Nýi vinnufélaginn.

Það voru stórir hlutir að gerast á gjörgæslunni nú á dögunum. Við fengum nýjan hjúkrunarfræðingsvinnufélaga! Karlmann! Fyrst fengum við tölvupóst þar sem hann var kynntur fyrir okkur og þrátt fyrir að nafnið hans stæði þarna skýrum stöfum, fannst mér hann heita Martin. Nafnið hans á EKKERT skylt við nafnið Martin, síður en svo. Fyrsta daginn var hann kynntur fyrir öllum hans stórundarlegu vinnufélugum. Ég held að ég hafi brillerað í bjánaskap þegar ég tók þéttingsfast í höndina á honum og spurði: „er okay að ég kalli þig Martin?“ og brosti eins breitt og ég gat. Hann hikaði aðeins og sagði svo já. Kurteisin uppmáluð, fyrsti dagurinn og allt -það.

Hinar tóku mig á teppið og harðbönnuðu mér að kalla hann annað en skírnarnafni hans. Ég ákvað að gegna því og hef því reynt að gera mitt besta. En það hefur gengið upp og ofan. Nafnið hans byrjar á sérhljóða, segjum bara að hann heiti Ulrik (sem er ekki satt) og þar sem ég verð alltaf frekar stressuð (yfir að segja óvart Martin), segi ég alltof oft Mulrik, þ.e.a.s. ég bæti M fyrir framan.

Í blogginu kemur hann til með að heita Mulrik, það liggur beinast fyrir. Mulrik er aðeins yngri en ég, himinhár og grannur, með dökkt þykkt hár og ísljósblá augu.6FhgZ

(Mulrik er næstum því lifandi eftirmynd þessa gaurs sem ég fann á netinu)

Ég fór beint og athugaði á hvaða helgum hann yrði og viti menn, ég hreppti stóra vinninginn þarna, því hann er á mínum helgum og helst á næturvöktum eins og ég. Ég dansaði sigurdansinn í 2 klukkutíma þennan dag og leyfði hinum sem ekki höfðu hreppt hann á sínar helgar, að fylgjast með mér, hryggum augum með stóra skeifu. Við vitum það öll að karlmenn eru gullsvirði á yfirgnæfandi kvennavinnustöðum til að halda skælinu í skefjum. Núna erum við 47 kvenkynshjúkkur og 3 karlkynshjúkkar á deildinni minni.

Ég legg ríka áherslu á góða samvinnu, bæði á milli okkar hjúkrunarfræðinganna sem og á milli þeirra starfsstétta sem við vinnum nánast með, t.d. lækna, sjúkraþjálfara og sendla. Það er til að skapa skemmtilegra andrúmsloft en einnig til að fá mínu framgegnt á sem auðveldastan og fljótlegastan hátt. En hvernig uppsker maður góða samvinnu á sem skemmstan og auðveldastan hátt? Já, ég veit hvað þið hugsið! Og svarið er nei! það hefur ekkert að segja að fara í hjúkkubúning XXS, smella ekki hálsmálssmellunum og nudda sér upp við samstarfsaðilana í tíma og ótíma. Ekkert! Nei kæru lesendur. Kynin eru afar lík að þessu leyti. Leiðin að lipurð, sveiganleika, hlátri og hjálpsemi liggur í gegnum magann. Strákar, gefið okkur gott að borða og við verðum eins og smjör við stofuhita. Það sama gildir um okkur gagnvart strákunum.

Ég hafði beðið helgarinnar með eftirvæntingu og að sjálfsögðu með plan varðandi Mulrik. Ég ætlaði mér í gegnum magann á honum. Datt í hug að gera íslenska maregnshnallþóru sem minnti á þjóhnappa en hætti við. Fannst meira við hæfi að láta hann halda ég væri skynsama hollustufríkin sem væri í fínu formi. Ég er nefnilega týpan sem segi upphátt eftir hádegi í vinnunni: „Æ er byrjað að rigna, ég sem er að fara að HLAUPA með stelpunum á eftir…“ eða „nei takk, ég vil ekki meira konfekt, ég er að fara í BOXTÍMA á eftir“. Bæði orðin, hlaupa og boxtími, eru sögð með meiri áherslu en hin orðin, jafnvel þótt ég sitji með símann og afboði þetta allt saman.

Þessvegna ákvað ég að baka Gulrótarbrauð með hörfræjum. Mætti síðan á næturvaktina á föstudagskvöldið og tilkynnti hátt og snjallt að það væru engin egg, ekkert smjör, engin sykur (sem er bara bull því það er hunang og það er alveg jafn óhollt og sykur) og ekkert súkkulaði í þessu. Vinnufélagarnir að Mulrik meðtöldum klöppuðu saman lófunum og hrósuðu mér í hástert.

Það var rólegt á gjörinu þessa nótt og því tími til að hvílast í 29 mínútur samkvæmt opinberum reglum og leiðbeiningum. Þegar maður er vakin, er ekki ætlast til að maður vakni hægt og rólega. Vöknunin minnir mig helst á herbúðir þar sem maður hendist á fætur og er tilbúin í hvað sem er, á innan við 10 sek. Mér tekst oftast að falla í djúpan svefn í litla sófanum í koldimmu herberginu. Og þessvegna kem ég fram í ljósið með hárið í óæskilegar áttir, annað augað lokað og haltrandi. Og þegar ég kom fram, eftir að hafa hvílst þarna aðfaranótt laugardagins, haldiði þá ekki að Mulrik hafi setið með þykka sneið af hollustubrauðinu mínu með þykku lagi af smjöri og enn þykkara lagi af Nutella, lekandi niður brauðið. Auk þess var Nutella í svartri skeggrótinni á efri vörinni á honum. Það gerði ekkert til. Mér létti þessi ósköp, skar mér sneið og gerði eins og Mulrik. Guð minn almáttugur hvað þetta bragðaðist vel. Með sameiginlegri ást okkar Mulrik á Nutella held ég svei mér þá að við verðum afskaplega góðir vinnufélagar.

img_8620

(Þessi fína mynd er fengin að láni frá Eldhússögum því ég sá enga ástæðu til að reyna að gera betur).

 

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *