Fjórar ferlegar staðreyndir um Fúsa – dagsannar.

Enn fúll út í Stuðmenn.

Fúsa finnst Stuðmenn ekki skemmtileg hljómsveit. Hann grettir sig þegar ég dásama þá. Hvers vegna? Jú, vegna þess að árið 1984 voru þeir að spila í Atlavík, Fúsi var 17 ára og vel í því og var staddur baksviðs á vegum trommuleikarans í Grýlunum. Þá komu Stuðmenn og vildu henda Fúsa út en hann var ekki alveg á þeim buxunum enda hver hefði verið það í þessum áðstæðum. Einhver ósættu urðu á milli Grýlanna og Stuðmanna út af Fúsa og varð endirinn sá að Fúsi fékk að vera. Hann varð samt fúll út í Stuðmenn og er það ennþá. Fúsi er langrækinn.

Reglur eru til að brjóta þær.

Fúsi stundar bæjarræktina þessa dagana (endurhæfing út af hnénu) og er hann í hnjáhópnum. Sjúkraþjálfarnir þarna eru uppátækjasamir og finna upp á allskonar leikjum sem krefjast hreyfingar. Ég veit það því að ég hef líka verið í bæjarræktinni. Ég elska svona leiki. Um daginn vorum við í krabbameinshópnum, í floorball og mér tókst því miður að tækla einn prostatagaurinn sem er ansi nálægt áttræðisaldri, svo illa að hann brákaði þrjú rifbein og gat ekki mætt restina af tímabilinu. Það var kannski ekki alveg nógu gott. En aftur að Fúsa. Honum finnast svona leikir ekki skemmtilegir. Hann vill bara æfa í friði og ljúka því af. Um daginn setti sjúkraþjálfarinn í hnjáhópnum 52 spil á hvolf á mitt gólfið og skipti hópnum í tvö lið. Liðin áttu síðan að velja sér spil og valdi liðið hans Fúsa tígul og hin völdu spaða. Leikurinn gekk svo út á það að skiptast á að sækja spil og vera fyrst til að finna öll þrettán spilin í völdnum lit. Fúsi byrjaði, fann lauf og í staðinn fyrir að leggja það niður aftur og hlaupa til baka, tók hann það með, sem hann átti alls ekki að gera. Hin spurðu hvað hann væri að gera? Ég breytti bara í lauf, svaraði hann. Honum er ómögulegt að fara eftir reglum.

Uppskriftirnar hennar Sólrúnar Diego eru ónothæfar.

En uppskriftum getur hann auðveldlega farið eftir. Ef að þær eru hárnákvæmar upp á millilítra og 1/8 teskeið.  Um daginn ákvað ég að hafa indverska borgara í matinn a la Sólrún Diego, því að ég átti svo margt í þá uppskrift og leyst vel á hana. En Sólrún gaf ekki upp hlutföll í uppskriftinni heldur bara innihaldið og ég spáði lítið í það, enda sleppti ég því sem ég átti ekki og bætti öðru við. Hlutföllin áttu bara að vera sittlítið af flestu og hellingur af einhverju. Þegar Fúsi opnaði linkinn og ætlaði að fara að gera grænmetisbuffið, féllust honum hendur og varð hann eins og liðið lík í framan. Engin hlutföll? Hvað var Sólrún að spá? Fúsi lagði á borðið þetta kvöldið og ég sá um buffið sem var mjög gott.

 

Sjúkraþjálfinn segir bara bla bla bla … eins og konan mín.

Nokkru seinna, þegar hann var í bæjarræktinni, var hópnum aftur skipt upp í tvö lið. Þrjú og þrjú í hverju liði og sex ketilbjöllur settar í miðjuna. Síðan áttu þau að fara á framstigi (svipað og silly walk í Monty Python), sækja ketilbjöllu, fara með hana yfir til mótherjanna, skilja hana eftir þar og fara tómhent á framstigi til baka. Leikurinn gekk út á að reyna hafa sem flestar ketilbjöllur á helmingi mótherjanna. Og já, þetta var keppni. Nema hvað, Fúsi hlustar greinilega álíka mikið á sjúkraþjálfann og mig, því að hann æddi á framstiginu fram, greip ketilbjöllu og æddi síðan með sömu ketilbjölluna fram og til baka og náði um 10 ferðum áður en hann var stoppaður og liðið hans var búið að skíttapa: hvað ertu að gera maður? Ég náði þessari bjöllu fyrst, svaraði Fúsi mjög svo staðfastur.

Ykkar einlæg, Dagný.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *