Skyldi einhver fá frá mér jólagjöf fyrir jól í ár?

Alltaf er það sama sagan með mig – sagan endalausa. Ég barmaði mér ógurlega á Instagramminu í gær yfir því að vera varla byrjuð að versla jólagjafirnar fyrir þessi jól. Eins og öll hin jólin í lífinu mínu og ég er orðin 44 ára gömul. Fyrir hver einustu jól í hátt á annan áratug, þegar allt hefur verið komið í óefni á aðventunni, hef ég sagt orðrétt við sjálfa mig og alla sem á mig hafa nennt að hlusta: „Á næsta ári ætla ég að vera búin að ÖLLU fyrir 1. des svo að ég geti bara slakað á á aðventunni.“ ALDREI hefur mér tekið það. Og sjaldnast hef ég verið byrjuð á einhverju jólatengdu fyrir 1. desember. Samt þarf ég að senda gjafir á milli landa og alla leið lengst út í sveit!

Í dag, um hádegið,  fórum við niður á strönd með Vask, veðrið var frábært og vindurinn hressandi. Við vorum einu manneskjurnar á ströndinni. Í Sönderborg búa 33 þús. manns. og 76 þús. í sveitafélaginu sem þýðir að 0,0026% íbúa voru á ströndinni. Hvar voru allir hinir í þessu góða veðri? Jú, auðvitað niður í miðbæ að græja jólin. Nákvæmlega þar sem ég átti líka að vera, en í staðinn fer ég niður á strönd ár eftir ár og „gleymi“ því sem þarf að gera. Ég á endalausar afsakanir í pokahorninu. Í allan oktober segist ég ekki vera í jólastuði og loka tímabundið á alla þá sem spila jólalög á samfélagsmiðlunum. Það sama er uppi á teningnum í nóvember. Þegar desember rennur í garð, er veðrið alltaf óhemjufallegt og gott og ég bara VERÐ að fara inn í skóg, niður á strönd eða út á tún.

Göngugatan og miðbærinn í Sönderborg skartar sínu fegursta þessa dagana og þar er alltaf eitthvað um að vera. Ég veit það, því að ég fer þangað oft. Kem við á leiðinni heim úr vinnunni, kíki á kaffihús, á eitthvað ákveðið erindi og svo fram eftir götunum. Og ekki hvarflar að mér að huga að jólagjöfum þó að ég sé alveg í jólaskapi og njóti stemmingarinnar og skreytinganna. Það er eins og það sé lokað fyrir jólagjafasvæðið í heilanum. Eins og að ég hefi fengið örlítinn blóðtappa í akkúrat þar og svæðið bara steindrepist. Eða að tímaskynið hjá mér sé snarbrenglað og að ég haldi að desember sé 90 daga langur.

Kannski ætti ég að fara í bæinn á morgun, ef að veðrið verður svo slæmt að það verður varla hundi út sigandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *