýja bæinn. Nýi bærinn ber keim af klassískum hótelbyggingum og þjónum úti á götu sem reyna að krækja í viðskiptavini. Í gamla bænum eru velviðhaldnar sögulegar byggingar, endalaus kaffihús/barir og veitingarstaðir af öllum stærðum og gerðum. Bærinn á sér sögu aftur til 1600 en í lok nítjándu aldar voru bananar fluttir í miklu magni til Englands og fengu einhverjir Englendingar þá sniðugu hugmynd að fara með gufuskipinu til baka til Tenerife og drekka five O´clock te-ið sitt í Puerto. Þannig varð Puerto fyrsti ferðamannabærinn á Tenerife.

Þessi mynd er af Playa Maria Jiménes ströndinni þar sem hópur af ungu fallegu fólki lék sér í öldunum. Okkur virtist þetta vera ungmenni í leik eftir skóla eða bekkur í skólaferðalagi. Á þessari strönd er skemmtilegur veitingarstaður sem heitir Casa Julian og þurfa þjónarnir þar að beygja sig undir klöpp við hluta af vinnunni.

Þetta var sem sagt fyrsti dagurinn okkur og enn örlítil ferðaþreyta í okkur. Þetta var því eiginlega bara besti miðbær sem við höfum gengið í gegnum, með strönd á aðra hönd og mat á hina. Við nutum góðs af sólbekkjum og veðurblíðu og hvíldum okkur á Playa Jardín á miðri leið.

Dagur 2.

Við settum stefnuna á Anaga þjóðgarðinn og regnskóginn þrátt fyrir afleita veðurspá.

 

Ég held að þetta litla þorp heiti Vega De La Mercedes og þarna má sjá Tenerífsk tún.

Við gengum skynjunarstíginn sem er stutt og þægileg gönguleið en þar sem það gekk á með skúrum og hitastigið var hrollkalt, gáfum við þjóðgarðinn upp á bátinn og héldum suðureftir austurströndinni.

Þar skoðuðum við nafnlausa þorpið sem var reist eftir fyrirmælum spænska einræðisherranum Franco í þeim tilgangi að hýsa holdveikissjúklinga frá meginlandinu og minnka þannig smithættu með því að einangra þá þarna. Þorpið komst aldrei í notkun og var meira að segja aldrei klárað, meðal annars því að það fannst lækning við holdsveiki. Í dag er það í eigu Ítala sem hyggst byggja upp ferðaþjónustu. Það er sagt að það sé reimt þarna. Við urðum ekki vör við neitt.

Frá nafnlausa þorpinu gengum við niður að sjó og þar lá manneskja í sólbaði á sérstökum stað. Ef rýnt er í miðjuna á myndinni fyrir neðan, sést hún.

Einnig sést eyjan Gran Canarian bera við himininn.

Frá nafnlausa þorpinu og hraunströndinni fórum við aðeins sunnar í ofurlítið fiskiþorp sem heitir San Miguel de Tajao og það sem þetta þorp er þekkt fyrir eru tíu sjávarréttarstaðir. Þessa dæmigerðu þar sem ferskt sjávarfangið liggur í fiskborðinu og mér fallast hendur því að þetta er of framandi og ég tala heldur ekki spænsku, svo að það endar með því að ég bið bara kokkinn um að gera eitthvað og hann spyr mig að einhverju og ég segi bara sí sí og ég fæ að lokum himneskan mat á borðið.

Dagur 3.

Áfram ringdi í Puerto þó veðurspáin segði annað. Í Masca dalnum átti að vera skínandi sól svo að við tókum stefnuna þangað.

Á leiðinni suður með strönd stoppuðum við í þremur smábæjum. Við sáum bananaplantekru (myndin er ekki af banönum þó svo virðist vera), gengum eftir þröngum og snarbröttum götunum, hittum Votta Jehóva og ég sagði bara sí sí og fékk bækling. Ég var síðan orðin svöng enda að verða liðnir tveir tímar frá morgunverði. Fúsi var ekki svangur. Það er alltaf svoleiðis, hann er saddur, ég er svöng. Hann segir að ég sé síborðandi og að það sé svo mikið vesen á mér því að ég eyði hálfum dögunum inni á veitingarhúsum. Ég svara bara: og hvað með það? Og fer og finn mér veitingarhús. Ég man nú ekki í hvaða þorpi það var en allavega var ég að vera hungurmorða og fór því inn á einhversskonar rykugan kaffibar þar sem þorpsbúar sátu við barinn og spjölluðu. Þjónninn talaði bara spænsku, ég sá engan matseðil og áttaði mig ekki alveg á hvernig staður þetta væri en áræddi að spyrja hvort þau væru með bruschetta því að það var akkúrat það sem mig langaði í þá stundina og mig minnti að það væri dæmigert spænskt. Þjónninn hafði ekki hugmynd um hvað ég var að biðja um, alveg sama hvar ég setti áherslurnar á bruschettuna en var samt allur af vilja gerður til að skilja mig. Þá sendi hann boltann yfir á gestina sína og spurði þá hvort þeir skildu ensku, jú ein konan sagðist kunna smá en hafði aldrei heyrt um bruschetta sem er brauð með hvítlauk, ólífuolíu, salti og oft tómötum og við nánari eftirgrennslan, er það víst ítalskt. En konan skildi bread, garlic osfrv. Sí sí, þau vildu prófa að gera svoleiðis. Eftir stutta stund var þessi dýrindis bruschetta borin á borð fyrir okkur af aldraðri móður þjónsins og það ásamt kaffi og vatni, kostaði tvær evrur.

Ekki var nú veðrið upp á heiði og niður í Masca dalinn upp á marga fiska en alltaf sýndi veðurappið skínandi sól, svo að við þrjóskuðumst við. Ég viðurkenni að mig var búið að kvíða svolítið fyrir að keyra þessa leið, bæði var ég búin að heyra að hún væri ekki fyrir viðvaninga og lesa að lofthræddir þyrftu róandi og bílveikir þyrftu ælupoka.

Ég ákvað því að best væri að ég keyrði til að hafa sem bestu stjórn á aðstæðum. Leiðin reyndist afar greiðfær og auðveld í keyrslu en svolítið hægfarin því að blindbeygjurnar eru óteljandi. Ekkert af því sem ég hafði heyrt og lesið stóðst, sem betur fer.

Við byrjuðum á því að fá okkur að borða þegar við komum til Masca og á meðan braust sólin fram. Þvílík náttúrufegurð á einum stað, Jesús minn almáttugur. Það búa um 100 manns í þorpinu sem liggur í 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Þarna eru fjölmargir veitingarstaðir miðað við höfðatölu og prófuðum við tvo. Sá fyrri var allt í lagi, en ekki meira en það. Restaurant El Guanche Alte Schule sem er í gömlu húsi með frábæru útsýni var mikið betri og smáréttirnir þeirra mjög góðir.

Ég mæli með að byrja á því að skoða þorpið og velja síðan veitingastað. Ég var bara orðin svo glorhungruð þegar ég kom þangað að ég stökk inn á fyrsta staðinn og pantaði mér þriggja rétta máltíð. En það gerði ekkert til, eftir að hafa gengið um og skoðað, var ég aftur orðin alveg tóm og því kominn tími til að fara á seinni staðinn til að borða.

Þegar við komum til Masca var tvísýnt um bílastæði en við fengum sem betur fer eitt. Á leiðinni upp úr dalnum hinu meginn, sáum við kaffihús sem heitir Mirador de la Cruz Hilda meðfram veginum og þar er nóg af bílastæðum. Myndin er tekin frá þeim stað.

Dagur 4.

Veðrið í Puerto var aftur orðið gott og var stefnan því tekin á sólbað í sundlaugargarðinum Lago Martiánes sem er hannaður af listamanninum og arkitektinum César Manrique frá Lanzarote. Þessi garður er gullfallegur, rólegur og það er svo frábært að liggja og hlusta á frussandi brimið skella á klettaveggnum beint fyrir neðan og um leið, horfa á hraunið út í miðri sundlaug. Það hefði verið tilvalið að taka með nesti í stíl við nestið á fyrsta deginum, þó að það sé veitingasala í garðinum og skúr sem selur sangríu í plastglasi. Nesti er bara alltaf betra.

Ef að ég fer einhvern tímann aftur til Tenerife, ætla ég aftur í þennan garð.
Eftir að hafa látið sólina grilla á okkur skrokkinn í tvo tíma, fórum við í bótanik garð (er það skrúðgarður á íslensku?) sem á sér sögu frá árinu 1788. Í þessum garði er lítið um blóm en mikið um tré og plöntur frá Suður Ameríku, Asíu og Afríku. Garðurinn er frekar lítill en mjög áhugaverður fyrir sveitalubba eins og okkur.

Sérstaklega fannst okkur ficus macrophylla f. columnaris tréð flott og athyglisvert en það er tréð á myndinni fyrir neðan.

Eftir þessa skoðunarferð, borðuðum við á fiskistað sem heitir Black Sea og er á ská á móti Bótanik garðinum. Hann var mjög góður og fær okkar meðmæli.

Dagur 5.

Þetta var heimferðardagurinn og var planið að bruna bara sömu leið til baka, þ.e.a.s. fram hjá Santa Cruz og suður á flugvöll. En GPS-inn varaði við umferðartöfum á nokkrum stöðum og mælti í leiðinni með að við færum hinn hringinn eða í gegnum Santiago del Teide og niður eftir suðurströndinni. Það var álíka langt og líka skemmtileg leið þar sem hún liggur upp og niður í nágrenni Masca. Þá fengum við líka að sjá suðursvæðið í augnablik út um bílrúðuna.

Tenerife kom okkur mjög skemmtilega á óvart. Við upplifðum alls ekki ferðamannamergð, þjónustan var góð, hvort sem töluð var enska eða ekki, maturinn almennt góður og á góðu verði og allt hreint, fínt og fallegt.

___________________________

Seinni hlutinn sem inniheldur praktískar upplýsingar sem mögulega gætu nýst öðrum. 

Við keyptum ferðina fyrir kúk og kanil í gegnum Solfaktor. Bíllinn var í gegnum Sixt og flugið með Norwegian.

Hótelið heitir Brue Sea Interpalace og er fjögurra stjörnu hótel. Við lentum seint aðfaranótt fimmtudags og vorum klukkutíma að keyra á hótelið. Þegar þangað var komið, var allt fullt og okkur ekið með leigubíl á nálægt hótel með sama standard og síðan sótt daginn eftir til að keyra okkur á okkar hótel. Vegna þessara óþæginda fengum við betra herbergi og „half pension“ sem þýðir að kvöldverður var innifalinn allan tímann, sem að við nýttum okkur tvisvar. Við höfðum keypt okkur morgunmat með í pakkanum. Við vorum ánægð með hótelið sem var mjög rólegt og öll þjónusta góð ásamt frábærri staðsetningu.

Þessar heimasíður notaði ég til að lesa um Tenerife:

https://notanomadblog.com/one-week-in-tenerife/#anaga

https://www.lonelyplanet.com/canary-islands/tenerife

7 reisetips til Tenerife!

Og þessar bækur las ég áður en ég fór af stað:

Turen går til Tenerife, La Gomera, La Palma og El Hierro eftir Mia Hove Christensen (þessa tók ég með mér þar sem flestar og aðgengilegustu upplýsingarnar eru í henni.)

Ævintýraeyjan Tenerife eftir Snæfríði Ingadóttur (litrík og mörg góð „tips“)

Tenerife Rejseguide eftir Izabella Gawin.

 

 

 

4 Responses to “Fyrir sunnan í sólinni

  • Ólafía Herborg Jóhannsdóttir
    6 ár ago

    Við hjónin, Bjarney ásamt börnum vorumá Tenerife eina viku í Október og vorum bara mjög ánægð

  • Komin tími til að gefa Teneriffe “sjens” sé ég ?

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *