Miðvikudagssniglar

Ég kom við í bakaríinu í morgun um leið og ég skutlaði einhverjum heimilismeðlimi. Vissi ekki hvað ég ætlaði að kaupa, bara að ég ætlaði að kaupa e-ð þar sem 2 1/2 heimilismeðlimur er veikur í dag. Og 2 eru sérstaklega veikir… alveg fár!

En ég fór inn í bakaríið og valdi vitlaust brauð en orkaði ekki að fá því skift. Síðan langaði mig í e-ð sætt. Á miðvikudögum eru alltaf miðvikudagssniglar á tilboði. Ég er nú ekkert hrifin af þvílíku og kaupi ekki oft sætt í bakaríum. Finnst mitt eigið betra. En þarna voru þessir miðvikudagssniglar 3 fyrir 35. Og ég alveg fárveik, hugsaði með mér að kannski ætti maður bara að gera eins og aðrir bæjarbúar en ekki alltaf vera á þvers. Spurði örlítið búttuðu afgreiðsludömuna hvað bara einn kostaði… 15kr. En hún var snögg…

Afgreiðsludaman: „margborgar sig að kaupa 3 í staðin fyrir 2“

Ég: „mikið rétt… en bara spurning hvort maður borði 3“

A: „hvað eruð þið mörg í heimili?“

É: „2 akkúrat núna, en 4 seinna í dag“

A: „já, þá veitir ykkur ekkert af 3…“

É: „ég veit ekki… finnst þetta svoldið mikið“

A: „nei nei þetta hverfur eins og dögg fyrir sólu…“

Og ég asnaðist til að láta hana plata mig, telja mér trú um að við séum gráðug fjölskylda og keypti 3 fyrir 35.

2013-05-08 10.29.42

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við erum ekkert að tala um lítil stykki… þetta eru hlunkar!

9 klukkustundum síðar…

2013-05-08 13.04.52

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef ég þekki mig rétt, á þetta eftir að liggja á bekknum út vikuna og enda síðan í ruslinu á sunnudaginn!

p.s. ef þið eruð skuggalega glögg, þá er þetta ég þarna í skeiðinni 😉

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *