Ruslatunnuþrif á góðvirðisdegi.

Veðrið leikur við okkur hérna í Danmörku, hitinn er alltaf um og yfir tuttugu stig, hvort sem það er sól eða rigning. Mér finnst það mjög passlegur hiti og þægilegur, allt verður einhvernveginn auðveldara. Stofan færist út í garð, þvottasnúrurnar svigna undan stuttbuxum, bolum og pilsum. Fólk er almennt mjög léttklætt þessa dagana og tala nú ekki um ef að planið er að vera bara heima. Í gær klæddi ég mig einungis í síða skyrtu þegar ég fór á fætur, fékk mér kaffi og fór út í garð. Á rölti mínu um garðinn fattaði ég að ruslatunnan hafði verið tæmd fyrr um morguninn og ég vissi að það var kominn tími á að þrífa hana.
Mér finnst það ekki skemmtilegt verk og mikla það yfirleitt fyrir mér en ákvað að drífa í þessu og fór út eins og ég var klædd, alsendis ófeimin enda rólegt í götunni þar sem nágrannarnir eru við vinnu á virkum degi.
Eitt það besta við fasteignina okkar er innkeyrslan, en hún er löng, breið og hellulögð. Það er hægt að leggja níu Hondum Civic í hana með lagni. Sjö meðalstórum Landkrúserum. Og vegna stærðar sinnar og víddar, er útsýnið frá götunni gott og stendur ruslatunnan mjög innarlega í innkeyrslunni. Ég fór sem sagt í það að þrífa tunnuna. Lagði hana á hliðina, vopnuð löngum kústi og vatnsslöngu og byrjaði að spúla og losa úr botninum það sem hafði fests þar. Og á meðan lét ég hugann reika, um fortíðina eða framtíðina, ég man ekki hvort. Ég á það til að vera frekar djúpt sokkin í eigin heimi þegar ég er eitthvað að sísla. Ég er þá að plana eitthvað, minnast einhvers eða bara láta mig dagdreyma. Þetta er þveröfugt við að vera í núinu og það er allt í lagi svo lengi sem engar slæmar afleiðingar hljótast af því að vera ekki til staðar í því sem maður er að gera.
Þangað til ég heyrði druninn í strætóinum sem lúsaðist upp brekkuna og fram hjá innkeyrslunni á 10km/klst. að mér fannst og ég áttaði mig á að ég stóð bogin í vinkil, með höfuðið næstum því inn í tunnunni, snúandi stórfenglegum afturhlutanum út á götu. „Hæ Strætó“ sagði brókarklæddi rassinn á mér og vinkaði um leið öllum farþegunum í strætóinum. Þeir vinkuðu á móti.
Þetta er ágætis dæmi um mögulegar afleiðingarnar þegar ég er ekki núinu heldur á öðru persónulegu tímabelti. Annars er hverfið okkar svo sem vant því að fólk brókarlallist í innkeyrslunni okkar og er ábyggilega vel minnugt þess þegar frændi minn berháttaði sig í henni eftir sóðalega erfiðisvinnu við steypuframkvæmdir í kjallaranum okkar og kallaði: „Dagný, áttu sápu?“ Ég dreif mig út með sápuna til Bóasar Eðvaldssonar sem gerði sér lítið fyrir, sápaði sig vel inn og spúlaði sig síðan á heitum sumardegi. Nágrannarnir voru allir heima, þetta var á sunnudegi og horfðu þeir á freyðandi lækinn renna út úr innkeyrslunni og niður götuna. Hann hefur alltaf verið snyrtimenni hann Bóas.
Birtist í Austurglugganum 16. ágúst 2019. 

One Response to “Ruslatunnuþrif á góðvirðisdegi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *