Vika 43 – milljarðavikan.

Vika 43 er afstaðin. Vikan sem kallast Knæk Cancer eða Leysum krabbameinskóðann (betri þýðing óskast) og heilum hellings pening er safnað til stuðnings málefninu ár hvert. Frá mánudegi til laugardags snýst sjónvarpsdagskráin á TV2 mjög mikið um krabbamein og endar vikan á hátíðarútsendingu þar sem öllu er tjaldað til.

Þetta er vikan þar sem ég er oftast spurð álits á sjónvarpsdagsránni: hvernig finnst ÞÉR að horfa á þetta? Í fyrra svaraði ég að ég vissi það ekki, tilfinningarnar voru beggja blands og það var á þriðjudeginum í viku 43 í fyrra sem ég „uppgötvaði“ hversu alvarleg greiningin mín var og ég mér dauðbrá. Við vorum að elda kvöldmatinn og ég labbaði inn í stofu þar sem kveikt var á sjónvarpinu og sá viðtal við konu í svipuðum sporum og ég er í. Þá fannst mér þessi vika frekar þrúgandi en samt var ég þakklát fyrir hana.

Í ár svaraði ég spurningunni með að ég hefði eiginlega ekki náð að horfa neitt á sjónvarpið að ráði sem var ekki viljandi heldur vegna þess að ég hafði ekki tíma, en annars bara ókei. Mér fannst það litla sem ég horfði ekki vera beint þrúgandi né óþægilegt, ég bara hef aldrei verið sú sem að horfi mikið á svona sjónvarpsefni (reynslusögur og þessháttar,) einfaldlega af því að ég nenni því ekki og það fellur ekki að smekk mínum. Samt var eitthvað af þessu litla sem að ég sá pínu pirrandi og sumt aðeins of væmið fyrir töffarann sem ég leyfi að blunda í mér. Samt sagði ég að mér finndist þetta ókei.

Ég var, eins og í fyrra, að elda á þriðjudagskvöldið og fór inn í stofu og datt inn í viðtal við konu á mínum aldri og börnin hennar þrjú sem eru ungt fólk. Börnin voru aðal atriðið í viðtalinu og töluðu um hvað það hefði verið hrikalega mikið áfall að fá að vita að mamman hefði fengið krabbamein og hvursu hræðilega erfitt það hefði verið að horfa upp á mömmu sína veika. Þau töluðu líka um hversu svakalega sterk mamman hefði verið og þar fram eftir götunum. Ég stóð þarna á stofugólfinu og kinkaði kolli, sá mitt ferli og mínar dætur svolítið fyrir mér.  Síðan þegar börnin höfðu tjáð sig um erfiðleikana og ekkert dregið undan, kemur mamman í myndavélina og segir að hún hafði verið svo heppin að hafa fengið „gott“ eitlakrabbamein sem hún læknaðist algjörlega af eftir lyfjameðferð. Hún þurfti hvorki aðgerð né geisla. Ég hugsaði: „Var það bara þetta? Kræst.“ En á örskotsstundu áttaði ég mig og minnti sjálfa mig á að hvert áfall, hvert ferli og hver upplifun er einstaklingsbundin og ómælanleg. Það eitt að heilsunni sé ógnað með þessum alræmda og algenga sjúkdómi veitir aðgangsmiða að upplifun sem getur verið svo harkaleg að manni finnst nóg um, sama um hvaða tegund er að ræða. Sjúkdómsheitið Krabbamein er sama sem sköllótt, vannærð, grá og rúmliggjandi manneskja í hugum margra en svoleiðis er raunveruleikinn ekki nærri því alltaf, sem betur fer. Þökk sé peningum sem fara í rannsóknir, þróun og umhyggju.

Á föstudagskvöldinu var viðtal við konu sem hafði fengið endaþarmskrabbamein (sú sem dansaði við Mads Vad fyrir þá sem sáu) og það birt mynd af henni í sjúkrahúsfötum, að því virtist í gönguþjálfun með göngugrind. Þá hugsaði ég: „Vó! hún hefur verið rosalega veik, ekki var ég svona veik … ég hef verið heppin …“ Ég hafði gleymt öllu um að mér var einu sinni keyrt út á baðherbergi í hjólastól! Og á milli bæja í sjúkrabíl!

Ég var nokkrum sinnum klædd úr fötunum og í þau. Ha ha ha. Reyndar er þetta ekkert fyndið og ég veit ekki afhverju ég er að hlæja. Þegar ég segi að mér finnist bara ókei að horfa á sjónvarpið í viku 43, held ég að ég sé að ljúga. Þetta litla sem ég sá af dagsránni, hrinti af stað alls konar tilfinningum hvort sem mér líkaði betur eða verr og mér líkaði misjafnlega við tilfinningarnar sem komu upp,  þó að þær settu mig ekki á hvolf andlega. Mér fannst sumt fólk vælandi á meðan ég fyllist aðdáun yfir öðrum / flestum. Vikan situr í mér svipað og kvikmyndin Jokerinn, það er alltaf eitthvað að grassera fram eftir öllu. Vika 43 var samt mest fræðandi og græðandi. Í viku 43 árið 2019 söfnuðust 2.690.945.000 íslenskar krónur inn. Í fyrra söfðnuðust 2.626.554.000 íslenskar krónur inn. Sem sagt 64.391.020 miljónum meira í ár en í fyrra. Takk öll sem gáfuð aura í síðustu viku. Til gamans má geta að hárkollustofan sem sá um hárkolluna mína, rakstrana og fleira, gaf rúmar fimm miljónir. Vá! Ég tek hverri krónu persónulega.
Frá hjartanu, takk.

 

2 Responses to “Vika 43 – milljarðavikan.

  • Margret
    4 ár ago

    Þú átt alla mína aðdáun fyrir hvað þú hefur deilt þinni reynslu í orrustunni við krabbann. Sonardóttir min var í þessari sömu barattur fyrir tveim árum og virðist hafa haft betur. Þessi fjandi virðist koma víða við. Óska þér alls hins besta. Bata knús héðan og takk fyrir pistlana þína.

  • Þú ert svo dugleg og heimurinn væri fátækari án þín. Þú ert hetja að vera uppistandandi eftir öll þessi veikindi.
    Knús á þig
    Bodda

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *