Ertu í vandræðum með augabrúnirnar á þér eða makanum?

Ég sat á biðstofu í dag og fletti tískublaði. Þar sá ég ráð aldarinnar sem allar manneskjur geta nýtt sér.

Það þekkja það nánast allir að augabrúnir geta verið óstýrilátar… bæði í allar áttir eða leka niður. Ótrúlega pirrandi fyrirbæri. Ég strýk fólki oft yfir augabrúnirnar og hugsa enn oftar um að gera það án þess að gera það.

Ég er sjálf með frekar löng hár (en þó slétt) sem eiga það til að benda niður á við ef ég lít af þeim.

2013-10-15 22.19.17

Og ráðið í blaðinu var það að taka þokkalega hreinan tannbursta og hársprey og spreyja hárspreyji í tannburstann og bursta yfir. Allir eiga tannbursta og hársprey. Ef einhver á ekki þetta tvennt, þá er bara að fara í 10/11 – 7/11 og versla strax í kvöld. Þetta tvennt er must have!

Mikið hefði verið athyglisvert ef t.d. Jón dýralæknir (á Aglastöðum) hefði vitað af þessu ráði hérna í denn. Ástæðan fyrir því að mér fannst aldrei neitt ógeðslegt við hans aðgerðir, hvorki þegar hann var hálfur inní kind eða klippti eistun af tryppunum, var sú að ég var svo hugfangin af augabrúnunum hans. Ég elskaði þær hreinlega. Ef hans hefðu verið burstaðar með tannbursta og hárspreyji hefði sveitamennskan og dýralækningarnar kannski haft allt öðruvísi áhrif á mig. Svo ég tek þetta til baka… það þurfa ekki allir að eiga hársprey…

Annars er haustfrí í skólum og vinnum… var ég nokkuð búin að minnast á það áður? Ég er á 4 degi af 14. Ég á eftir að bilast… Fúsi segir að ég þurfi að læra að vera í fríi og gera ekki neitt sérstakt. Hann sagði: „lestu bara bækur…“. Ég þarf að hafa upp á bók sem heitir held ég Auður…

Annars var umferðin hérna í húsinu áðan svipuð og á Vejlefjarðarbrúnni á góðum seinniparti. Allir 16 ára strákar í Sönderborg þurftu að pissa í okkar klósett, bæði uppi og niðri, Aldís var með umgang með sínum fylgifiskum og Vaskur skildi hvorki upp né niður. Vildi heilsa öllum en var þvingaður til að sitja kjurr við stofuborðið. Stundum er lífið hans engin dans á rósum…

2013-10-15 22.28.47

Það er samt oft broslegt hvernig hann stendur, liggur eða situr…

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *