Árið 2014

Árið 2014 er að líða undir lok, þetta heldur betur viðburðarríka ár.

Fyrir ári síðan bloggaði ég um árið 2013 og kvað það vera það erfiðasta í sögu okkar litlu fjölskyldu. 2014 hefur líka verið erfitt, en öðruvísi. Mikið sveiflukenndara -eiginlega eins og rússibani. Gott og verra ár.

Bloggið hefur verið framleiðslusamt í meira lagi, næstum blogg annanhvern dag að meðaltali. Enda hef ég ekkert betra að gera. Og þar sem þið virðist lesa mig og ég frétti reglulega af sjálfri mér út um allt land, þá held ég bara áfram að skrifa allt þetta afar misgáfulega sem mér dettur nú í hug. Myndirnar fyrir bloggið tek ég í langflestum tilfellum sjálf, nema þær sem eru augljóslega stolnar af netinu eða ég tilgreini annað. Allt sem er litað rautt í textanum hér á eftir inniheldur link á umræddar færslur. Vinsælustu færslurnar á árinu voru flestar skrifaðar á Íslandi eða sterkt tengdar Íslandi. Hvað er það? Tákn…? Um að vera meira á Íslandi? Já, ég held það bara.

Ein af bullfærslum síðasta árs sem fékk ágætis lesningu, var færslan um veikleika Gamla Gaurs og hvernig hann vill raða í skápana… Sú færsla innihélt líka áfallið sem ég varð fyrir þegar ég frétti að það væru væntanlegir 40 þús. skátar í bæinn okkar.

IMG_5585

Samkvæmt blogginu erum við eiginmaðurinn í stanslausum erjum út af öllum mögulegum hlutum. Get alveg uppljóstrað hér með að næsta erja verður um, hvenær jólatréð verður tekið niður. Ár eftir ár… sama erjan.

Einn daginn árið 2013 varð ég frekar reið… fékk alveg nóg af dónalegri mynd sem hafði flórerað á facebook í marga mánuði. Og bloggaði um hana og vigtina þann daginn. 

1346604385975_4124333

Allar svona myndir á að klaga fyrir facebook.

Tvo daga á þessu ári hef ég nánast farið yfir um af taugaveiklun, svo mikilli að ég æddi um gólf og át allavega fjóra fingur svo að það blæddi. Fyrri dagurinn var í lok mars, þegar Áskell pabbi fór í viðtalið hjá krabbameinslækninum til að fá svar út úr rannsóknunum. Ég var undirbúin fyrir óskemmtilegt svar, vissi bara ekki hversu óskemmtilegt. Ég var ekki með og líklega þessvegna viðþolslaus.

Stuttu seinna fór ég til Íslands til að vera með í ferlinu og vera hjá mínum nánustu. Það var ferð sem tók á en jafnframt góð ferð. Húsið á Eiðum fylltist því fjölskyldan sameinaðist í erfiðleikunum og reynt var að gera það besta úr hlutunum. M.a. fór ég norður með Sævari pabba til að sjá brot af Akureyrarfjölskyldunni minni. Ferðin var skemmtileg og fékk slatta af like´sum. 

IMG_6391

Seinni dagurinn sem ég var ein taugahrúga var í lok júní og ólíkt skemmtilegri, en það var þegar Aldís fór í sjálft stúdentsprófið. Munnlegt próf þar sem húfan er sett upp strax á eftir. Ég hreinlega tárfelldi af stressi og vel það. IMG_7186Já mér fannst þetta stórmerkilegt og mikill sigur! Fæ enn gæsahúð við tilhugsunina.

Það var haldin stúdentagleðskapur fyrir „fjölskylduna“ í Sönderborg og aftur á Eiðum.

Öll fjölskyldan fór til Íslands í sumarfríinu. Við keyrðum austur og tókum pabba sem hafði verið innlagður á Akureyri, með austur. Það var ýmislegt skemmtilegt gert í góða veðrinu í sumar.

Ein af færslunum síðan þá var gangan á Hólmatind. Innihélt alveg helling af myndum, sáralítinn texta og fékk held ég bara flest like´s af öllum færslum 2014. Þýðir það að ég á að skrifa minna?10575317_10204303301600621_5912796863747116688_o

Þessi mynd dreifðist líka víða, m.a. alla leið vestur á firði og út fyrir landssteinana. Enda var þessi ferð mjög mjög mjög skemmtileg!

Önnur færsla sem innihélt líka mestmegnis myndir var frá vorferðinni minni þegar við fórum á Seyðisfjörð. IMG_5763Það heyrir til Íslandsferðar að fara á Seyðis.

Eiginlega eina færslan árið 2014 þar sem ég skrifa eitthvað af viti (að mér sjálfri fannst) var útlendingafærslan.  10369109_10205232706475162_8092937545792482168_nÞað fer oft óskaplega fyrir brjóstið á mér hvernig alltof margir Danir og samlandar mínir tala um og meðhöndla útlendinga. Í dag eru flóttamannabúðirnar í Sönderborg upplýstar og fullar af lífi.

Síðan gerði ég færslu um sambúðarleiki sem varð frekar vinsæl og mikið notuð í heimahúsum. 524315_4332736394545_657311662_nGamli Gaur er afar þakklátur fyrir að ég skuli stunda þessháttar leiki og segir að það geri hjónabandið mikið skemmtilegra.

Pabbi kom í heimsókn í september. Og það var alveg yndislegt!

IMG_9186

Við þurftum svo rúmlega sex vikum seinna að mæta í jarðarförina hans og það voru þung sporin að bera hann til grafar. Ljósi punkturinn í veikindaferlinu hans, var hversu mikinn tíma við fengum saman, bæði á Íslandi og í Sönderborg og tengdumst við meira við það. Ég fór aftur til Íslands í desember og naut þess að vera bara á Eiðum. Kláraði ritgerðina, kreisti hvolpana, skrifaði jólakort og gerði laufabrauð með mömmu og Aldísi. Veðrið lék líka á alls oddi og komst ég varla lönd né strönd.

IMG_1856 IMG_1968

Já, árið hefur verið vindasamt. Mesta hviðan í kringum pabba. En á móti kemur að sólin skein ansi skært þegar Aldís fékk húfuna á kollinn.

Annars er eftirfarandi að frétta af familíunni;

Fúsi eða Gamli Gaurinn minn er að verða nokkuð góður eftir heljarinnar íþróttameiðsl fyrir mörgum árum síðan. 10726487_10203791118991324_905270067_n

Þarna sést hann á leið til sjúkraþjálfa með fjárans poka undir handleggnum. Við höfum ítrekað rætt þetta! Að maður fer ekki með handklæði í hvítum ruslapoka til sjúkra. (Begga tók myndina þar sem hún spottaði hann…). Hann hefur annars fengið sterkari gleraugu síðan í fyrra og heyrir svipað ílla. Reyndar sendi ég hann til heyrnalæknis í haust. Heyrnalæknirinn sagði að heyrnin væri ekki alvarlega slæm… afhverju hann hefði eiginlega komið? Fúsi svaraði að konan hefði sent hann. Læknirinn dæsti og sagði: „þú ert ekki sá fyrsti…“. 

Aldís vann á Gistihúsinu á Egilsstöðum fram eftir hausti, er enn einhleyp, fór til Indlands á árinu og búin að fá vinnu á Colosseum (veitingarstaður í Sönderborg).

10682179_10152620944892017_2857959233602331988_o (1)

(myndinni er stolið af netinu).

Hún er jafn morgunfúl og áður og meikar ekki mótvind þegar hún hjólar. Að öðru leyti er hún nokkuð blíð og góð og ég má fá allt lánað hjá henni sem mér dettur í hug. Hún stefnir á aðheimanflutning á nýju ári.

Svala kláraði 10. bekkinn með stæl, byrjaði í menntaskólanum í haust og vinnur í Bilka. Árið hefur verið henni auðveldara en síðasta ár þótt það komi dagar sem eru dimmari en aðrir.

1477787_10202737311171839_2078283767_n Hún er líka einhleyp (já nei, það verður ekki bloggað meira um Schumacherinn) en er sjálfri sér lík hvað varðar félagslyndina. Oft leyfir hún hálfri Sönderborg að gista á efri hæðinni því hún býr næst bænum. En hvað er það… stundum var sofið á eldhúsgólfinu og á ganginum á Tókastöðum í gamla daga.

Ég er bara við sama heygarðshornið, segi lúna brandara í vinnunni, sakna Íslands meira og meira, þarf að taka mig á í ræktinni áður en allt fer til andskotans og er hætt við að nota gleraugu. Mig hlakkar til að skrifa fleiri lokaorð í Austurgluggann og vona að þið hafið gaman af.

Að lokum yrði ég ægilega þakklát ef þið vilduð láta bloggið mitt berast. 2014-12-31 08.28.07

Til þess þarf að bjóða (invite) vinunum til að like´a. Athyglissýkin kallar á fleiri like´s en eins og ég hef nefnt áður, þá neita ég að kaupa mér þau fyrir slikk því það þjónar engum tilgangi að fá pakistönsk og kínverks like´s. Þeir skilja mig nefnilega ekki. Já vissuði að það er hægt að kaupa sér like´s fyrir lítinn pening? Að facebook er með menn í vinnu sem sitja bara og like´a daginn út og daginn inn hjá fólki sem kaupir like´s?

Kæru lesendur, kæru vinir. Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla. Þið hafið verið ómissandi. Takk fyrir öll like´sin, kommentin, bloggkossana í Kaupfélaginu og peppið.

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *