Laugardagur í stuttbuxum

Ég byrjaði daginn í dag á því að fara niður í bæ í apotekið… lá svakalega á… vantaði pillurnar mínar! Kíkti við hjá nýju verslunarmiðstöðinni sem heitir Borgin og opnar á þriðjudaginn. Það er allt að gerast… garðyrkjumennirnir gera blómabeðin klár, vegagerðin klárar að flísaleggja og fleira sem ég hef ekki vit á, vörurnar streyma inn…

2013-09-28 11.21.08

…þarna voru naríurnar að renna í hlaðið… það er allt á fullu inní og fyrir utan bygginguna og stemmingin er gífurleg.

2013-09-28 11.22.41

Það koma fullt af fínum búðum og bæjarbúar binda sérstakar vonir við breytt og betra H&M. Í þessi 13 ár sem H&M hefur verið í Sönderborg, höfum við átt metið í verstu H&M í heiminum!

2013-09-28 11.25.45

En þar sem ég fæ höfuðverk og magaverki inní verslunarmiðstöðvum og forðast þær eins og heroín, hjólaði ég mótmælatúr um miðbæinn og fann nýja búð inní þessum bakgarði. Það er kærustupar sem rekur þessa búð, þau eru 19 og tvítug. Pabbinn var að leysa af og spjallaði þessi ósköp. Hann sagði mér frá öllu sem konan hans hafði keypt í búðinni og að hún ynni í apotekinu. Og að hún væri eiginlega eins og ég. Eiginlega alveg eins… að hún ynni í apótekinu og væri með eiginlega alveg eins mitti og ég. Og eiginlega bara alveg eins vaxin. Ca. nákvæmlega eins og ég. Og að hún ynni í apótekinu. Ég endaði á að kaupa kjól. Síðan var samtalið við kassann ca. á þessa leið: 

Hann: „hérna hreimurinn þinn… sko bróðir minn á konu frá Póllandi…“

Ég: „já?“

Hann: „já ég var bara að spá…?“

Ég: „spá?“

Hann: „já, hvort þú værir líka frá þeim slóðum?“

Ég: „jú jú, frá svipuðum slóðum…“

Hann: „áttu vinkonu?“

Ég. „held það“

Hann: „þá ætla ég að gefa þér 2 miða í ókeypis kaffi á Figo“

Ég: „takk“

Þannig að nú er ferðinni heitið á Figo… hef ekki stigið fæti mínum þangað inn síðan við vorum að taka upp atriði fyrir þorrablótið og breyttum kaffihúsinu í upptökustað á svipstundu án þess að spyrja kong né prest. Þar áður hafði ég ekki komið inn á Figo síðan við héldum jólafrokostinn Þar og ég stjórnaði gangnamstyle dansi með harðri hendi, með óbilandi trú á að ég væri ótrúlega góð í þessum dansi. Harðneitaði reyndar að ég hafði gert þetta, þangað til sannanarnar tóku að berast í litlum videoum inn á símann minn næstu dagana á eftir.

En allavega, ég keypti kjól af manninum… og ég sem fæ alltaf hausverk og magaverki af karlmönnum sem tala of mikið… sítalandi karlmenn og verslunarmiðstöðvar eru ca. það sama.

2013-09-28 11.39.12

 

Þetta er kjóllinn.

2013-09-28 11.28.34

 

Útaf Borginni er verið að endurskipuleggja gatnakerfið í kringum miðbæinn… það er komin einstefna á Kongevejinn og Möllegade… Svo kæru gestir… þið komist ekki hvaða leið sem er heim til mín. Litli bærinn minn er að verða big city!

Dagurinn í dag er búin að fara í tiltekt í garðinum og viðgerðir hingað og þangað. Búið að slá grasið, klippa runnana, klippa tré, sópa lauf, gera við hurð, gera við tröppur, þvo 37 vélar, kenna Vaski að hoppa og blogga úti. Það er reyndar að verða svoldið svalt enda sólin að hverfa á bakvið himinháa og stjórnlausa eplatréð. Geggjaður dagur í geggjuðu veðri… líklega síðasti eða næst síðasti stuttbuxnadagur ársins. Og dagurinn í dag er búin að vera fínn þrátt fyrir að ég sé með fyrirtíðaspennu aldarinnar!

2013-09-28 14.00.32

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *