Fjallgangan á Qaqqartivakajik (Sømandsfjeldet)

Ég er enn á Grænlandsslóðum… á eftir að segja ykkur frá fjallgöngunni minni.

Fyrra kvöldið fórum við í siglinguna sem ég er búin að blogga um… Það var þegar Glaður drakk sig ofurölvi en kom okkur þó í höfn heilum og höldnum.

Seinni daginn fórum við í Blómadalinn og í kaupfélagið… Allir þurftu að sinna sínum áhugasviðum og því var ekki tími til að klífa Qaqqartivakajik (Sömandsfjeldet) fyrr en eftir kvöldmat seinna kvöldið. Ég var búin að spyrjast fyrir um fjallið á nokkrum stöðum og alltaf var sama svarið… jú jú fínt fjall en ekki fara ein.

2013-08-07 06.35.57

Ég ákvað að spyrja ekki ýtarlega afhverju ég ætti ekki að fara ein því ég vildi ekki vita svarið. Ég ætlaði á þetta fjall… gat bara ekki farið frá Grænlandi án þess að hafa farið á einn topp. Reyndar var mér sagt á einum stað að það hefði dáið kona þarna í vor því hún rann í fönn og á stein.

Ég talaði við hótelstjórann áður en ég lagði af stað til að fá leiðbeiningar um hvar væri best að fara upp. Hann sagði mér það… eftir Blómadalnum, til vinstri, meðfram fjallinu og svo upp. En að ég ætti að passa mig á að lenda ekki í sjálfheldu og hvort ég væri ekki örugglega með síma, því það væru 1-2 staðir þar sem þeir dyttu inn í fjallshlíðinni og svo upp á toppnum. Jú, ég var auðvitað með síma. Hann sagði mér að drífa mig á stað því ég hefði ekki mikin tíma, það væri komið myrkur kl 22.30. Ef ég væri fljót, og myndi hitta á réttu uppleiðina væri ég rétt rúmlega 3 tíma. Og að það væri stígur upp en að fæstir sæu hann því hann væri svo óskýr.

Og já, veðrið var skýjað! Og þoka á toppnum on/off en að mestu off. Kemur það á óvart… nei!

Ég arkaði af stað inn Blómadalinn og lá þessi óskapans ósköp á.2013-08-06 19.18.09 - Copy

Og var þvílíkt spennt!

2013-08-06 19.19.28

Og í æðubunugangnum gleymdi ég flestu sem hótelstjórinn hafði sagt og var ekkert að tvínóna við hlutina, ákvað að taka toppinn á ská.

Í staðinn fyrir að fara meðfram fjallinu, ákvað ég bara að fara ská upp, til að flýta fyrir. Þetta virtist lítið mál. En það var svolítið mál, enginn stígur, bratt og oft íllt yfirferðar. Og hvað gerist svo? Þokan birtist. Var ég búin að segja ykkur hversu þokuhrædd ég er? Er allavega frekar þokuhrædd ef ég er ein á ókunnugum slóðum án símasambands. Frá skala 0-10 er ég líklega 7 þokuhrædd.

Ég hélt samt áfram í þónokkurn tíma, náði ágætlega hátt upp, en þokan þykknaði bara á toppnum og því sá ég engan tilgang í að reyna við hann. Hvorki með uppgönguleið, útsýni né símasamband. Ég snéri við. Hundfúl. Rúmlega hundfúl.

Stoppaði eftir smá stund í örfáar mínútur til að drekka og e-ð. Á meðan læddist þokan í burtu og það varð bjart á toppnum. Ég varð ýkt glöð og snéri við á punktinum og ÆTLAÐI upp.

Ákvað að splæsa í eina sjálfsmynd svona til vonar og vara ef þokan kæmi aftur.

2013-08-06 20.56.41

Ef þið eruð glögg þá sjáiði ísjaka á bakvið mig. Örugglega sami ísjakinn og á instagramminu mínu frá siglingunni. Svona sjálfsmyndir eru rándýrar fyrir batteríið í símanum og mér til mikillar furðu var sáralítið batterí eftir þessa einu mynd. Ég hafði gleymt að hlaða símann í kvöldmatnum! Ég var að verða batteríslaus. Frábært! Auk þess keyrði Endomondo líka því ég VARÐ að skrá þessa göngu þar!

Ég gekk eins hratt og ég gat, upp og yfir snarbrattar fannir, klifraði í klettunum en velti fyrir mér hvar í ósköpunum ég kæmist upp. Því fyrir ofan blöstu hamrarnir við… ég var örugglega á kolvitlausum stað, farið að örla örlítið á lofthræðslunni (sem mér er nokkurnvegin batnað af eftir Kirkjufellið 2012) og farin að passa mig á að lenda ekki í sjálfheldu. En ég þurfti ekki að velta þessu mikið lengur fyrir mér…. því þokan skall á aftur!

2013-08-06 20.21.05

Af miklum krafti… grámygluleg eins og undanrenna. Og ekki nóg með að hún var í fjallinu heldur breiddi hún úr sér útum allt. Niður hlíðina, oní dalinn, yfir vatnið… yfir allt. Og ég varð alltíeinu frekar hrædd. Því eins og ég er búin að segja ykkur í hverri Grænlandsfærslu, þá er EKKERT líf fyrir utan bæinn, hvorki fuglar, spendýr, sveitabæir, annað fólk, flugumferð, bílaumferð í fjarska… EKKERT. Maður er ALEINN. Og ég er venjulega ekki hrædda týpan. En þarna fékk ég óttann beint í hnén. Ég snéri aftur við og fór eins hratt og ég komst niður og er öllum góðum vættum þakklát fyrir að hafa ekki stungist á hausinn í þessarri ófærð. Ég komst frekar langt niður, ekki alveg samt, kannski svona 3/4. Og hvað haldiði nú að hafi gerst?

???

Þokunni létti á svipstundu og þetta fallega kvöldsólarlag birtist. Þið hugsið örugglega með ykkur að ég sé að ýkja… en það er ég ekki.

Og hvað haldiði að ég hafi gert??? það var enn þokkalega bjart og fyrst ég tapaði fyrir Strandartindinum gat ég ekki hugsað mér að tapa tvisvar á tveimur vikum fyrir tveimur toppum! Það var heldur ekkert víst að ég ætti eftir að koma aftur til Tasiilaq og fá annan sjens.

2013-08-06 21.40.38

Ég snéri aftur við! Og fór upp mikið lengra til hægri fyrst ég var komin svona langt niður. Þarna var ég orðin svolítið þreytt, bæði eftir 10 km göngu um Blómadalinn og hæðirnar þar fyrr um daginn og orðin frekar þreytt á þessu fjalli! Eiginlega frekar pirruð. Og svöng. Þetta danska nautakjöt sem hafði verið í kvöldmatinn var löngu gufað upp! En því var bjargað á hlaupunum með epli og súkkulaði.

En ég rambaði á uppgönguleiðina… jeminn hvað ég varð fegin og upp komst ég. Eða ég hélt það… þá blasti sjálfur toppurinn við mér. Og þá var kl. að verða 22. Upp á toppinn fór ég í loftköstum sendi mömmu sms, tók 3 myndir og þá dó síminn.

2013-08-06 21.55.29

 

2013-08-06 21.56.28

Þarna fyrir miðju sést bærinn Tasiilaq (ef maður rýnir vel).

2013-08-06 21.55.48

Ég hefði viljað vera lengur á toppnum og fara útá allar brúnir en það var farið að skyggja verulega og ég átti eftir að fara niður aftur, svo stoppið varði einungis í örfáar mínútur.

Þegar ég var komin niður úr fjallinu var komið svarta myrkur, ég var þokkalega sátt eftir ca 9 km göngu, upp og niður, upp og niður, upp og niður og veðrið var frábært í myrkrinu. Svo myrkrið kom ekki að sök á leið heim eftir Blómadalnum… nema þegar ég fór framhjá hundunum… ég hélt virkilega að þeir væru lausir!

Þegar ég kom til Tasiilaq voru bæjarbúar í óða önn að fagna því að það væri þriðjudagskvöld… 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *