Fáskrúðsfjörður, Illugi og Sauðárkrókur?

(Lokaorð Austurgluggans 26. apríl síðastliðinn)

Þegar við fluttum til Danmerkur sumarið 2001, voru dætur okkar Fúsa Fellbæings fjögurra og sex ára gamlar. Flestum sumarfríiunum vörðu þær í sveitinni á Eiðum og því kunnugar   staðarnöfnunum fyrir austan. Bæjarnöfnin í Eiðaþinghánni vefjast ekki fyrir þeim og þær geta sagt Fáskrúðsfjörður á lýtalausri íslensku, þó að þær viti ekki afhverju fjörðurinn heiti Fáskrúðsfjörður. Ég veit það ekki heldur, því ég skil ekki þetta Fá fyrir framan Skrúð. Ég veit heldur ekki hvor þeirra kom fyrst, Fáskrúður eða Skrúður. Þannig að það er ekki nema von að dætur mínar viti ekki tilurð nafnsins sem er ekki alveg eins augljóst og t.d. Mjóifjörður eða Norðfjörður.

Nú á dögunum vorum við öll saman í fríi á Íslandi og fórum í sumarbústað í Vatnsdal við Húnafjörð. Þarna erum við nánast með öllu ókunnug um leið og komið er út fyrir þjóðveg eitt og bæjar- og staðarnöfnin eru framandi í eyrum stelpnanna því að nöfnin fyrir austan eru á vissan hátt hreinn utanbókarlærdómur. Það er öðruvísi með okkur sem höfum alist upp á Íslandi, við vitum nákvæmlega hversvegna Blönduós heitir Blönduós og Hvammstangi sömuleiðis því að við vitum hvað Blanda, ós, hvammur og tangi er. En það er ekki sjálfgefið að Íslendingar sem hafa búið 85% af ævi sinni í útlöndum viti það.

Við vitum líka að Illugi er karlmannsnafn og að á Illugastöðum á Vatnsnesi hafi Illugi væntanlega numið landsvæðið í denn og því nefnt jörðina eftir sjálfum sér. En þegar ég spurði Aldísi hvort hún vissi hvað Illugi væri, spurði hún á móti hvort það væri ekki bara enn eitt nafnið yfir skrattann? Það er nefnilega enginn Illugi í okkar fjölskyldu svo að nafnið var henni framandi. Það sama gilti um nafnið Guðni þegar Guðni Th. Jóhannesson varð forseti og við sögðum stelpunum frá því. Þær heyrðu okkur segja Guðný Th. Jóhannesson og fannst einkennilegt að karlmaður héti kvenmannsnafni. Þær eiga nefnilega frænku sem að heitir Guðný en þekkja engan sem að heitir Guðni.

Fyrir okkur sem erum vön íslenskum mannanöfnum, er í rauninni ekkert nafn skrítið þótt sjaldgjæft sé vegna þess að við erum vön hinum ýmsu samsetningum. Fyrir mér er t.d. nafnið Ásgrímur mjög venjulegt og þegar ég kynntist svo Hólmgrími var ekkert athugavert við það, vegna þess að ég þekkti Ásgrím og Hólmgeir fyrir. Því var þetta rökrétt og eðlilegt fyrir mér en ekki stelpunum.

Í okkar bæ í Danmörku er til gata sem að heitir Oehlenschlægergade og á það nafn til að vefjast um tungu margra því við fyrstu sín virðist það bara alveg út í hött. En við nánari athugun, er þetta nafnið á manninum sem að samdi danska þjóðsönginn og þá skýrist þetta allt, er það ekki?

Á meðan við dvöldum í Vatnsdal, keyrðum við um svæðið, skoðuðum fallega náttúru og fjölmörg hross og fræddumst um síðustu aftökuna árið 1830 og um vesturfarana á Vesturfarasafninu á Hofsósi. Stelpurnar sugu að sér söguna og reyndu eftir bestu getu að leggja bæjarnöfn og örnefni á minnið.

Einn daginn spurði ég Svölu hvar Embla æskuvinkona hennar væri stödd, því að ég vissi að hún væri í heimsókn á þessum slóðum. Svala svaraði að hún væri á Suður-Skrokki … það tók mig nokkrar sekúndur að átta mig á að Svala átti auðvitað við Sauðárkrók. Kannski er Sauðárkróksnafnið álíka skrítið og Fáskrúðsfjörður í eyrum þeirra sem ekki til þekkja.

Svala í Eiðaþinghánni

One Response to “Fáskrúðsfjörður, Illugi og Sauðárkrókur?

  • ásdís frænka
    5 ár ago

    þetta er frábært, eftirleiðis mun ég ávallt hugsa um Sauðárkrók, sem Suðurskrokk eða kropp… Ragnar heldur að Fáskrúðsfjörður hafi heitið Fráskrúðsfjörður… Svo saga af breskum tónlistakennara sem var hér og tók feil á Hveragerði og fyrirgefðu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *