Gufustraujárnsstöðin og aðrar komandi klikkaðar gjafir.

Afmælið mitt er á næsta leyti og þess vegna spurði ég Fúsa í dag hvort hann væri búinn að kaupa eða ákveða afmælisgjöf handa mér. „Nei ekki ennþá, en vantar þig ekki hárblásara?“ spurði hann, minnugur þess að hárblásarinn minn sprakk í höndunum á mér um daginn þegar ég var að blása á mér kústinn, en það kalla ég hárið á mér þessa dagana vegna þess að það er svo strítt og stendur mest upp í loftið. Ég var á leiðinni í partý þann 29. júní, tveimur vikum eftir aðgerðina þar sem allt hafði gengið svo ljómandi vel og var að snurfusa mig, svo bara púff – sprakk hárblásarinn og logaði í hendinni á mér. Við Fúsi vorum sammála um að ég hefði brugðist hárrétt við með því að kasta honum frá mér og kippa úr sambandi og því fór ekki fór verr en að hárblásarinn dó. Það er að segja, heppilegt að ég hafi ekki fengið alvarlegt raflost og látist samstundis svona í ljósi þess að nú væri lífið og tilveran að snúast mér í hag. Ég skrifaði um dauðann ekki alls fyrir löngu og útlistaði að ef ég hefði val myndi ég vilja deyja hægt og skipulega í staðinn fyrir skyndilega. Ef ég hefði fengið raflost, hefði ég dáið skyndilega. Það hefði mér fundist mjög sorglegt.

En nei, Fúsi var greinilega ekki kominn lengra í afmælisgjafapælingunum en þetta: „vantar þig ekki hárblásara?“ Ég kaupi mér nú bara hárblásara sjálf því að hárblásari er heimilistæki og ekki get ég hugsað mér að fá heimilistæki í afmælis- eða jólagjafir. Ég vil rómantískar og sérstakar gjafir og það sagði ég honum. Það dimmdi yfir andliti hans og frá honum kom stuna sem átti sér upptök djúpt í  kviðarholinu – „nú, hvað viltu þá?“ spurði hann frekar fýlulegur. „Æ bara eitthvað rómantískt og sérstakt, komdu mér á óvart ástin mín“ sagði ég og reyndi að vera kynþokkafull í framan. „My god“ muldraði hann, reisti sig upp frá borðinu, setti kaffibollann í uppþvottavélina og sagðist vera farinn út með hundinn. Ég kallaði á eftir honum að þetta gæti ekki verið flókið eftir rúmlega 26 ára sambúð, hann hlyti að þekkja mig.

Eftir sat ég með minn kaffibolla sem var orðinn tómur og því stóð ég upp og sótti mér meira kaffi. Mig langaði bara í örlitla lögg og drakk kaffið standandi við eldhúsbekkinn og fylgdist um leið með nágrannanum horfa á fótbolta í sjónvarpinu og vefja hárinu um fingur sér. Hann gerir það alltaf þegar hann horfir á sjónvarpið, þess vegna er hann með snarkrullað hár. En ég var ekki beinlínis með hugann við nágrannann heldur við viðbrögðunum hjá Fúsa – hvers vegna varð hann svona afundinn og rauk næstum því út? Hvað sagði ég? Skyndilega fékk ég deja-vú tilfinningu og fannst ég hafa upplifað svipað samtal áður. Og eftir að hafa brotið heilann í stutta stund, rifjuðust upp fyrir mér síðustu jól þegar ég fékk andskotans gufustraujárnsstöðina í jólagjöf frá honum. Fúsi hafði spurt mig fyrst í oktober, þ.e.a.s. með löngum fyrirvara, hvað mig langaði í í jólagjöf og ég hafði svarað að ég vildi eitthvað rómantískt og sérstakt. „Komdu mér á óvart ástin mín,“ mjálmaði ég eins og breimandi læða. Hann vandræðaðist fram að jólum, síspyrjandi hvað mig langaði í  og hvort ég gæti ekki bara sagt það nákvæmlega og ég komi alltaf með sama einfalda svarið: „eitthvað rómantískt og sérstakt. Fúsi minn, þetta er ekki flókið.”

(Pablo Picasso – Paris 1904)

Ég á straujárn sem Ásta amma gaf mér fyrir um 23 árum sem mér þykir óskapans vænt um en er  komið til ára sinna. Í fyrrasumar, þegar ég var í lyfjameðferð, þreytt og þjökuð og stóð og straujaði hverja skyrtuna á eftir annarri, hafði ég víst sagst langa í nýtt og almennilegt nýtískustraujárn. En þetta var bara augnabliks löngun og eitthvað sem ég get keypt sjálf ef að mig raunverulega vantar. Nei, mínar gjafir eiga að vera rómantískar og sérstakar og hitta í mark – stöngin inn – óverjandi gjafir. Engin heimilistæki, nei takk. Mig langar í upplifanir; miða á óperu, ballet, söngleik, leiksýningu, nú eða nærföt frá Les Jupons de Tess, eyrnalokka frá Georg Jensen, silkislæðu frá Hermès, skó frá Louboutin, rómantískar utanlandsferðir þar sem ég til dæmis og sýp ostrur úr skel og drekk kampavín á vesturströnd Frakklands við freyðandi Atlantshafið eða jafnvel í bíl, t.d. Volvo xc90 með slaufu. Það er svo ótal margt sem að mig langar í og það ætti Fúsi að vita. Ég gef það til kynna á hverjum einasta degi með líkamstjáningunni, svipbrigðum, hálfkveðnum vísum og mörgu fleiru sem auðvelt er að lesa úr og skilja. Hann ætti að þekkja mig eftir tuttugu og sex og hálfsárs sambúð. En viti menn, samt innihélt jólapakkinn um síðustu jól gufustraujárnsstöð þar sem stanslaust gufumagn er minnst 150 g/klt., gufuskotin yfir 500 g/klt., með tveggja lítra vatnstanki og tveggja metra langri snúru. Ég klikkaðist. Hann sagði að ég hefði bara getað sagt honum nákvæmlega hvað mig langaði í eða búið til óskalista. Ég SAGÐI honum hvað mig langaði í, margoft. Nú ég er viss um að það verður hárblásari í afmælispakkanum í ágúst og mögulega ný pönnukökupanna eða eitthvað álíka til að tryggja að gjöfin komi mér á óvart. Ég ætla að klikkast.

One Response to “Gufustraujárnsstöðin og aðrar komandi klikkaðar gjafir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *