nýja jobbið mitt

Kæru vinir

Gleðilegan janúar og gleðilegt og gæfuríkt 2011.

Ég strengdi ekkert áramótaheit í ár, líklega vegna þess að ég hef alltaf klúðrað þessum fáum áramótaheitum sem ég hef strengt. Og líklega hef ég klúðrað þeim vegna þess að ég hef ekki getað munað þau að kvöldi 1. jan. Enda eru áramótaheit bara sjálfsblekkingarloforð til að telja sjálfum manni í trú um að maður geti e-ð í örfáa daga. Því þessi heit endast sjaldnar lengur en út aðra viku ársins.

Þessvegna er þetta ekki ég. Ég er samt búin að ná af mér öndinni og hangikjötinu, svínahamborgarhryggnum og nautalundinni, ásamt öllum sykursæta bakstrinum og sælgætinu. Í fyrsta fitnesstímanum fór öndin og rollan, í seinni tímanum fór svínið og nautið. Og í dag hjólaði ég tvisvar upp á sjúkrahús og gekk upp og niður göngugötuna og plöff… baksturinn og sælgætið horfið. Nú þarf ég ekkert að mæta í fitness aftur fyrr en eftir páska 🙂 Og þetta tókst mér án áramótaheits!

Á 8. degi ársins tók ég samt ákvörðum sem á líklega eftir að marka tímamót og miklar breytingar í lífi mínu. Eftir að hafa upplifað að detta í þriðja skiptið í hálkunni (1. skipti rétt fyrir jól á hjólinu á miðri umferðargötu, 2. skiptið 7. jan, niður útitröppurnar heima hjá mér og 3. skiptið þann 8. jan, á hjólinu á miðri Linde Allé) fékk ég hugljómun. Ég ætla að skipta um starf. Leggja umhyggjusömu hjúkkuna á hilluna og sækja um sem STUNTWOMAN.

Og það ætla ég að gera vegna þess að þegar ég dett, dett ég ótrúlega flott. Ég kastast uppávið, snýst í loftinu (hef það allavega á tilfinngunni), dett svo og rúlla eftir jörðinni alveg  þangað til ég ligg kjurr á bakinu,  gjörsamlega hreyfingarlaus! Hjólið liggur langt til vinstri og veskjan mín langt á ská fyrir aftan. Karfan af hjólinu hefur oftast legið í hvarfi og hef ég þurft að leita að henni.

Fólki sem sér mig, dettur ekki í  hug að hringja í 112. Það segir bara: „hún er dauð“, „já, steindauð“.

En ég er ekkert dauð, heldur frísk eins og fiskur í góðri tjörn. Ég stend rólega upp, engin útvortis blæðing og meiði mig aðeins á scala frá 0-10, ca 4. En læt engan sjá það, haltra ekki einu sinni. Eina vesenið við þetta er að ég er síþvoandi fötin mín því þetta er skítajob. Hlakka til að fá launaseðilinn, því ég reikna með að hann verði svo feitur að ég þurfi ekki sjálf að þvo fötin mín.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *