bakhnerrinn!

Nýtt ár, ótrúlegt en satt. Gamla góða árið velyfirstaðið og margs að minnast. Svala fermdist, ég var í æðislegum skóla í Fredericia, Aldís byrjaði í menntaskóla, ég fór í góða vinnuferð til Noregs og í frábæra 6 vikna dvöl í Esbjerg, við mæðgur fórum til Íslands í sumar, og öll fjölskyldan fór í jólaferð til Íslands í desember, ásamt hinum og þessum helgarferðum innanlands. Það markverðasta sem Fúsi gerði á árinu var að byrja að hlaupa, haltra, hlaupa, haltra, spila squash, haltra, squash, slysó, squash, slysó og haltra.

Árið endaði líka vel, eyddum síðasta kvöldi ársins hjá grönnunum í góðum mat, víni og spilum.  En nýja árið byrjaði síður vel, vesalings yngsti fjölskyldumeðlimurinn var rifin á fætur upp úr hádegi á nýárssdag og sendur upp á gjörgæslu til að sækja lækningu við „bakhnerra“ sem húsmóðirin (ég) þjáist af. Bakhnerri er fyrirbæri sem gerist þegar maður er hálfur inn í næstneðstu hillunni í fataskápnum í fáránlegri stellingu og hnerrar og bakið bara fer! Sævar Pálsson, hestamaður, segir að þetta heiti bakhnerri. En vesalings yngsti fjölskyldumeðlimurinn sem var rifin upp fyrir allar aldir kom heim með ágætis kokteil handa mér sem átti að laga bilunina.

Ekkert hefur læknast, og lifrin, nýrun og maginn fara bráðum að gefa sig. Þessvegna var ákveðið að heimsækja lækni í gær sem sendi beiðni til sjúkraþjálfara. Sjúkraþjálfarar bæjarins voru allir af vilja gerðir til að koma mér í vinnu aftur og fékk ég tíma í dag. Ég er nú ekkert vön að fara til svona fólks, hef bara einu sinni farið áður og það var á fyrstu dögum ársins 2005. Þá var ég hjá karlmanni og líkaði mér bara vel.

Í dag var ég hjá stelpu sem er yngri en ég. HÚN LAGÐIST OFAN ‘A MIG Á ÞRJÁ VEGU!!! Er það alveg eðlilegt??? Síðan snertu tærnar mínar brjóstin á henni! Er það líka eðlilegt? Og svo tape´aði hún mig fasta og sagði mér að koma til SÍN aftur á fimmtudaginn… Ef ég hefði fengið tíma hjá fallega Frank, hefði hann þá gert það sama? Ég vil bara segja að ef þetta á að vera svona kynferðislegt, þá vil ég heldur hafa mótstætt kyn oná mér á þrjá vegu!

Gleðilegt ár 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *