Sunnudagur í sófa… Langt síðan ég hef átt sófasunnudag, þar sem maður liggur klístraður oní púðanum, horfir á ótrúlega ómerkilega sjónvarpsþætti og safnir í sig kjarki og þori í ca 2 tíma til að standa upp og sækja 1g paracetamol. Og þegar þær eru gleyptar er næsta plan lagt. Notaður næstum einn kl.t. í að safna kjarki og þori til að spyrja elsta barnið hvort það nenni ekki að hlaupa upp á sjúkrahús og sækja zofran eða e-ð ógleðisstillandi. En þegar klukkutíminn er liðin er ógleðin farin og skynsemin tekin yfir og maður sér að það er ekkert vit í að senda barnið sitt upp á sjúkrahús eftir einhverjum „óþarfa“ pillum, bara afþví að maður missti sig í 80´s dramadansi á heitasta öldurhúsi bæjarins kvöldið áður. Nei, það hefur ekki verið sófasunnudagur síðan fyrir jól.

Nú væri geggjað að geta farið í sund á Aglastöðum, liggja í kaldari pottinum ásamt eldri mönnum með hár á bringunni og gefa öllum þeim sem kveikja á nuddinu, íllt auga. Alveg ótrúlegt hversu mikil heimþrá í sundlaugarnar getur helst yfir mann inn á milli.

Nú er alveg að koma vor og einhvernvegin hef ég á tilfinningunni að þetta vor verði ekkert ólíkt vorinu 2008. Allavega eru neglurnar vel nagaður upp í kviku nú þegar og þetta á bara eftir að versna. Alltof margar bls sem þarf að lesa, alltof mikið sem þarf að læra og muna uppúr þessum bls, ferming sem þarf að undirbúa, útlegð í 6 vikur í viðbót og ótrúlega mikið af félagslegum viðburðum sem verið er að skipuleggja helgi eftir helgi eftir helgi. Ég ætti kannski að biðja Aldísi um að hlaupa uppá sjúkrahús og sækja góðan kokteil af róandi og örvandi. Allavega get ég ekki beðið Svölu þar sem hún er flutt að heiman og á „kollektiv“, þar sem ekkert internet er, ekkert Paradise Hotel og bænir kvölds og morgna. Bið til guðs um að hún komi heim fyrir fermingu!

Eigiði góðan restsunnudag, ég ætla að halla mér og horfa á svenskan Simpsons 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *