ég ætla að flytja til Þýskalands og búa þar í 2 mánuði <3 hjarta <3

Þetta er vika brjóstanna! Og þessa vikuna er ég óvenjulega groggy. Það hefur ekkert með brjóstin mín eða brjóstin ykkar að gera. Vika 46 er groggy vika! T.d. á þriðjudaginn ha… kom heim úr vinnunni kl 17.30, borðaði, sofnaði og svaf yfir mig og mætti of seint á starfsmannafund sem byrjaði kl 19. Lét ekki þar við sitja heldur var þveröfug og mótmælti nánast öllu sem sagt var og þegar ég þagði sat ég í fýlu því það gleymdist 2svar að senda nammidallinn til öftustu raðarinnar. Daginn eftir var ég spurð: „hey, hvernig fannst þér fundurinn í gær?“

Nei… ég er nú bara að gantast í ykkur, vika 46 er alveg fín. Nema þessi færsla… hún er svoldið groggy… eintómt tuð!

Í dag móttók ég 6. fb-mailið á fáum dögum sem snýst um brjóstakrabbamein. Annað hvort á ég að skrifa á statusinn minn að ég  flytji til Þýskalands og búi þar í 2 mánuði, því ég á afmæli 2. ágúst og þýskaland er ágúst (?!?!!!!?!?). Og ég má alls ekki segja neinum hvað þetta þýðir! Eða ég á að setja hjarta <3 á vegginn hjá öllum þeim sem senda mér þetta mail. Held ég allavega. Ef ég fæ hjörtu á minn vegg, má ég allsekki ekki ekki segja neinum afhverju. Mörg leyndarmál sem ég hef með mér í farteskinu dagsdaglega!

Og tilgangurinn með þessum djúpu aðgerðum er að minna mig á brjóst og brjóstakrabbamein.

Svona hljómar hluti af skilaboðunum: „Þetta er bara fyrir konur til að muna að þetta er vikan til að muna eftir brjóstakrabbameini og láta það hafa áhrif á okkur. Við eigum alltaf að muna að hugsa um brjóstakrabbamein og láta það skipta okkur máli.“

Ég fékk Þýskalandsmailið í þarsíðustu viku… er brjóstakrabbameinavika í hverri viku? Ég er algjör fb-fíkill og ef ég sé svo alla þessa hjartarstatusa, þá hugsa ég ekki um annað en brjóst! Brjóst, brjóst, brjóst og aftur brjóst… það eina sem ég hugsa um er brjóóóst!

Segjum sem svo að ég sé á næturvakt. Sjúklingurinn er vel svæfður, engar vélar pípa og allt er í ró. Ég kíkji á facebook og sé að fb-vinkona mín er að flytja til Mexiko í 17 mánuði og það eina sem dettur í hug er brjóstakrabbamein. Ég panika að sjálfsögðu, ríf mig úr að ofan og fer að þukla. Og sé alltíeinu að Poul, gamli læknirinn stendur í hurðinni og horfir á mig… Kræst!

Svipað dæmi eru karlmennirnir sem láta sér vaxa skegg og það opinberlega. Það er til að minna á prostatakrabba. Eiga þá allir og Guð að stinga puttanum upp í rassinn á þeim til að tjekka?

Ég þarf hvorki flutninga, -tösku né hjartastatusa til að vera meðvituð um brjóstakrabbamein. Ég hef aldrei lent í því að „gleyma“ brjóstunum mínum einhversstaðar. Ég hef aldrei gleymt að láta brjóstakrabbamein skipta mig máli. Það úir og grúir af c. mammae og ég þarf ekki hjarta <3 á vegginn minn til að minna mig á að fara til læknis ef ég finn hnút.

Bæði konur og karlar ættu að vera með það mikla sjálfsábyrgð að ef það finnst hnútur eða það er pissuvandamál, að fara til læknis. Ég á erfitt með að ímynda mér að karl með pissuvandamál fari frekar til læknis ef hann sér vel skeggjaðan mann í marsmánuði.

Og allt þetta leynimakk skil ég heldur ekki, því eiginmenn og kærastar finna ekki síður hnútana en við sjálfar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *