Lokadagurinn á Rehpa

Síðasti dagurinn og það mígringdi í dagrenningu. Ekki að rigning sé afsökun eða hindrun fyrir sjósundi en þegar fötin liggja óvarin í hrúgu á bryggjunni og það tekur 30 mínútur að labba niður á strönd og aðrar 30 mínútur upp á sjúkrahús aftur, þá er sundinu klárlega aflýst með einróma samþykki. „Jíbbííí“ gólaði ég alein uppi í rúmí því að sjósundið þessa vikuna var í rauninni bara hópþrýstingur. Ég asnaðist til að segjast vera vön strax á mánudeginum þegar ein sem býr í Hróarskeldu og hefur ekki aðgang að sjó, óð útí eins og kvíga sem kemst loks út undir bert loft að vori til. Þetta var skátinn sem ég sagði frá í síðustu færslu. Ég stóð á meðan uppi á bryggju og kallaði á eftir henni: „Kafaðu, syntu lengra út í, syntu baksund, veifaðu, hoppaðu, brostu“ og smellti af henni myndunum. Hún kallaði á móti: „Komdu útí, þetta er æði“ en ég hristi hausinn og bar fyrir mig ónýta taugaenda. Ég tók þessa mynd af henni þar sem hún hoppar í öldunum og Stórabeltisbrúin er í baksýn. Þegar ég skoðaði myndina betur seinna um daginn, langaði mig líka í svona mynd og ákvað því að láta mig hafa það að fara með þeim daginn eftir, bara fyrir eina mynd (sjá færslu síðan á miðvikudaginn.) Sem varð svo ekkert í líkingu við myndina sem ég tók af henni. Það er víst ekki alltaf sama hver heldur á myndavélinni (símanum). Og fyrst að ég lét mig hafa að fara útí þarna, þá var ekki aftur snúið.

Ég skreið uppí aftur og svaf út til korter yfir sjö. Þið ykkar sem hafið farið á ærlegt og gott skrall eða fyllerí, kannist líklega við það þegar hópurinn hittist aftur daginn eftir í þynnkuástandinu og rifjar upp og skellihlær að atburðum gærkvöldsins? Svoleiðis leið mér í morgunmatnum. Þreytan var farin að segja til sín eftir að hafa farið alltof seint að sofa í gærkvöldi og vikan var búin að vera krefjandi. En um leið og við hittumst í borðstofunni, var farið að rifja upp gærkvöldið og hlátrasköllin endurtóku sig. Dirch Passer (danskur leikari), Bob Dylan og Kim Larsen voru leiknir aftur. Og aftur. Við fengum að vita að lætin í okkur höfðu haldið vöku fyrir öllum í vestur álmunni sem völdu að taka ekki þátt í Margrethe-skálar leiknum og ætluðu að fara snemma að sofa. Úps. En það verður víst ekki aftur tekið. Þau verða bara að sofa aðeins meira um helgina.

Eftir morgunmat var komið að félagsráðgjafanum að tala um hvatningu og breytingaferli. Ég var næstum því búin að skrifa breytingaskeið en það rétt slapp. Eins og þið eflaust vitið og hafið fyrir löngu tekið eftir, þá á ég það til að beinþýða hugtök og orð sem ég er ekki sleip í á íslensku. Yfirskriftin var á dönsku; motivation og forandringsprocesser. Flest okkar ef ekki öll, þekkjum það að þegar við höfum verið á námskeiði eða einhverju álíka og erum á leiðinni heim, að við erum með gríðarleg áform um að nota það sem við lærðum eða tileinka okkur breytingarnar. En við erum varla komin inn úr dyrunum þegar allt fer í vaskinn og sama gamla farið býður okkur velkomin heim. Þarna var sem sagt verið að tala um hvernig við gætum gert heiðarlega tilraun til að halda fast í aðgerðaráætlanirnar okkar og ásetninginn. Fyrir flest okkar snérist aðgerðaráætlunin um hreyfingu og mataræði. Að missa kíló hjá þeim sem eru með fituna og að fá kíló hjá þeim sem eru með mjónuna. Að rækta líkamann á sem heilbrigðasta hátt með því að borða meira af hollu og minna af óhollu. En það voru líka margar aðrar góðar fyriráætlanir sem fengu að fara með heim í farteskinu og nú er spurning hvort þeim verður fylgt eftir. Þetta snýst allt um hugsanirnar okkar, tilfinningar, líkamann og hegðunina og hvernig þetta allt hefur áhrif á hvert annað.

Eftir hádegið var komið að kveðjustund. Hún fór þannig fram að við sátum í hring og áttum að segja hvað við höfðum fengið út úr dvölinni. Einn sagði að á þriðjudagskvöldið hefði einhver okkar sagt eitthvað sem skall eins og blaut tuska í andlitið á honum og á því augnabliki varð honum ljóst að hann yrði aldrei eins og hann var áður. Hann sagðist vera búinn að eyða ómældri orku í það í 18 mánuði, þ.e.a.s. að verða aftur eins og hann var. Nú var kominn tími til að horfa fram (í staðinn fyrir aftur) og halda áfram að lifa í þeirri mynd sem hann er í dag. Þetta fannst mér umhugsunarvert. Getur nokkur manneskja nokkurn tímann orðið eins og hún var áður? Líkamspartur getur orðið eins og hann var, en ekki það hug- og vitræna, er það nokkuð? Enginn getur orðið það sem hann/hún var í gær því að á hverjum einasta degi lærum við, upplifum og reynum eitthvað nýtt. Þetta samræmist á margan hátt snilldinni sem ég heyrði einhvern tímann en hún hljómar svona: Það er ástæða fyrir því að framrúðan í bílnum er stærri en afturrúðan.
Í vikunni féllu mörg gullkornin af vörum þátttakenda enda margir hverjir orðnir hálfgerðir sérfræðingar í að lifa hversdagsleikann af miðað við það sem dunið hefur á. Ég lærði nýtt orð sem mér finnst töff en það er energiforvaltning. Ef ég þýði það í translate verður til orðið orkustjórnun sem er ekki fjarri lagi. Hver og einn verður að stýra, hvernig þeim skammti af orku sem er til staðar, er varið hverju sinni. Ef aðrir fara að stjórnast í manns eigin orku, getur allt farið til fjandans.

Ég djókaði með það í upphafi vikunnar að ég væri að fara í lúxusdvöl á heilsuhæli og hafði í raun svo sem ekkert mjög stórar væntingar. Bjóst bara við einhverju meðal … En það leið ekki á löngu þar til ég áttaði mig að þetta var í alvörunni lúxusdvöl. Maturinn, manngæskan, aðstæðurnar, húsgögnin, lýsingin, skemmtuninn, fræðslan og samkenndin voru á einhverju öðru stigi en mennsku. Ég velti fyrir mér hvað stæði upp úr eftir vikuna og það er eiginlega ómögulegt að segja. Kannski er það óperan, kannski gullkornin, kannski starfsfókið og umhverfið í heild sinni, kannski nuddið, kannski Margrethe-skálin …

Myndin er tekin á ferjunni á leiðinni heim. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *