Árið 2013 sem leið

Loksins komið nýtt ár. Alveg kærkomið ár. 2013 var með eindæmum lærdómsríkt og þroskandi en jafnframt það erfiðasta síðan stofnun fjölskyldunnar. Það að vera skyndilega kúnninn í kerfinu og þar með þiggjandinn er alltönnur staða en ég eða við erum vön að vera í. Hjólin hafa ekki alltaf snúist eftir okkar þörfum og vonum en þá hefur komið sér vel að þekkja heilbrigðiskerfið nokkurnvegin, vera passlega mikil frekja, brosa og vera með eindæmum uppáþrengjandi…

Við höfum sem betur fer upplifað að kerfið, eða einstaklingar innan kerfisins hafa óbilandi áhuga á okkar málum og eyða dýrmætum tíma og frítíma í að styðja og stoða, sem er ekki sjálfgefið í nútíma samfélagi og niðurskurði á þeim sem minna meiga sín. Að sama skapi höfum við líka upplifað höfnun, skilningsleysi og stífni, sem litar snarlega nokkur hár til viðbótar, grá.

En af erfiðileikunum lærir maður, fordómarnir og aðrir dómar minnka og sjóndeildarhringurinn víkkar… enda væntanlega komin tími til. Og það er minnsta mál að lita gráu hárin.

Árið 2013 hefur líka verið skemmtilegt og ef ég stikla á stóru þá hefur eftirfarandi gerst:

 • Í janúar skelltum við upp þorrablóti ásamt góðum vinum. Gerðum kl.t. langa kvikmynd og skemmtum okkur vel.

2013-02-02 23.44.08

 • Nokkuð hefur verið um tónleika á árinu og að öllum tónlistarmönnum ólöstuðum þá stendur PINK upp úr. Yndisleg upplifun það með Aldísi í Herning.
 • Vaskur flaug frá Íslandi 23. mars og varð einn af fjölskyldunni. Hann hefur auðgað fjölskyldurlífið okkar mikið og gætum við ekki hugsað okkur tilveruna án hans, þrátt fyrir  hellings vinnu með svona gaur á heimilinu.

2013-03-28 15.46.03

 • Það sem Svölu finnst standa upp úr á árinu eru vinirnir. Bæði hafa böndin við æskuvinkonurnar styrkst og nýjir og góðir vinir bæst í hópinn. Vaskur hefur líka þýtt mikið fyrir hana og eru þau óttalegir hvolpar saman.
 • Af vinnunni minni er það helst að frétta að niðurskurðurinn heldur áfram og er nú búið að skera hnausþykku neyðardömubindin niður…
 • Fúsi hefur líklega verið rólegastur af okkur á árinu. Það helsta er að hann sér talsvert verr en áður og heyrir enn verr. Hann hefur þróað með sér vægan kvíða og þá aðallega gagnvart símanum mínum… hann vill ekki fara á kvíðastillandi lyf en hefur beðið mig ofurfallega um að hætta að taka laumumyndir af honum, og þá sérstaklega nöktum. Hann hefur hótað mér rólega að hann sæki sleggju og mylji símann minn ef ég held mínum myndaofsóknum áfram. Þessvegna engin mynd af honum.

IMG_1751Síðan afrekaði hann aleinn að borða um 2,7kg af Mackintoshi á 6 dögum yfir jólin (hann hætti að reykja í vor). Við mæðgur fengum ca. 200g.

 • Aldís varð 18 ára í ágúst og fékk langþráða bílprófið í haust.

IMG_1223Henni finnst mjög skemmtilegt að keyra við mikin feginleik foreldranna. Nú getum við sent hana eftir systur sinni og hinu og þessu. Nema hún neitar að fara og versla fíkjur, döðlur, WC pappír og sardínur í dós. Hún hélt annars áramótin í Wales og er sú sem hefur ferðast einna mest og lengst á árinu.

 • Mér var sýndur sá heiður í vinnunni að fá stöðuhækkun og varð ég það ánægð að ég ég réði ekkert við mig og þurfti ég að blogga um það á sínum tíma. Eins hef ég verið ötulri við að taka þátt í hinum ýmsu online herferðum gegn hinum ýmsu mannréttindarbrotum og því á góðri leið með að verða aktivisti á gamals aldri.

2013-01-07 03.15.50

Þessi mynd sýnir bæði nýju stöðuhækkunina og mig sem aktivista.

 • Eitthvað var um ferðalög á árinu og voru eftirtalin lönd heimsótt: Austurríki-Wales-Þýskaland (ekki bara Flensburg)-Noregur-Ísland-Grænland og Bandaríkin. Þó má þess geta að það fóru ekki allir fjölskyldumeðlimir til allra landanna og einu löndin þar sem við vorum öll á sama tíma voru Þýskaland og Austurríki. En meira og minna frábærar ferðir sem lifa endalaust í minningunum þrátt fyrir að sólin hafi ekki beinlínis elt okkur þvers og kruss yfir landamærin.

2013-07-03 17.15.39

Þetta var standardklæðnaður í mínu sumarfríi!

Annars hef ég hugsað mér að njóta 2014!

Ég ætla að njóta þess að vera í fastri og góðri vinnu, njóta þess að geta hreyft mig, njóta þess að eiga gönguskó og hafa aðgang að perlum Íslands, njóta þess að eiga góða vini og hund og njóta þess að dætur mínar búi enn í foreldrahúsum því mér er orðið ljóst að tíminn gengur ekki afturábak!

IMG_1245

Njótið þið líka 2014! Gleðilegt 2014!

 

Trackbacks & Pings

 • Árið 2014 « Alrunarblogg :

  […] ári síðan bloggaði ég um árið 2013 og kvað það vera það erfiðasta í sögu okkar litlu fjölskyldu. 2014 hefur líka verið […]

  9 ár ago

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *