Samviskubitið

Fúsi keypti 3 nýja fataskápa í gestaherbergið um daginn.

Þeir kostuðu i allt 250 kr.

Hann ætlaði að henda gömlu skápunum þremur en nennti ekki með þá á ruslahaugana og auglýsti þá á Gul og Gratis á 300 kr í allt.

Þeir voru búnir að vera þar inni í nokkra kl.t. þegar  maður hringir og vill endilega kíkja og líklega kaupa. Fúsi var búin að undirbúa sig andlega í prútt og var tilbúin til að fara langt niður, bara ef við þyrftum ekki sjálf að fara með þá á haugana…

Síðan kom hérna fyrir kl.t. síðan, gömul kona með syni sínum (sem hafði hringt) og kíkti. Henni leist svona frábærlega vel á skápana og sagði: „loksins fæ ég skápa í herbergið mitt“ og gekkst að kaupunum. Hún prúttaði ekki einu sinni. Gleðin og þakklætið geislaði af henni og í burtu keyrðu þau með skápana. Fúsi stóð eftir með 300 kr í höndunum, búin að græða 50 kr á að hafa keypt nýja skápa og ásamt svona svakalegu samviskubiti.

Í kl.t. hefur hann setið í sófanum og sagt:

„hún var svo glöð…“

þögn (2 mín)

„hún sagði að nú hefði hún loksins fengið skápa í herbergið sitt“

Ég: „já, hún hefur verið svakalega fátæk…“

Fúsi: „já….“…

…“ég hefði átt að gefa henni skápana…“

Ég: „afhverju, var e-ð að þeim?“

Fúsi: „nei, ekki beint, en hún var líka frekar gömul…“…

…“ég ætlaði hvort eðer að henda þeim“

dæs og löng þögn… (8 mín)

„æ nú líður mér ílla“

„Dagný, hugsaðu þér… hún hefur kannski aldrei átt skápa“

„ohh ég hefði átt að gefa henni þá“

dæs…

„hvernig gat ég tekið við 300 kalli?“

dæs og aftur löng þögn (ca 15 mín)

„ég hefði átt að gefa henni þá…“

Ég: „hún var glöð…“

dæs

Fúsi: „hún hefði orðið glaðari en ég hefði sagt: „þú mátt bara eiga þá vinan““

Ég: „kommon, þá hefði hún bara farið að gráta og hvað hefðirðu þá gert?“

Fúsi: „já, ég veit það ekki“

löng þögn enn einu sinni (passar mér fínt þar sem ég er ekki í stuði til að tala)

dæs…

Fúsi: „hún hefði ekkert grátið hérna hjá mér… mér líður ógeðslega ílla útaf þessu“…

…“hún virkaði allsekkert rík“

þögn (ca 3 mín)

„þetta voru ekkert góðir skápar“

þögn (ca 5 mín)

„ég er með svo mikið samviskubit“

þögn (17 mín)

„ég er farin til Johns“

„ætlarðu nokkuð að blogga um þetta?“ (sá greinilega e-ð í svipnum á mér)

Ég: „nei elskan, dytti það ekki í hug“

Fúsi: „gott, því mér líður mjög ílla útaf þessu“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *