Þegar hundurinn pissaði á áramótin…

Gamlárskvöld, þetta litríka og fallega kvöld sem manni finnst alltaf svo bæði og. Hjá okkur fór það afskaplega rólega fram, ekki verið svona rólegt í manna minnum. Reyndar er Gamlárskvöld alltaf í rólegri kantinum hjá okkur, engin út úr drukkin né gubbandi, því ég vel alltaf að vera í fríi á jólunum og það kostar vinnu á áramótum. Vaktin í nótt var líka róleg og engin af okkur gjörhjúkkunum undir áhrifum þrátt fyrir að hafa skálað í sérstöku Gjörgæslukampavíni með rótsterku sítrónubragði. Við vorum bara fjögur að vinna en samt eitt allsherjar einvalalið og þar á meðal nýi olíuborni vinnufélaginn hann Mulrik sem tók að sér að raula þýsk áramótarlög með tilheyrandi þjóðarstolti og áramótasúkkulaði. 

2015-01-01 00.27.00 Það hvarflaði að mér að taka myndavélina með í vinnuna og þykjast fara á klóið en laumast í staðin upp á efstu hæðina og freista gæfunnar í flugeldamyndatöku. Gerði það ekki, líklega sem betur fer því ég hefði endað með lungnabólgu og í öndunarvél á mínum eigin vinnustað. Það þarf að taka svona myndir á tíma og það tekur tíma!

10848953_10203420073002390_8759863423490463078_o

Svona mynd myndi ég alveg vilja taka… þar sem snúningurinn næst líka! Þessa tók Kristján Svavars frá Hjaltastaðaþinghá (sem er við hliðina á Eiðaþinghá). Þetta er flottasta flugeldamynd sem ég sá á facebook um þessi áramót.

Vaskur átti afmæli í gær, á hans erfiðasta degi ársins. Við buðum honum út að borða og valdi hann sér seinsteikta rjómalagaða önd með litlum kofareyktum hangikjötsbitum frá KEA út í. Með þessu drakk hann vatn úr drullupollunum í traktorsförunum.

IMG_9907Hann hætti að pissa út í garði ca. 29. desember. Í gær kreysti hann ca. 5 ml út kl. 18 þegar fólk var inni að borða. Síðan ekki dropi meir fyrr en ég fór með hann í göngutúr kl. 7.15 í morgun, þegar bæjarbúar voru í fastasvefni. Þá var aldeilis af nógu að taka.

Margir af hinum skotglöðu bæjarbúum fannst hentugast eða höfðu ekki aðra möguleika en að skjóta upp af götunum, enda fín lýsing og allt slétt og fínt. Sem er gott mál nema hvað Kóngavegurinn okkar megin var undirlagður í papparusli, glerbrotum og stórum tertukössum í morgun. Þetta er gömul gata og því engin hjólastígur. Það sama gildir um Helgolandsgötu og lá ruslið og stóru tertukassarnir þar líka út um allt. Það var varla hjólafært á götunum í morgun.

Við Vaskur röltum eftir gangstéttinni á Kóngaveginum í morgun og við fyrsta tertukassann gerði hann sér lítið fyrir og merkti sér hann. Án þess þó að virða hann viðlits. Ég hugsaði: „æ, grey fólkið sem á eftir að taka til eftir sig…“ En strax á eftir hugsaði ég: „afhverju er fólkið ekki búið að taka til eftir sig???“ Það missti engin hvorki lappir sé hendur í Sönderborg í nótt og hefði því ekki munað um að taka ruslið með sér inn á lóð eftir að hafa dritað þessu upp á fjölfarinni götu. Ef það er hægt að bera þetta út, er hægt að bera þetta inn líka!

IMG_9924Vaskur sem var enn sár út í flugeldana fyrir að hafa raskað fyrir sér afmælisdeginum sínum svo þvagblaðran yfirfylltist og hann byrjaði að tárast, hélt uppteknum hætti og merkti sér alla tertukassana með ágætis sprænu. Að auki var hann óvenju hittinn… bara bunað frá gangstétt og vel yfir terturnar á götunni. Og ég var alltof sybbin og pirrí pí út í sóðaskapinn eftir fólk til að banna honum það.

IMG_9948

Nú blöskrar líklega einhverjum… að mér finnist í lagi að hundurinn mígi bara út um allt. Það er allt í lagi, einhverjum má blöskra. Því að öllu jöfnu má hann ekki pissa utan í eigur annarra, t.d. hjól, tröppur, ruslakassa/poka osfrv. Allsekki. Og ég þríf alltaf upp nr. 2 eftir hann. ALLTAF. Þessvegna ætlast ég til að aðrir gangi líka vel um, líka á Gamlárskvöld.  Kl. 17 í dag var enn rusl og glerbrot á götunum. Veit ekki hvort fólk heldur að bæjarstarfsmenn sjái um að hreinsa upp eftir það í íbúðarhúsagötum á sjálfan Nýársdag eða vonast til að þetta fjúki eða eyðist? Er alveg sannfærð um að landar mínir, hvorki hér né á Íslandi, myndu skilja göturnar við sig á þennan hátt eftir gleði næturinnar.

Úff, þetta er frekar lélegur stíll hjá mér, að byrja bloggárið 2015 svona með nöldri og hundapissi. Geri þetta aldrei aftur. Ég hefði mikið frekar átt að segja ykkur einhverja sögu af eiginmanninum eða hvernig okkur fannst skaupið. Næst verð ég jákvæðari… EF fólk tekur til eftir sig.

(Myndirnar af Vaski eru teknar í skóginum í gær, ekki þegar hann pissaði á terturnar í morgun).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *