Hæ, ertu þarna?

Jebb, ég er hér.

Hvernig gekk svo fyrsti vinnudagurinn? Massaðirðu þetta ekki bara?

Öhh hvað meinarðu?

Ég meina, var þetta ekki bara iss piss pís off keik? Sko, fórstu ekki bara létt með þessar 120 mínútur?

Hmm ekki beinlínis … þó að þetta hafi bara verið tveir tímar þá er ekki þar með sagt að þeir hafi verið iss piss pís off keik.

Nú hvað var?

Bara, sumt var gott og sumt var erfitt.

Ókei, tökum hamborgarann á þetta, byrjaðu á því góða.

Ha? Hamborgarann?

Já, manstu ekki? Brauð, buff, brauð. Byrja á góðu, svo segja frá því slæma og enda á því góða. Það er mikilvægt að enda öll samtöl og slíkt á góða hlutanum.

Er þá brauð betra en buff?

Já ef það er gróft brauð.

En ef buffið er búið til úr rauðrófum og rauðlauk?

Já, þá er buffið betra en brauðið en kræst … vertu nú ekki svona ferköntuð. Það er ekkert verið að tala um hamborgara sem slíkan, þetta frásagnarform er bara kallað hamborgarinn. Segðu mér nú frá, hvað var gott?

Gott? Látum okkur nú sjá. Jú heyrðu, það var æðislegt að enginn skuli hafa hent skónum mínum sem að hafa staðið þarna síðan ég sagði upp í ágúst 2017. Elsku skónum mínum sem margoft voru kosnir fegurstu skór Gjörsins.

 

Nú lýgurðu! Samkvæmt myndinni eru þeir nú ekki neitt augnayndi. Eruð þeir rifnir eða hvað?

Já ég var að djóka, þeir unnu aldrei neina fegurðarsamkeppni, en ég varð samt mjög glöð að sjá þá og fara í þá. Þeir passa ennþá. Og nei, þeir eru ekki rifnir, ég eyddi einu sinni hálfri næturvakt í að klippa upp í þá með bitlausum hjúkkuskærum því að þeir pirruðu mig yfir ristina.

Þú ert ekki í lagi, er ekki spurning um að kaupa sér nýja skó … En hvað var svo buffið, sko þetta slæma?

Hehe að ég þarf stærri föt en fyrir 18 mánuðum síðan. Skórnir pössuðu en fötin ekki. Ég fór í gömlu stærðina mína en leit út eins og vel reyrð rúllupulsa.

Það heitir pylsa.

Nei, ég segi pulsa. Svo var svolítið slæmt að það voru tveir risastórir pakkar af Spangbergs kókósbollum á borðinu á kaffistofunni af því að það var einhver fræðsla frá fyrirtækinu sem selur Gjörinu einnota koppa, pissuflöskur, þvottaskálar og þvíumlíkt. Þessi fyrirtæki þurfa alltaf að koma með eitthvað sætt með sér sem mér fannst æðislegt í denn en núna finnst mér það asnalegt.

Já heyrðu, þú ert hætt að borða nammi?

Nei ekki hætt, bara í pásu.

Ertu líka hætt að borða sætabrauð?

Bara keypt, ekki heimabakað.

Ertu þá ekki bara alltaf bakandi?

Nei guð, ég hef engan tíma til þess …

Af hverju ertu í þessum pásum? Er nú enn einn sjálfsskipaður næringarráðgjafinn búinn að vera að grilla í þér og telja þér trú um að þú fóðrir krabbameinsfrumurnar með sykri og munir deyja fyrir aldur fram úr Prins Póló- og Bingóstangaáti?

Nei alls ekki og ég er ekki með krabbamein svo að það er ekki hægt að fóðra neinar krabbameinsfrumur. Óhófleg sykurneysla er bara óholl og nammi er óþarft. Flest er gott í hófi sjáðu til. Ég hef verið edrú sælgætis- og sætabrauðshólisti í næstum tvo mánuði. Óskaðu mér til hamingju.

Til hamingju og mikið rétt en hvað segirðu, voru kókósbollurnar það eina slæma?

Nei alls ekki. Þegar Janne, sú sem að ber ábyrgð á mér, sýndi mér nýuppgerða deildina fann ég hvað allt var fjarlægt. Þegar ég sá slagæðarblóðprufuvélina vissi ég að ég gæti ekki notað hana nema með hjálp. Hvað þá lesið úr niðurstöðunum. Mér finnst eins og ég sé að byrja upp á nýtt. En var ekki það versta, ég hef trú á að geti ég geti rifjað þetta allt saman upp með tímanum. Það versta er að ég er svo takmörkuð félagslega.

Nú, flúðirðu út um gluggann?

Nei en ég var nálægt því einu sinni. Það var þannig að mér fannst ég króast af í samræðum og mér leið eftir smá stund eins og risastór marglytta væri ofan á höfðinu á mér og umvefði mig með glærum líkama sínum. Já og steypan í lungunum fór harðnandi. Þetta var þegar ég var búin að vera 90 mínútur í vinnunni.

Jeminn eini, afhverju fórstu bara ekki?

Af því að ég var pínu króuð af en reyndar upp við glugga þannig að ég ákvað að hoppa út um hann en um leið og ég opnaði gluggann, kom smá trekkur og samstarfskonur mínar æptu upp yfir sig að það mætti ekki vera trekkur og skelltu glugganum aftur. Alltaf sami trekksöngurinn á þeim bænum …

En hvað var svo gott? Þú manst, hinn helmingurinn af hamborgarabrauðinu.

Það góða var að mig langaði alls ekki neitt í kókósbollurnar hvort sem þú trúir því eða ekki. En það besta var hversu vel var tekið á móti mér. Faðmlögin voru svo föst, löng og hlý. Ég fann hve undur vænt mér þykir um margt af starfsfólkinu þarna.

Fórstu svo bara heim klukkan tíu? Var þetta passlegur tími eða hefðirðu getað verið lengur?

Vá þú spyrð svo mikið, ég næ varla andanum. Nei ég fór heim 10:10 og þarf einmitt að hafa samband við atvinnuleysingjaskrifstofuna hjá bænum og fara fram á yfirvinnukaup ofan á sjúkradagpeningana mína. Og nei, ég hefði ekki getað verið mínútu lengur. Mér leið eins og þúsund býflugur væru suðandi inni í höfðinu á mér þegar ég gekk út.

Já sæll … eins gott að þú ert ekki hrædd við býflugur. Hvað gerðirðu svo þegar þú komst heim?

Ég fékk mér rúgbrauð með rauðrófuhummus, avókadó, hleyptu eggi, tómötum og góðri olíu. Síðan setti ég Elsu Dreisig á fóninn og fór upp í rúm að sofa. Þegar ég vaknaði klukkutíma seinna, fékk ég mér kaffibolla og fór svo með Vask út í skóg til að skoða haustlitina. Viltu vita meira?

Nei hættu, svörin þín eru of ítarleg! En rosalega borðarðu skrítinn mat. Rauðrófubuff, rauðrófuhummus … ertu rauðrófusjúk?

Nei ekki sjúk, en finnst þær samt mjög góðar og núna er rótargrænmetistíminn. Er ekki rökrétt að borða það sem árstíðirnar bjóða upp á?

Jú mikið rétt. Áttu uppskriftir af þessu rauðrófugumsi þínu?

Já læt þig hafa þær á eftir. Reyndar kaupi ég nú hummusinn bara tilbúinn en það er lítið mál að gera svona skilst mér.

Hvað ætlarðu svo að gera á morgun, bara slappa af og vera kúl (chilla)?

Já það og að þjálfa byssurnar í bæjarfélagsræktinni.

Hvenær ferðu svo aftur á Gjörið?

Á föstudaginn, þá verður morgunverðarborð í boði Gjörsins til að bjóða mig formlega velkomna. Ég sit þá líklega í tvo tíma og drekk kaffi.

Hlakkar þér/þig/þú til?

Þér og já, mér hlakkar til að mæta í vinnuna á föstudaginn.


Uppskrift af rauðrófubuffi en uppskriftin er miðuð við að þetta sé Parísarbuff en við notuðum buffið í hamborgara og fannst það einna besta buffið sem að við höfum gert.

RAUÐRÓFUBUFF

300g grófrifnar rauðrófur.
25g hafragrjón (fínvölsuð)
2msk hveiti
1/2 rauðlaukur (fínt hakkaður)
2 egg (hægt að nota annað í staðinn ef að buffin eiga að vera vegan)
2 msk kapers
1 tsk dijon sinnep
salt og pipar

Pressið safann úr rauðrófunum og blandið öllu saman. Búið til buff og steikið á pönnu.


RAUÐRÓFUHUMMUS

200g rauðrófur
1 dós kjúklingabaunir
1 msk sítrónusafi
2 feitir hvítlaukar
1/2 tsk oddhvasst kúmen
4 msk ólífuolía
1 msk vatn
salt.

Aðferðin er á bak við linkinn sem er á bak við nafnið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *