Hrósaðu þér.
Birtist sem lokaorð í Austurglugganum í nóvember 2020.
Á sjúkrahúsdeildinni sem að ég vinn á erum við með mikið af hjúkrunarfræðinemum og einn þeirra var á dögunum í minni fylgd. Í lok vaktarinnar bað ég hann um að nefna þrjú atriði sem hann hafði gert vel yfir daginn. Neminn stundi upp með spurn í augum: „þrjú atriði?“ „Já“, svaraði ég.
„Ég get það ekki, ég veit ekkert hvað ég á að segja“ sagði neminn og bætti við: „það er mikið auðveldara að finna eitthvað sem mistókst, eigum við ekki frekar að tala um það svo að ég geti bætt mig?“ „Nei“ svaraði ég, „ég vil bara heyra hvað þú gerðir vel“. Það tók nemann um 15 mínútur að finna þrjú atriði sem að hann hafði gert vel og þá loksins fékk hann frí.
Þetta tók á. Honum fannst það vandræðalegt og óþægilegt að þurfa að hrósa sjálfum sér þrátt fyrir að eiga það fyllilega skilið. En þegar hann loksins gerði það, brosti hann hringinn og nánast valhoppaði útaf deildinni.
En hvers vegna eigum við svona erfitt með að hrósa okkur sjálfum þegar hæfileikar okkar eru bara ískaldar staðreyndir.
Það virðist svo mikið auðveldara og liggja beinast við að rífa okkur niður. Gott dæmi er þegar fólk heldur matarboð og er búið að standa sveitt í eldhúsinu í marga klukkutíma og þegar sest er að borðinu fara gestirnir að dásama matinn. Þá heyrist oftar en ekki í gestgjöfunum: „Já er þetta lítilræði alveg ætt? Ég gleymdi nefnilega að pipra þetta og eldaði hitt of lengi og svo átti ég ekki nóg chili og setti alltof mikið af myntu, ég er eiginlega alveg vonlaus í eldhúsinu“. Í staðinn fyrir að þakka bara fyrir hrósið og njóta samverunnar og matarins.
Sumir spá ekkert í þessu. Lifa bara í stóískri ró eins og gömlu Grikkirnir gerðu og hvorki hrósa né rífa sig niður. Láta hverjum degi nægja sína þjáningu og taka bara hlutunum eins og þeir koma. Það er fátt sem hreyfir við þeim að ráði.
En svoleiðis eru ekki allir.
Nútíma samfélagið og atvinnulífið gerir kröfur um að við séum tilbúin í breytingar, meira nám og nýsköpun hvenær sem er. Að við séum hreyfanleg, hugmyndarík og getum aðlagast á eldingarhraða. Gæðastuðullinn á að vera hátt uppi á allan hátt og við eigum að þrá að fá að þroskast persónulega og faglega.
Þetta eru hugtökin sem við skreytum atvinnuumsóknirnar okkar með, hvort sem við innst inni viljum það eða ekki. Þetta eru bara kröfurnar í dag og til að geta uppfyllt þessar kröfur þurfum við stundum að vera meira en mannleg. Þá er svo auðvelt að mistakast og þar af leiðandi að rífa sig niður frekar en að byggja sig upp. Gerum sjálfum okkur greiða og steypum góðan grunn undir okkur, byggjum okkur upp, við erum okkar eigin gæfusmiðir.
Hvað ert þú annars búin að gera vel það sem af er deginum?
P.s. Ég er mjög góð í að útbúa nesti til að taka með í vinnuna. Þetta er mitt eigið ískalda mat og því verður seint hnikað.