Á að gefa öndum brauð?

Eitt það sætasta sem ég sé er þegar Vaskur, hundurinn okkar, fær gulrót. Hann leggst niður, kemur henni vel fyrir á milli framloppanna og tekur einn bita í einu. Hann tyggur vel og lengi með galopinn munninn. Vaskur er orðinn 7 ára og ég fæ ekki leið á að fylgjast með honum borða gulrætur. Það er líka yndislegt að horfa á hesta kroppa gras, já og kindur líka. Það er eitthvað svo róandi. Það er einfaldlega gaman og gott að horfa á dýr borða. Það sýnir sig vel þegar ferðamenn stoppa við hestagirðingar á þjóðvegi eitt til að gauka einhverju að útigangshrossunum. Við mikinn fögnuð gefanda og þiggjanda en ekki eigandanna.

Myndin er tekin við miðbæjartjörnina í Sönderborg. Mínútu áður en ég tók myndina, var mávager í kringum konuna þar sem bæði mávar og endur slógumst um brauðið. Á myndinni er brauðið búið en öndunum langar í meira. 

Það sama á við um andatjarnir inni í bæum og borgum. Ungir sem aldnir fara þangað með brauð til að gefa öndunum allan ársins hring. Við mikinn fögnuð gefanda og þiggjanda. Eða hvað … Getur verið að þetta sé bara gefandanum í vil? Er það raunverulega gott fyrir endur að vera fóðraðar með brauði? Svarið samkvæmt dönsku náttúrustofnuninni (Naturstyrelsen) er nei. Að fóðra endur á tjörnum hefur mjög margar neikvæðar afleiðingar í för með sér og nánast engar jákvæðar, nema þá ánægju gefendans.

En hvaða áhrif hefur það á vistkerfið í tjörnum að fóðra endur með brauði:

  • Félagsleg uppbygging á samfélagi andanna raskast:
    Brauðfóðrun dregur til sín fleiri og fleiri endur. Og máva. Þetta verður til þess að náttúrulega umhverfið ræður ekki við þennan fjölda og það er öndum ekki eðlislegt að vera svona margar saman á litlum bletti. Þetta verður til þess að þær verða undir miklu álagi, verða árásargjarnar gagnvart hvor annarri og geta tekið upp á því að eyðileggja hreiðrin og egg hvor annarrar. Mávarnir vilja líka brauð og berjast grimmdarlega um hvern bita. Þeir sitja líka fyrir eggjum og ungum andanna eins og hrægammar.
  • Of margar endur:
    Það er hægt að troða upp undir 100 gárum (litlum búrfuglum) í búr sem er hannað fyrir tvo fugla. Þeir komast fyrir en líður ekki vel. Svipað er með litla tjörn. Úti í náttúrunni notar hvert andarpar á milli 100-200 m vatnaflæmi. Á tjörnum inni í bæum, er alltof lítill gróður og smádýr fyrir allan fjöldann, svo að aðalfæðan verður brauð og því búa bæjarendur oft við ákveðinn næringarskort.
  • Gróðurdauði og súrefnisskortur:
    Brauð inniheldur allskonar efni sem fara í gegnum meltingarveg andarinnar og þegar þær hafa hægðir, enda hægðirnar ofan í tjörninni. Þessi efni virka eins og áburður á þörungana sem vaxa og valda því að gróðurinn í botninum fær ekki nægilega birtu og deyr. Það krefst einnig súrefnis úr vatninu að brjóta niður hægðir andarinnar og brauðrestar. Þess vegna getur mikil andafóðrun leitt til súrefnisskorts í tjörnum sem síðan leiðir til þess að nauðsynlegar lífverur deyja úr súrefnisskorti. Tjörnin nánast deyr.
  • Óhollusta:
    Ofneysla á brauði er ekki góð fyrir endur, þær verða feitar, latar og líður illa. Rétt eins og við mannfólkið ef að við borðum of mikið af mat sem hentar ekki mannslíkamanum. Það sem hentar öndum best er vatnagróður og smádýr. Þegar endurnar venjast því að fá allt upp í gogginn, hætta þær að nenna að hafa fyrir fæðunni sjálfar. Rétt eins og við mannfólkið.
  • Hverjum gerum við raunverulegan greiða þegar við fóðrum endurnar á tjörnunum?
    Svarið er rottunum. Þær sækja í matarafganga á víðavangi.

Við förum mikið í skóginn og þar eru tjarnir, en það er stór munur á fjölda anda á þeim tjörnum og tjörnunum inni í bæ. Þær eru örfáar á hverri tjörn í skóginum og koma aldrei að bakkanum til að biðja um brauð, því að þær vita líklega ekki hvað það er. Á tjörnunum í skóginum sjást aldrei mávar. Sem er umhugsunarvert. En samt ekki, mávar eiga heima við sjóinn.

Þessi mynd er tekin í maí 2018. Á þessari tjörn sem heitir Staals Mose búa örfá andarpör. 

Ungur nemur, gamall temur.
Að virða fyrir sér hegðun andanna á tjörninni, hvernig þær synda, hversu lengi þær geta kafað, hvernig þær haga sér hvor við aðra, getur verið jafn skemmtilegt og enn gagnlegra en að henda til þeirra brauði sem þær slást um og veldur þeim einungis vanlíðan. Þær fá ekki að dafna ef að við offóðrum þær. Við drepum niður eðli þeirra. Það er eins með dýrin og okkur; við höldum virðingunni og verðum ánægðari ef að við fáum að læra og hafa aðeins fyrir hlutunum. Þannig byggjast upp góð samfélög. Við sjáum hvernig fer fyrir samfélögum þar sem heilar þjóðir eru settar í eins adidasgalla og attar til að nærast á frosnum pizzum. Það brestur eitthvað inni í fólki. Það sama gerist á andarpollinum þegar endurnar fá of mikið brauð.

Ef að þörfin til að fóðra endur á tjörnunum er mjög sterk, þá mælir danska náttúrustofnunin með að:  

  • gefa aðeins eina til tvær brauðsneiðar í hverri ferð. 
  • rífa brauðið í litla bita.
  • fóðra á þurru landi. 
  • ekki að henda brauðinu í tjörnina. 
  • ekki tæma úr pokanum í tjörnina. 

Góða skemmtun í næsta göngutúr meðfram eða hringinn í kringum tjörnina.

Með ósk um góðan dag.

 

Heimildir:  

https://naturstyrelsen.dk/naturoplevelser/naturguider/esrum-soe/andefodring/

https://videnskab.dk/naturvidenskab/kan-det-virkelig-passe-at-aender-ikke-kan-taale-broed

 

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *